Sæl Öll.
Oj oj oj. Sum okkar muna eflaust eftir því þegar við sáum fyrsta alvöru fjölnotabílinn hér á landi. Það hefur eflaust verið í kringum 1988 en Espace fór í framleiðslu 1984 ef ég man rétt.
Systir mín þekkti þessa bíla vel þar sem hún bjó í Lúxemborg á þessum tíma og það var ljóst að fólki í Evrópu fannst þessi bíll hrein bylting. Hér var kominn fram sjö manna bíll sem hægt að var að breyta í sendibíl, taka úr hvaða sæti sem er, breyta sætaröðum eða breyta sætum jafnvel í borð. Bíllinn þótti einnig ákaflega þægilegur þar sem fólk sat hátt í honum og hafði gott útsýni og hann var ágætlega búin vélarlega séð og þótti lipur í akstri.
Hér heima datt engum í hug að kaupa svona bíl og þar kom væntanlega tvennt til. Það voru ekki margar barnmargar fjölskyldur sem höfðu efni á svona bílum og svo var hægt að fá sjö manna ameríska bíla fyrir talsvert lægra verð, en þeir buðu samt ekki upp á samskonar notkunarmöguleika.
Þrátt fyrir gífurlega góðar móttökur og nýjan flokk bíla (MPV) þá sátu Renault menn einir að kökunni í mjög langan tíma. Citröen, Fiat, VW og aðrir evrópskir framleiðendur fylgdu á eftir um 1990 með misjöfnum árangri og mjög áberandi stælingum.
Það var svo ekki fyrr en 1996 að einhver frekari þróun varð í þessum geira þegar Renault náði aftur frumkvæðinu með Megané Scenic (mini MPV). Þessi bíll var þrælsniðugur og á viðráðanlegu verði og nú tók markaðurinn við sér sem aldrei fyrr. Þarna var kominn hinn frábærasti lífstílsbíll fyrir fólk á öllum aldri sem var skemmtilegur í notkun og útliti. Vélarnar voru aftur hinar þokkalegustu og í þróuninni hafði verið stigið skrefi lengra með sæta uppröðununum og notkun á rými.
Þessi þróun hefur í auknu mæli verið að gefa af sér bíla sem mér finnst dálítið sorglegir. Margir framleiðendur í dag bjóða upp á fjölnota bíla sem eru góðir til síns brúks en á sama tíma eru framleiðendur að troða þessari hönnun í bílalínur sem hingað til hafa verið lausar við þessi áhrif sem eru jákvæð upp að vissu marki, en mjög neikvæð ef þau tröllríða heilu framleiðslulínunum.
Nýjastu leiðindmálin eru t.d. nýju Corolla, Peugeot 307 og Civic. Allir þessir bílar hafa verið hefðbundnir fjölskyldu millistærðar bílar en hafa nú allir fjölnotabíls lúkkið þrátt fyrir það að vera ekki fjölnotabílar. Mér finnst þetta mjög sorgleg þróun þar sem að aðgreining á milli tegunda verður sífellt óljósari og skörun meiri.
Ekki nóg með það að þetta hafi haft áhrif á millistærðar bíla þá hefur þetta líka haft áhrif á Jepplinga og lúxusbíla eins og t.d. nýjan Vel Satis sem er algjör hörmung og ég get hreinlega ekki ímyndað mér annað en að verði algjört klúður af hálfu Renault.
Focus fór að mínu mati vel út úr þessu og sömuleiðis Golf en báðir hafa t.d. náð að framleiða millistærðar bíl með raunverulegu húddi en ekki einhverju húddi af sendibíls ómynd.
Að mínu mati eru þessi áhrif mjög óæskileg og í dag sem aldrei fyrr er mjög mikilvægt fyrir bílaframleiðendur að hafa vel aðgreindar framleiðslulínur, þar sem hver bíll hefur ákveðin afmarkaðan markhóp. Til hvers er verið að framleiða sport útgáfu af Safira með 200 hestafla vél? Það væri kannski ágætis sleeper og það má vel vera að þetta sé ekki slæm hugmynd, en ástæðan fyrir því að þetta er gert er að áhrif þessarar hönnunar eru svo mikil að að nú er verið að markaðssetja fjölnota bíla fyrir alla markhópa í stað þess að áður var fjölnotabíllinn settur á markað til að uppfylla þarfir ákveðins markhóps.
Í dag höfum við því Peugeot 307, Civic og Corolla sem líta eiginlega nákvæmlega eins út, ef þetta væru klippimyndir væri nær engin munur á þeim!
Á sama tíma mun þetta gera út af við “hot hatch” bílana ef þetta verður þróunin, Civic er nú þegar dauður, það eru allar líkur á að Peugeot gleymi þessum geira sem þeir áttu nú með húð og hári seint á áttunda áratugnum…. hvar endar þetta?
Einn fúll.