Jæja, nú vona ég að fólk sé ekki orðið leitt á því að ég dæli inn greinum. Málið er að mér leiðist þessa dagana og þá er ekkert betra en að nota hádegið til að henda inn vangaveltum síðustu daga.
Alltaf er maður að spá í bíla, ekki bara sportara heldur allskonar bíla eins og sést kannski á þeim þremur greinum sem hafa komið frá mér síðast og hafa náð yfir BMW CSL, 80's Mazda og svo Spider.
Það er samt svo margt spennandi þegar maður skoðar alvöru sportbíla og þá á ég við “alvöru” sportbíla, (og munið að lesa orð innan gæsalappa með tilheyrandi Dr. Evil látbragði) ekki sportlega fólksbíla. Elise hefur verið mærður mikið síðan hann kom á markað sem fremsti ökumannsbíll fyrr og síðar. Athyglisverður bíll með hógværa 120 hestafla vél en vegna mjög lítillar þyngdar þá er hann að skila sínu og getur á réttri braut haft í fullu tré við ofurbílana. Þessi bíll er ekki með vökva neitt, ekkert vökvastýri eða bremsur o.s.frv. Enda er tilfinningin fyrir yfirborði vegarins víst með því besta sem gerist og bíllinn ljónskemmtilegur fyrir vikið þar sem hann hefur heldur ekki sérstaklega mikið grip og því er leikur einn að taka skemmtileg og vel yfirveguð “slide”.
Þetta er þó ekki eini bíllin sem býr yfir þessum dýrmætu eiginleikum. Opel VX220 er systurbíll Elise og hefur aðeins kröftugri vél og meiri búnað og þykir nokkuð góður líka, en sá bíll sem ég vil minnast á er sennilega flestum gleymdur og var mér gleymdur líka þangað til að ég rakst á hann í grufli í gær (þá rakst ég á grein um bílinn, ekki bílinn sjálfan ;).
Bíllinn sem um ræðir er RENAULT SPORT SPIDER. Mjög djarflega hannaður bíll frá Renault sem alltaf hefur fallið í skugga Elise vegna þess að hann er þyngri.
Við skulum nú aðeins skoða þennan bíl og sjá hvað við erum að tala um, afhverju er hann gleymdur og grafinn.
Renault Spider kom fyrst á markað 1997 eftir því sem ég kemst næst. Hann er með miðjuvél, tveggja lítra úr Renault Megane. Vélin sem er um 150 hestöfl knýr að sjálfsögðu afturhjólin og togar nokkuð vel eða 184 NM við 4600 snúninga. Bíllinn er tæpri sekúndu seinni í 100 kmh (6.9 sekúndur)en Elise og má kenna aukinni þyngd um það. Þessa vél er þó auðvelt að “tjúna” í u.þ.b. 170-180 hestöfl og ætti það að skila svipaðri hröðun og Elise hefur. Bíllinn er hannaður fyrir notkun á bæði braut og í borg, fyrstu bílarnir voru þó svo óheppnir að hafa enga framrúðu en að sögn framleiðanda átti það ekki að koma að sök þar sem vindflæði um bíllinn átti ekki að lenda á ökumanninum.
Undirvagninn er úr álramma svipað og á Elise þó svo hann sé ekki límdur eftir því sem ég best veit, í yfirbygginguna var notað plast og koltrefjar og því er bíllinn ryðfrír sem er að sjálfsögðu ekki verra. Mikið var lagt upp úr því að gera bílinn þægilegan, þá er ekki átt við loftkælingu, miðstöð og rafmagn í rúðum enda myndi það missa marks í bíl sem hefur engar rúður eða þak. Það er átt við hljóðeinangrun og mýkt í akstri þannig að hægt sé að keyra þennan bíl hring eftir hring á braut og jafnframt í borg án þess að hann sé þreytandi en það er einmitt helsta umkvörtunarefni þeirra sem eiga Elise að hann sé þreytandi vegna þess hve harður og hávær hann er. Þarna áttu semsagt að fá “handling” og “þægindi”. Aksturstaða ökumanns á að vera fullkominn með því að hægt er að færa sætið á alla kanta og svo er hægt að færa pedala líka eftir því sem hentar hverjum og einum. Það eru fleiri kostir við þennan bíl, hann eyðir aðeins tæpum 7 lítrum í langkeyrslu og tæpum 10 lítrum innanbæjar, og síðan væri maður asskoti flottur rúntandi um á svona tæki með samlitan hjálm á höfðu (jú, það vantar nefnilega framrúðuna) líkt og þeir gera á Caterham. Bremsurnar eru nokkuð massívar 300 mm diskar að frama og aftan enda er bíllinn með miðju vél en þetta er nokkuð athyglisvert þar sem bílar eru oftast með stærri bremsur að framan en að aftan.
Eins og sönnum Renault bíl sæmir þá komu þessir bílar frábærlega út úr árekstrarprófunum sem er ótvíræður kostur fyrir brautarbíl.
Í dag er hægt að fá svona bíl á 1.5 milljónir ekinn sirka 15 þúsund kílómetra, það myndi þá vera 1997 módel af bíl. Það er nokkuð hóflegur peningur fyrir mjög sérstakann bíl sem á að öllum líkindum eftir að hækka í verði og skapa sér góða sögu. Til samanburðar má nefna Lotus Elise sem kostar ekki undir 2 milljónum fyrir sömu árgerð. Fyrir þá sem eru hvað hungraðastir þá er hægt að fá þessa bíla með túrbínu og þá skilar vélin 230 hestöflum. Að lokum má segja frá því að útlitið er mjög nýstárlegt og það er verulega kúl að opna vængjahurðirnar þegar maður leggur í stæði! Frumlegheit eru skemmtileg…….. og stundum ódýrari.
Hér fyrir neðan er slóð á góðar myndir.
http://www.motorcities.com/contents/01F4M284906279.html
http://welcome.to/renault-spide