Er maður að breytast? Er ég að verða þroskaðri eða er ég bara að verða eldri? Eða er kannski heimurinn ekki eins spennandi og hann var fyrir 20 árum síðan, eða 30-40 árum síðan?
Afhverju hef ég sífellt minni og minni áhuga á nýjum bílum? Það er næstum alveg sama hvað kemur á markað núna. Fyrir 10 árum síðan hefði maður rokið til og skoðað nýjasta bílinn sem var að koma í umboðið og það alveg sama hvort það var skutbíll eða sportari. En í dag kveikja nýjir bílar ekki lengur í manni.
Eins og flestir vita hérna þá á ég tiltölulegan gamlan bíl (12 ára) og hefur það breytt skoðunum mínum varanlega. Ég lít ekki lengur á nýja bíla sem spennandi nema með örfáum undantekningum. Nýir bílar verða sífellt meira óspennandi. Þetta eru allt sömu MPV blöðrurnar, húddlausir sjónvarpssófar gerðir til þess eins að maður komist á milli A og B með sem minnstri fyrirhöfn, oft þannig að maður man hreinlega ekki hvernig maður komst á áfangastað.
Bílferð er ekki lengur skemmtun í sjálfu sér heldur nauðsyn til að komast á áfangastað. Fyrir 20 árum síðan voru bílar nokkuð spennandi. Mikil gróska var í iðnaðinum í upphafi glóbalismans og nýríkt fólk keypti sér Porsche 930 og Ferrari bíla eins og það væri þeirra síðasti séns. Það má nefna Porsche 930 sem dæmi um þá hnignun hugans sem hefur átt sér stað. Í dag stendur þér vissulega til boða 911 Turbo, GT2 og GT3. En eru þetta bílar sem eru spennandi í sama skilning og 930 var? Að mínu mati er svo ekki. Vissulega eru þetta mjög öflugir bílar, aksturseiginleikarnir eru framúrskarandi og þeir eru vandaðir og þokkalegir í rekstri. En þeir eru líka miklu þyngri, með miklu öflugri vélar, miklu meiri útbúnað (sem maður hefur nákvæmlega engin not af) og ekki eins spennandi. Þessir bílar krefjast sífellt minna af ökumanninum. Ökumaðurinn er að verða þáttakandi í sinni eigin ferð á áfangastaðinn. Bíllinn er farin að skipa svo stórt hlutverk með loftkælingum, hraðastillingu og GPS að ökumaðurinn skiptir sífellt minna og minna máli.
Ef bílar væru nýjasta gerð af sjónvarpi þá miðaðist allt við að koma í veg fyrir að þú þyrftir að standa upp til að ómaka þig. Þar af leiðandi þyrfti sjónvarpið að taka við fullt af verkefnum sem önnur heimilstæki eða jafnvel þú sjálfur þurftir að sjá um áður. Fókus hönnuða á að leysa þessi verkefni sjónvarpsins draga svo úr getu þeirra til að framleiða sjónvarp sem er með framúrskarandi myndgæði og hljóð.
Ég held að ökumenn þurfi að líta í kringum sig og sjá hvað er í boði. Bílar með karakter eru ekki mjög margir í dag. Þar er ég ekki að segja að karakter felist þá endilega í því að vera gallagripur. En fyrir mitt leiti þá mun ég alltaf kjósa skemmtilegan gallagrip fram yfir hundleiðinlegan bíl sem bilar ekki.
Í nýjum bílum í dag eru nokkrir bílar sem virðast standa upp úr “drullupolli meðalmennskunnar” og hafa uppá eitthvað að bjóða fyrir þá sem hafa raunverulega bíladellu. Renault Clio sport, WRX, M3, SAXO VTS, MINI, smart, Alfa Romeo svo einhverjir séu nefndir. EN, í öllum þessum tilfellum er hægt að benda á fyrirrennara sem er eftirminnilegri. Allir þessi bílar munu verða gleymdir eftir 20 ár, ef ekki, þá verða samt sem áður minnistæðari fyrirrennarar þeirra efstir á blaði. Audi Quattro, Renault Williams, E30 M3, Mini 1000, Fiat Cinquecento og Alfa Romeo Sud eða Guilia.
Afhverju kaupir fólk sér nýja bíla? Flestir vegna þess að þeir kjósa þægilegan bíl umfram bíl sem vekur hjá þér löngun til að keyra hann. kannski hefur fólk almennt bara ekki kynnst því að aka bíl sem er svo frábær að maður fer út bara til þess að keyra, ekki vegna þess að maður er að fara eitthvað, heldur bara vegna þess að maður getur ekki beðið eftir því að keyra á honum í vinnuna daginn eftir og fer því bara strax í bíltúr!
Ég aðhyllist öfgar í þessum efnum. Annað hvort á maður þann bíl sem vekur hjá manni þessar tilfinningar, eða þá að maður á bara þann ódýrasta og hagstæðasta bíl sem maður getur mögulega fengið til að vinna það verkefni sem fyrir höndum er, það myndi þá líklega þýða eitthvað í stíl við Hyundai Accent eða einhvern annan kóreu bíl (þessir japönsku eru jú nú allt of dýrir, sér í lagi Toyota).
Það eru hinsvega óteljandi tækifæri til þess að kaupa frábæra “former glory” bíla á góðum verðum. Það þarf ekki að vera svo dýrt að reka þessa bíla og ef þeim er haldið í góðu standi ættu þeir að halda sér vel í verði. Ef bílar eru 25 ára (eða 20 ára, man ekki hvort) eða eldri þá flokkast þeir sem fornbílar. Það eru ekki borguð nein bifreiðagjöld af fornbílum og tryggingar eru lægri. Fyrir þá sem eru svo heppnir að eiga fleiri en einn bíl þá eru tryggingar beinlínis mjög ódýrar.
Það hlýtur síðan að vera freistandi að losna undan klafa affalla og ábyrgðarskoðunnar. Er ekki nær að borga bara í reglubundið viðhald og sleppa svo við afföll?
Auðvitað er þetta ekki aaaaalveg svona einfalt. T.d. gæti verið hræðilega erfitt að eiga ekki bílskúr fyrir djásnið sitt eða aukabíl til að nota þegar maður tímir ekki að nota safngripinn. En Þá má líka alveg fara milliveginn. Það er hægt að fá 80's bíla á slikk núna. Góð eintök eru víða fáanleg (aðallega í þýskalandi) og þessir bílar koma að öllu leiti í stað nýrra bíla að mínu mati og hverjum sem er væri sýndur mikill sómi að því að sitja t.d. í Porsche 928 eða 500 SE frá 1980!
Er ekki komin tími til að víkka sjóndeildarhringin?
Væri ekki meira gaman að vera á fyrstu kynslóð af XJ6 í stað þess að vera á VW Passat? Er ekki MG midget flottari en MR2?