Ég fékk einhverja flugu í höfuðið í gær og er búin að vera velta mikið fyrir mér hvaða götubílar hefðu nálgast það mest að vera “ósigrandi” á hverjum tíma.
Ef þið eruð ekki að alveg að skilja hvað ég er að fara þá er hugmyndin þessi: að reyna að ímynda sér hvaða götubíll hefur verið sneggstur á hverju tímabili. Þegar ég segi sneggstur meina ég ekki með hæðsta hámarkshraðann eða sneggstur í 100 km/klst. Ég meina hvaða bifreið hefði verið best að sitja undir stýri á ef markmiðið hefði bara verið að komast á milli A og B eins fljótt og mögulegt er. Til að það sé á hreinu veistu ekki hvernig leiðin á milli A og B er, hún gæti verið beinn og breiður Autobahn eða kannski þröngur fjallvegur í mið eða suður Evrópu girtur steinvegg. Og… það er allra veðra von!
Þetta er ekki svona formleg kosning eins og þegar besti bíllinn var valinn, meira svona gangandi pæling sem ég vona að sem flestir taki þátt í með hressilegum umræðum og röksemdafærslum. Ég var að hugsa um að hver myndi nefna bíl frá hverjum af síðustu fjórum áratugum en ég er mjög hræddur um að það endi þá bara með að bílar frá lokum hvers áratugs verði fyrir valinu, bílar eru jú alltaf að verða sneggri, ekki satt?
Þess vegna held ég að það sé sniðugra að hoppa aftur í tímann í tíu ára stökkum og velja bíl í áðurnefnt verk fyrir árin 1962, 1972, 1982 og 1992. Bílarnir þurfa ekki að hafa verið framleiddir umrædd ár eða í framleiðslu þá bara að þið teljið það að á þessu ári hafi hann verið besti valkostur sem til var í verkið.
Svo ef einhver vill snúa útúr… þá er það bara gaman ekki satt?
Allavega ætla ég að byrja að velja mínar tilnefningar til að boltin rúlli af stað:
1962: Ferrari 250GTO (1962-1964), 39 eintök smíðuð þannig að ég er kannski grófur að velja þennan bíl sem er í raun kappakstursbíll með númeraplötum. Það eru örugglega bílar sem hafa hann í þrönga og krappa dótinu og örugglega einhverjir sem hafa hann á snerpunni en ég efast um að það séu margir sem gera bæði í einu. Sigursæll kappakstursbíll á sínum tíma og ég held að menn þurfi að leita vestur fyrir haf til að finna stærri hesthús á þessum tíma.
1972: Porsche 911 Carrera 2.8 RSR, ókeu, ég er farinn að sveigja reglurnar en í raun ekki brjóta þær þar sem það voru svona bílar smíðair 1972 þótt þeir séu í raun allir \'73 módel. Þetta er í raun líka kappakstursbíll með númeraplötu en mér fannst ómögulegt að heiðurinn færi til Ferrari aftur fyrir utan að \'73 RS og RSR 911 bílarnir eru með mínum uppáhaldsbílum. Þetta er enn og aftur ekki hraðskreiðasti eða sneggsti bíllinn af öllum en með 300hö í 930kg bíl þá er augljóst að hann er ekki hægur. Það sem hann vinnur á er kraftur í passlega stórum sem ætti að bjóða upp á yfirburða eiginleika.
Og fyrst ég er að teygja reglurnar er best að hafa bara varaútnefningu: Ferrari GTB365/4 “Daytona” (1968-73), hraðskreiðasti bíll síns tíma. Ógnarkraftmikill og þótt hann sé ekki beint lipur ætti hann að geta staðið fyrir sínu svo lengi sem við erum ekki að tala um borgarakstur. Auðvitað myndi ég taka keppnisgerðina sem er sérstaklega létt en hún var líka götulögleg.
1982: Mér gekk illa að finna bíl fyrir þetta ár… Einu ári seinna og ég hefði getað troðið nær ósigrandi bíl inn en fyrir \'82 var ég næstum ráðalaus. Ofurbílarnir virtust orðnir ókeyranlegri og engu kraftmeiri en Daytona hafði verið. Stærsta þróuinin á 9. áratugnum birtist í Audi Quattro en fyrstu gerðir hans eru varla nógu snöggar til að komast hér inn. Kappakstursbílar með númeraplötum var næstu óhugsandi þannig að ég vel Porsche 911 Carrera RSR 2.8 aftur.
1992: Nú er valið erfitt því ofurbílaflóran var með því mesta. McLaren F1 kemur á næsta ári því miður og Audi Sport Quattro sem ég hafði álitið vænlegan á varla til svar við Porsche 959, Ferrari F40 og Bugatti EB110. F40 er örugglega þeirra sneggstur á braut og við vissar aðstæður eru fáir bílar sem eiga í hann en ef veður og óþekktir vegir koma inn í jöfnuna verða fjórhjóladrifnu bílarnir að teljast sigurstranglegri. Fyrir mér er Bugatti EB110 næsta óþekkt stærð og þótt hann hafi afköst til að eiga í Porsch 959 án vandkvæða held ég að 959 geti unnið það allt til baka við erfiðari aðstæður. Porsche 959 skal það vera…
Jæja, látið nú álit og tilnefningar flakka!