Ég skrifaði litla smásögu og þar sem hún snýst um bíla fannst mér við hæfi að birta hana hér, bæði til að fá viðbrögð og líka til að krydda aðeins áhugamálið og auka fjölbreytnina. Ég vona bara að fólki finnist þetta skemmtileg tilbreyting, hvað sem líður gæðum sögunnar.
Sagan er ótitluð og mig langar til að skila kveðju og þökkum til spjall vina minna sem lásu hana yfir áður en ég birti hana hér. Þið vitið hver þið eruð en RagnaH fær sérstakar þakkir fyrir að leysa úr nokkrum hnútum sem voru að plaga mig :)
Hér kemur sagan:
Það væri ofsögum sagt að kalla þessa atburðarrás dagrenningu. Nóttin varð bara rólega bjartari þangað til að himininn fékk á sig lit og áferð veðraðrar álplötu. Dagurinn virtist ekki geta gert upp við sig hvort að hann ætlaði að vera vordagur eða sleppa allri framsækni og halda vetri áfram. Þrátt fyrir þessa sér-íslensku grámusku var fegurðin sem ég var aðnjótandi ljómandi björt.
Það var dauður punktur í vinnunni í morgunsárið. Ég hafði bifreið til afnota en engan sérstakan áfangastað. Eins og í ófá skipti sem þetta hefur komið fyrir áður lagði ég leið mína inn í Þingholtin. Stefnumótið var ekki fyrirfram ákveðið og ég þurfti að skima eftir fínlegu bogadregnu forminu á gatnamótunum eins og stundum áður.
Í eitt augnablik er eins og tíminn skipti ekki máli. Formið sem grípur athygli mína hefur ekkert með tíma eða aldur að gera.
Hann hefði verið fallegur í hvaða lit sem er, en dökkblásanseraður ljáði honum herramannslegan virðuleika svo fjarri öllum hversdagsleika. Þar sem ég horfði á skottið á honum og dáðist að línunum sem herptust saman yfir krómuðum stuðara og pústpípu á sitthvorri hlið mátti sjá stolt nafnspjaldið, Jaguar XJ12 Sovereign. Coventry hefur fáa syni getið fræknari.
Óvenjulega lág og rennileg yfirbyggingin, með öllum sínum fínlegu smáatriðum, virðist henda góðlátlegt gaman að nýlegu, þakháu bílunum í kring - afkvæmum nútímans. Innan um feitlagna mannapana hvílir stóra kattardýrið sig og býður eftir sólinni.
Í dágóða stund sat ég og drakk í mig formið og smáatriðin. Felgur sem væru of litlar í dag, með dekkjum sem væru að sama skapi of há, fylltu út í brettin svo að þau virtust spennast yfir hjólin. Lágt húddið sem teygir sig og tekur form frá hringlóttum framljósunum og krómuðu grillinu. Hvernig bíll getur verið rennilegur með svona bratta framrúðu fær mann til að klóra sér í hausnum rétt eins og yfir því að aflíðandi straumlína geti verið klunnaleg. Stuttir og grannir karmar lyfta upp þakinu og virðast ekki skyggja á útsýnið í neina átt. Hvert sem er litið eru fínlega sveigðar línurnar eins og þaulæfður vöðvi tugþrautarmanns í afslöppun undir húðinni sem teygist utan um hann.
Það grípur mig einhver tilfinning. Feimni? Kannski, það gæti einhver hafa séð mig sitja þarna, óviðeigandi lengi. Ég keyri upp á næstu gatnamót og sný við. Keyri rólega niður að sofandi vini mínum aftur og nýt návistarinnar í nokkur augnablik áður en ég keyri loks á brott.
Ég tek enga sérstaka stefnu í burtu. Ég þræði mig eftir þröngum götunum í æ bjartari morgungrámanum og framhjá hverju hversdagslega forminu á fætur öðru. Bílar sem bíða eftir að flytja nývaknaða eigendur í vinnuna, ekkert tilefni, engin viðhöfn, ekkert krydd í tilveruna. Tilþrifalaus ökuferð í tilbreytingarlausa vinnu. Óþægileg nauðsyn. Allir jafn gráir og morguninn, sama hver litur þeirra er. Ég er aftur dottinn inn í hefðbundið rúm, fastur í straumi tímans á hraðleið til baka í þann heim sem ég lifi í. Þar sem formið er nauðbeygt undir smáatriðin, þar sem fegurðin kemur frá skartinu en ekki þeim sem ber það.