Ferrari Daytona Árið 1973 sá Ferrari sæng sína útbreidda og svipti hulunni af nýju flaggskipi, 365GT4/BB. BB stóð fyrir Berlinetta Boxer sem vísaði til þess að 12 strokka vélin var flöt, eða boxer eins og slíkar vélar eru kallaðar, og lá hún fyrir miðjum bíl. Ferrari hafði tekið seint við sér að smíða bíl með vél fyrir miðju. Reyndar kom Dino fram árið 1968 en var aldrei Ferrari að nafninu til og hafði líka bara V6 vél.

Lamborghini hafði ollið fjaðrafoki árið 1966 þegar að þeir kynntu Miura með þverstæða V12 vél fyrir framan afturhjól. Með þessu lögðu þeir línurnar fyrir ofurbíla framtíðarinnar, rétt eins og kappakstursbíll varð almennilegur ofurbíll að hafa miðstæðan mótor. Það þótti því votta um afturhald að hálfu Ferrari þegar að Ferrari 365GTB/4 tók við af 275GTB/4 árið 1968. En ef staðsetning vélarinnar olli vonbrigðum þá hefði útlit og afl átt að fá hárin til að rísa.

Leonardo Fioravanti hjá Pininfarina hannaði 365GTB/4 eða Daytona eins og bíllinn var alltaf kallaður. Þrátt fyrir að hafa hannað einhverja af fallegustu bílum Ferrari var Daytona hans uppáhald, enda ekki skrítið. Það er auðvelt að ímynda sér hve gamaldags 275GTB hefur litið út fyrir að vera þegar að Lamborghini kom fram með Miura. 275GTB er í besta falli óspennandi bíll en Daytona getur auðveldlega jafnað dramatískt útlit Miura þrátt fyrir að vera með vélina á “vitlausum” stað. Bogadregið húddið er svo langt að V12 vélin tekur ekki nema hérumbil hálfa lengd þess enda staðsett fyrir innan hjólhaf bílsins.

Og þar er komið að hjarta bílsins, vélinni. Gamla Colombo vélin hafði verið komin upp í 3,3 lítra í 275GTB (talan lýsir rúmtaki hvers strokks) en fyrir Daytona var rúmtakið aukið upp í 4,4 lítra og var hún þar með stærsta vél sem Ferrari hafði þá smíðað. GTB/4 gefur til kynna að vélin hafi fjóra kambása, eða tvo yfirliggjandi fyrir hvora strokkaröð. Aflið var eftir stærð: 352hö @ 7500sn/mín. Afköstin sem þessi kraftur gaf af sér voru gríðarleg, jafnvel þótt að bíllinn væri heil 1604kg. Autocar prufaði bílinn og gaf upp 5,4 sekúndur í 60mph og 174mph hámarkshraða eða u.þ.b. 280km/klst. Á tíma þegar að tölur yfir hámarkshraða frá framleiðendum ofurbíla voru lítið annað en vísindaskáldskapur voru þetta óviðjafnanleg afköst sem voru ekki slegin út fyrr en á 9. áratugnum!

Þrátt fyrir óhefðbundið útlit lítur Daytona út eins og stór GT bíll. Það er ekki nema viðeigandi því að sem slíkur var hann framúrskarandi. Stýrið var án hjálparátaki og verulega þungt á litlum hraða. Fjöðrunin var stíf, sjálfstæð double-wishbone allan hringin, en þegar bíllinn var kominn á víðan veg og upp á hraða fann fjöðrunin sig og stýrið léttist svo að dauðlegur maður gat tekist á við það. Ekki bíll í snattið heldur ökutæki til að keyra á milli horna meginlanda á og þar var hann á heimavelli.

Fyrir sportbíl voru aksturseiginleikarnir kannski ekki sérstaklega liprir. Eins og sagði var þetta þungur bíll og öll stjórntæki báru merki þungans og kraftsins. Vissulega var gripið til staðar en til að nýta afköstin til fullnustu þyrfti ökumaðurinn kannski helst að búa yfir líkamsstyrk til að takast á við stjórntækin frekar en nokkuð annað. Að því gefnu hlýtur Daytona að vera mikilfenglegur farkostur fyrir ökumann sem býr yfir viðeigandi ákveðni. Og þótt hún sé ekki til staðar ætti öskrið í vélinni, útsýnið yfir langt húddið, leðurkörfustólarnir og viðarstýrið að gera hverja ökuferð að veislu fyrir skilningarvitin.

Með afköst sem þessi og einstakt útlitið er ekki skrítið að Daytona hafi verið einn söluhæsti stóri bíll Ferrari. Á þeim 6 árum sem Daytona var framleidd seldust heil 1426 eintök. Í dag er Daytona ákaflega eftirsótt og sérstaklega Spider-útgáfan, þ.e. blæjubíllinn, en einungis 165 af þessum 1426 voru með blæju. Til gamans má geta að Daytona Spider bíllinn sem Sonny Crocket ók í Miami Vice var eftirlíking, smíðuð að miklu leiti út Ferrari pörtum. Fimm keppnisbílar voru einnig gerðir. Þeir voru léttari og kraftmeiri og teljast jafnvel enn betri til venjulegs aksturs en götubílarnir.

Þegar að 365GT4/BB tók við af Daytona árið 1973 urðu kaflaskipti í sögu Ferrari. 512BB tók við af 365GT4/BB og síðan kom fram Testarossa sem þróaðist að lokum í 512TR sem var framleiddur til 1994. Þessir tólf strokka boxer götubílar voru allir með vélinni fyrir miðju en teljast seint til bestu götubíla Ferrari. Nýtt flaggskip Ferrari kom samt verulega á óvart árið 1996. 550 Maranello bíllinn var með vélina fram í og tók í raun upp þráðinn þar sem Daytona sleppti. Maranello var þægilegri en 512 bílarnir sem hann tók við af en jafnframt enn kraftmeiri og með aksturseiginleika sem auðvelduðu manni aðgang að aflinu. Ef Maranello væri bara jafn glæsilegur og Daytona væri hann fullkominn…

Heimildir:
The Encyclopedia of Classic Cars e. Martin Buckley
Evo Magazine #4 og #13
Autozine: http://autozine.kyul.net/Main_Menu.htm (þar er að finna tölur frá Autocar sem vitnað er í einnig)