Þegar maður hefur loksins tekið stökkið og keypt sér gamlan og góðan bíl með þeim krafti sem manni hefur alltaf dreymt þá gerist hið óumflýjanlega. Maður fer að leiða hugann að öðrum bílum og þá jafnvel kraftmeiri eða sneggri.
Það er hinsvegar ekki sjálfgefið að það þýði yngri bíll. Í mínu tilfelli hefur áhugi minn á nýjum bílum dalað all verulega enda er ekkert sem ég hef efni á sem stenst mínum gamla bíl snúning, nema náttúrulega að ég skoði aðra gamla bíla.
Hér á landinu eru tveir Alpina bílar svo ég viti til, báðir eru þeir Alpina B10 Biturbo, þessir bílar eru 360 hestöfl og verulega svæsnir akstursbílar í þokkabót. Þetta er náttúrulega ekki hvers manns tebolli ef svo mætti segja en þetta hentar mér fullkomlega þar sem ég hef bara efni á einum bíl og þarf samt að koma fjölskyldunni og því sem henni fylgir fyrir í bílnum. Það útilokar því langflesta alvöru sportbíla ef ekki alla ef við hengjum okkur í skilgreiningar.
B10 bílarnir voru framleiddir í 507 eintökum en eru ennþá helst til dýrir.
Þessir bíla vöktu áhuga minn þar sem þeir eru byggðir á sama boddí og minn eigin bíll sem er að mínu mati í fullkominni stærð fyrir mig og mjög svo þægilegur í umgengni og nægilega fágaður.
Við skoðun á Alpina þá rak mig minni til frægari Alpina bíla í þrjú seríunni sem ég man eftir frá því að ég var stráklingur en þessir bílar voru alltaf auðþekktir á Alpina röndunum og felgunum.
Við leit að þeim bílum fann ég ótrúlegt tæki sem er E12 boddí af BMW smíðaður af Alpina með KKK 27 forþjöppu á 3.5 lítra sex strokka vél. Hestöflin fóru hæst í 330 við 5700 snúninga í bíl sem er um 1300 kíló. Ég hef ekið E28 bílnum sem er í sömu stærð og hann er alveg nógu stór fyrir mig líka þannig að maður fór að spá hvort þetta væri nú ekki ennþá skemmtilegri “sleeper”.
Þessir bílar voru smíðaðir 1982 í S útgáfunni og mældust þá “official” með hröðuninan 4.8 sekúndur í 100 kmh, til samanburðar var Ferrari Testarossa 6 sekúndur sléttar í 100 kmh. Kvartmíluna ók hann á 13.16 sekúndum. Og það í bíl sem hafði líka mjög góða akstureiginleika og er í rauninni einn öfgafyllsti fernra dyra bíll fyrr og síðar. Togið var heldur ekkert smotterí eða 512 NM við aðeins 2400 snúningar allt saman sett í ZF 5 gíra kassa. Fyrstu bílarnir voru reyndar með þriggja lítra vél og 300 hestöfl frá 1978-1982, svo það valdi nú ekki miskilning
Þessir bílar eru heldur ekki algengir, en miðað við að það eru tveir B10 bílar á landinu af 507 framleiddum þá er ekki svo hæpið að B7 fáist keyptur þó það hafi verið smíðaðir 149 bílar auk 60 bíla af B7S gerðinni. Við ítarlega leit fundust svona bílar sem voru falir en bara gegn tilboði.
Auðvitað gerir maður sér grein fyrir því að svona bíl notar maður ekki til daglegra nota. En það má þá hafa það í huga að hann er 20 ára gamall og myndi því vera hægt að skrá hann sem fornbíl og hafa hann sem aukabíl og borga lágmarks tryggingar og engin bifreiðagjöld.
Það má líka geta þess að þessi sama vél fékkst í E24 boddíið sem er einn fallegasti BMW bíllinn að mínu mati (6-línan). En hann er bara tveggja dyra en kæmi þó sterklega til greina þegar maður hefur efni á að eiga tvo bíla og hann nær 20 ára aldrinum.