Ég ætlaði að henda inn grein um Lancia Delta Integrale HF EVO II en komst að því að ég var þegar búin að því.
Allavega, þá fór ég að spá í hvaða fleiri bíla mig langar til að eiga en þann sem ég á núna.
Ég hef í gegnum tíðina verið alveg þokkalega iðinn við að kaupa bílana sem mig hefur langað í, auðvitað breytist smekkurinn og markmiðin verða háleitari en hér er ég samt að tala um bíla sem eru raunhæfir valkostir.
Miðað við það að það eru nú þegar fjórir bílar sem ég hef ætlað mér að kaupa og keypt á endanum þá hef ég ekki ástæðu til annars en að ætla að mér gangi þokkalega að nálgast þá bíla sem mig langar í og hef ekki ennþá átt.
Fyrsti bíllinn sem mig langaði virkilega í, og var búin að dást að lengi (nokkra mánuði) áður en ég fann eintak sem ég gat fellt mig við, var 323F GT árgerð 1990. Þessi bíll var annar bíllinn sem ég átti og var var ég þvílíkt ánægður með kaggann og þegar þetta var þá hefur hann verið 4 ára gamall og vel með farinn. Ég skemmti mér mikið á þessum bíl og lærði mest að keyra á þessum tiltekna bíl. Það var alltaf hugsað vel um hann enda fékk ég topp verð fyrir hann þegar ég seldi hann, ég saknaði hans svo mikið að ári síðar keypti ég mér annan svona bíl sem var 1992 módel og sá var hreinlega óaðfinnanlegur. Þegar ég seldi hann þá sá ég hann einu sinni á sölu sirka 18 mánuðum síðar og ég ætlaði að fara og reyna að kaupa hann en þá var hann seldur:(
1997 sá ég mynd af frumgerð Alfa Romeo 156 í bílablaði. Ég hugsaði með mér að ef þessi bíll yrði á viðráðanlegu verði þá yrði ég að eignast hann. Mér fannst þessi bíll ótrúlega fallegur og var þetta eina skiptið sem mig hefur langað í bíl út af því hve fallegur hann var en ekki út af aksturseiginleikum. Það kom reyndar í ljós þegar ég prófaði hann að hann hafði mjög góða aksturseiginleika og því varð ekki aftur snúið. 1999 keypti ég þannig bíl eftir að hafa pantað hann eins og ég vildi hafa hann (nema ég átti ekki nógan pening til að kaupa hann með tveggja lítra vélinni). Þann bíl átti ég í tæp tvö ár og minnist ég hans með hlýhug.
Það var þó algengt að ég rúntaði bílasölurnar leitandi að einhverju kraftmeiru. Þá fór ég að spá í M bílana frá BMW… mig hafði langað í E30 M3 frá því að pabbi félaga míns flutti þannig bíl til landsins þegar ég var 17 ára en það gekk ekkert að sannfæra eiginkonuna um að það væri alveg þess virði að vera á tveggja dyra bíl þó maður ætti litla stelpu, bara ef bíllinn væri nógu skemmtilegur. Allavega, ég var ekkert að pirra mig yfir þessu fyrst að hún gúdderaði M5 (fannst hann reyndar ljótur ???.
Því fór maður að lesa sér til um þessa bíla og kynna sér innflutning á þeim. Eftir að hafa komist að því að þeir væru mjög dýrir hingað komnir saltaði ég þessi mál örlítið. Ég skoðaði þó alla M5 bíla sem ég komst í tæri við hér á landi og þar var grunur minn staðfestur, en hann var sá að flestir þessir bílar væru fjarska fallegir og í mjög misjöfnu ástandi. Fyrir algjöra tilviljun barst í tal á einni sölunni í bænum að hugsanlega væri einn bíll falur fyrir rétt verð en sá var ekki á skrá og því þurfti að hafa upp á eigendanum. To make a long story short… hann tók tilboðinu mínu, það þurfti reyndar að ditta að boddíinu (steinkast og spoiler illa lasinn enda upprunalegur og aðeins 12 cm frá jörðu).
Þarna hafði ég því látið einn af mínum fjarlægustu bíladraumum rætast. Ég var því búin að uppgötva það að það er vel hægt að láta þessa drauma rætast og í heilt ár er ég búin að vera sallarólegur og hef ekkert kíkt á bílasölur að leita að öðrum bílum. Nokkuð sem ég hef alltaf gert nær vikulega á öllum öðrum bílum sem ég hef átt.
Í dag er ég ennþá alsæll með bílinn. Hver dagur er upplifun og hann hreint út sagt frábær (ég hef skrifað grein um þennan bíl líka).
En þar með er sagan ekki búin.
Einhvern tíman mun maður selja bimmann, nema maður hafi efni á tveimur bílum, og þá opnast tækifæri til að kaupa aðra bíla.
Þessvegna langar mig að deila með ykkur hvaða bíla mig langar í og hverjir eru á innkaupalistanum, einnig vil ég benda á að það gæti hentað minni fjölskyldu vel að vera með tvo bíla og sumir eru það ódýrir að sá draumur gæti vel ræst líka.
Peugeot 205 GTi 1.9. Svona bíl hefur mig langað í síðan að ég sá svona bíl fyrst. Skólafélagi minn átti svona bíl sem hann dekraði þvílíkt. Og þessi bíll var eins og blautur draumur í mínum augum. Frábær hönnun sem stendur ennþá fyrir sínu í dag, hann er alveg jafn fallegur og hann var 1989 og að mínu mati hefur ekki komið fram neinn “hothatch” sem slær þennan út í lúkkinu. Það sem ég sækist þó aðallega eftir eru aksturseiginleikarnir sem mér skilst að séu magnaðir og svo þessi frábæra vél. Ekki væri verra að hann væri dökkgrænn með sóllúgu og part leður sætum! Það ætti að vera hægt að fá góðan svona bíl fyrir 5-600 þúsund og þetta væri bíll sem maður gæti átt á móti t.d. M5. Reyndar fleiri en tveir á BMWM5.COM sem eiga svona bíl á móti sínum M5 bílum.
Mercedes Benz 190 2.3/2.5 16V. Fyrsti 16 ventla bíllinn sem Benz kom á markað. Vélin var þróuð áfram af Cosworth og þykir hin skemmtilegasta og ekki spillir fyrir að þessir bílar eru SÚPER áreiðanlegir og ódýrir í rekstri. Þeir eru um 180 hestöfl sem er feikinóg og voru á sínum tíma settir til höfuðs M3, þeir eiga þó ekki séns í hann að mínu mati, enda fernra dyra og jafnvel fáanlegir með sjálfskiptingu. Svona bíl ætti að vera hægt að fá fyrir sirka 400-700 þúsund eftir akstri. Hér er ég alltaf að tala um góð eintök en ekki endilega neitt sérstaklega lítið keyrða bíla. Árgerðin myndi vera frá sirka 1985 módeli til 1989.
BMW E30 M3… Sérhannaður racer sem á eiginlega ekkert sameiginlegt með venjulega þristinum. Fílíngurinn að keyra svona bíl er svipaður og að keyra rallýbíl á malbiki á slikkum, þetta tæki var hannað til að KEYRA!
Porsche 911. Þetta er sennilega eini bíllin sem ég gæti hugsað mér að “eiga” bara. Hann er tímalaus í hönnun og praktískur og alveg nógu öflugur fyrir mig. Ég myndi helst vilja taka stefnuna á þann bíl sem ég tel vera síðasta 911 bílinn en það er 1989 modelið af þessum bíl. Hann mætti alveg vera svartur eða rauður (mér er reyndar slétt sama um litinn). Helst vildi ég hann bara basic en þó með leðir og sóllúgu. Hér erum við að tala um 2 milljónir og upp úr fyrir góð eintök þannig að það verður aðeins bið á þessum.
Lancia Delta Integrale HF. Að mínu mati gullfalegur RÖFF ítalskur bíll með frábæra aksturseiginleka og hentar vel til allra starfa. rúm 220 hestöfl fernra dyra og fjórhjóladrifinn. Svona fákur getur kosta frá 1.5 milljónum og upp í 5-6 millur eftir hvaða sérútgáfu er um að ræða.
Audi Quattro. þennan kassalega og tveggja dyra sem allir þekkja. Þetta er eini Audi bíllinn sem ég gæti hugsað mér og hann freista mín mjööööög mikið. Ég hef ekki kannað verðið á þessum bílum nákvæmlega en ég gæti trúað að erfitt sé að finna góð eintök.
Renault Clio Williams… óhuggulega dýr og því hæpið að hann sjáist í stæðinu mínu. Ég ber þó mikla virðingu fyrir þessum bílum og tel hann hafa tekið við af Peugeot 205 í GT deildinni.
Ég gæti vel hugsað mér VW G60 bíla… ég er þó pínu smeykur við ryð og rafmagnsbilanir sem virðast plaga þessa bíla. Málið er að ég óttast hvorutveggja mest af öllum bíla sjúkdómum, ryð og rafmagnsbilanir.
Ford Sierra Cosworth eða Escort Cosworth… mér er alveg sama. Ég verð að komast í svona bíla einhvern tímann og líklegast þykir mér að Sierra myndi henta mér. Þetta eru ægileg tæki sem að mínu mati eru forljót en það skiptir bara ekki máli. Þessa bíla er ágætt að kaupa notaða þar sem það tekur víst nokkuð langan tíma að sníða af þeim þá agnúa sem voru á þeim þegar þeir voru nýjir.
BMW 6 lína. Þvílíkur lúkker en hugsanlega of mikill lúxusbíll fyrir mig. En þvílíkur lúkker…… :)
Porche 968 Club Sport… mmmmm mmmmm það er slatti til af góðum eintökum af þessum bílum og Bílabúð Benna segist geta flutt þá inn fyrir 2.5 millur. Kannski svoldið mikið en hey, hann verður í ábyrgð!!!! :)
Ég vona að ég hafi ekki gleymt neinum… en eins og þið sjáið þá eru að mínu mati hellingur af bílum sem mig langar í sem eru tæknilega séð vel innan seilingar.
Af þeim nýju þá er bara ekki eins mikið um fína drætti þar sem ég hrífst sífellt meira að notuðum og eldri bílum þar sem maður fær bara svo miklu meira fyrir peninginn!
En ég hef reynt að kaupa Imprezu túrbó og myndi ekki leiðast á þannig bíl, einnig væri ég til í Fiat Coupé turbó, Integra Type R og Citroen Saxo VTS… en það er ekki fleira sem er innan seilingar þar og þessir bílar koma alltaf á eftir þessum gömlu góðu sem eru þrátt fyrir allt bara meira spennandi!
Vonandi var þetta ekki of langt eða óþarft. En ég hefði gaman af að heyra hverjir draumbílarnir eru (þeir sem eiga möguleika á að rætast með smá sparnaði;)