BMW 3.0 CSL
BMW 3.0 CSL var kallaður “batmobile” vegna hinna miklu vængja sem prýddu bílinn en þeir voru með fyrstu bílum til að nýta niðurþrýsting og loftaflsfræði að einhverju leiti.
Þetta voru nokkuð stórir bílar með öflugar línu sexur og fyrsti bíll BMW sem var smíðaður af mótorsport deild þeirra, hann var einnig fyrsti bíllinn sem bar einkennisliti M merkisins og var þar að auki þeirra fyrsti bíll með ABS bremsum (framleiddur frá 1971-1975). Einungis voru smíðaðir 167 svokallaðir Batmobile CSL bílar en einnig voru framleiddir hefðbundnir CSL bílar sem höfðu ekki þessa ýktu vængi á bílnum og fjöldi þeirra náði 1039 stykkjum.
Þessir bílar hafa því miður ekki ennst vel þar sem mikill skortur var á ryðvörn (væntanlega of þung) og stálið var mjög þunnt og sömuleiðis var talsverð notkun á áli (nær öll yfirbyggingin) í þessum bílum sem tærðist sömuleiðis. Plexigler var notað í stað hefðbundins glers og innrétting var mjög látlaus.
Vélarnar í þessa bíla voru 3.2 og 3.5 lítra línu sexur sem voru hannaðar eingöngu fyrir kappakstursnotkun og “homologeraðar” með þessum götubílum. Þessi vél er forveri vélarinnar í M1 og svo síðar í M5 E28 og E34. 3.5 lítra vélin er kannski áhugaverðari en hún var með tvo yfirliggjandi knastása og 24 ventla og skilaði 206 hestöflum í götubílunum en allt að 430 hestöflum í keppnisbúning. Í bíl af þessari stærð sem var aðeins 1060 kíló þýddi þetta marga sigra og lengi vel áttu yngri bílarnir ekkert í þennan jaxl en það var keppt á þessum bílum í 4 ár eftir að framleiðslu þeirra hafði verið hætt til að rýma fyrir 6 línunni frá BMW.
Hröðun í “standard” CSL bíl var um 7.5 sekúndur í 100 kmh og þótti nokkuð gott árið 1971. Í keppnisformi var hröðun í 100 kmh undir 4.5 sekúndum og sýnir að nokkru leiti hve mikið er hægt að vinna með vélarnar í þessum bílum og það án þess að nota túrbínu. Í framhjáhlaupi má geta þess að þessar vélar hafa verið “tjúnaðar” í allt að 800 hestöfl með hjálp “supercharger/kompressor”. Gírkassinn var 5 gíra Getrag skipting og sú skipting hefur verið notuð í nokkuð marga bíla í gegnum tíðina allt fram á miðjan níunda áratuginn.
Þess má geta að það er einn CS bíll svo ég viti til hér á landi en hann er til sölu hjá B&L og er án nokkur efa frábært eintak enda í eigu sama manns frá upphafi ef ég man rétt og aðeins ekinn um 100 þúsund kílómetra.
Fyrir þá sem vilja sjá mjög góðar myndir af þessum tækjum í notkun þá er þessi slóð einna skemmtilegust. http://www.tuningpt.com/carrosemana/csl/csl.htm
Á www.mobile.de eru fjórir CSL bílar til sölu á verði frá 1.5 milljón til 3 milljónir sem verður að teljast nokkuð sanngjarnt miðað við hve sjaldgæfur bíllinn er.
Þessir bílar gerðu einnig garðinn frægan sem fyrstu svokallaðir “Art” bílar BMW.
Svo að lokum vil ég koma til skila að í hvert skipti sem ég set orð innan gæsalappa þá geri ég eins og Doctor Evil gerir í Austin Powers myndunum með tilheyrandi áherslu, kemur manni í gott skap!