Hafi bílaumboðin einhverntímann haft ástæðu til að kvarta, þá er það núna. Ástæðan er sú að það þarf að fara ein 25 ár aftur í tímann til að finna jafn lélegan bílasölumánuð og nýliðinn marsmánuð. Og þá er verið að tala um sölu á nýjum bílum. Enda hafa næstum öll bílaumboðin á Íslandi undanfarin misseri verið tengd við sögur um að þau sé að fara á hausinn. Það er kannski helst P.Samúelsson sem hefur verið laus við slíkar sögusagnir enda virðast Íslendingar ekki láta efnahagsþrengingar hindra sig í að kaupa sér Toyotur í massavís, hvernig í ósköpunum sem stendur nú á því.
Nú það er ekki margt sem umboðin geta gert til að verjast þessum sveiflum. Helst er það einhverskonar hagræðing sem þýðir þá minni þjónusta eða þá hækkun á verði nýrra bíla. Báðir þessir þættir hafa svo aftur á móti slæm áhrif á sölu nýrra bíla og því getur meðalvegurinn verið vandrataður í þessum efnum. Gengisáhrifin hafa auðvitað haft mjög slæm áhrif á verð nýrra bíla eins allt annað en einhvað virðist það vera að ganga til baka í augnablikinu enda lækkaði sem dæmi IH verð á Subaru og Nissan um daginn.
Samdráttur í þjónustu er erfiður. Bíla hætta ekki að bila þó að fólk hafi ekki lengur efni á að kaupa sér nýja bíla og því þýðir lítið að draga saman í varahluta og viðgerðaþjónustu. Einnig eru nýjir bílar eru sífellt að verða flóknari og því þurfa umboðin að eyða meiri og meiri fjármunum í starfsþjálfun á sölufólki og viðgerðamönnum. Sú fjárfesting skilar sér svo kannski ekki sem skyldi til baka sökum dræmrar sölu.
Umboðin hafa einnig keppst við að minnka birgðir sínar og sést það td vel á því að stóra Eimskipsplanið fyrir neðan Hondaumboðið, sem hefur verið troðfullta af nýjum bílum undanfarin ár, er nú galtómt.
Ef litið er á sölutölur undanfarna ára sést þessi þróun nokkuð glöggt því að árið 2000 seldust 13.569 nýjir bílar en árið 2001 seldust aðeins 7.248 nýjir bílar sem er hvorki meira né minna en 46.5% samdráttur á milli ára. Forsvarsmenn bílaumboða vonuðust til að sala á nýjum bílum í ár færi ekki undir 6.000 eintök. En ef litið er á sölutölur fram til dagsins í dag (1.483 seldir bílar) og þær framreiknaðar út árið, þá kemur í ljós að salan mun vera um 5.000 eintök á þessu ári. Reyndar mun sala á bílaleigubílum í vor toga þetta eitthvað upp en það er spurning hvort það hafi svo góð áhrif á viðkomandi umboð þar sem þau fá þá hvort er aftur í hausinn næsta haust sem notaða bíla.
Það er því nokkuð ljóst að það eru engir gleðidagar framundan hjá bílaumboðunum miða við þessar tölur og ef salan verður áfram í svipuðu fari út árið þá er hætt við að einhvert umboðið leggi upp laupana. Spurningin er bara hvert þeirra.
En hver veit, kannski koma Vinir bílsins til bjargar.