Í ár renna upp merk tímamót: það eru senn liðin 40 ár síðan að fyrsti fjöldaframleiddi götubíllinn búinn afgasknúinni forþjöppu kom á sjónarsviðið. Í því tilefni langar mig til að tipla á stóru og minnast á þrjá fyrstu bílana sem bjuggu yfir þessari tækni.
Frumkvöðullinn:
Það er í raun synd og skömm að fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn til að státa túrbóvél (ég ætla að nota mestmegnis orðið túrbó í stað afgasþjöppu/forþjöppu o.s.fr. þar sem það er þjálla) hafi verið alræmdur sem manndrápstól en ekki hylltur sem byltingarkennd nýjung. En þannig er sorgarsaga Chevrolet Corvair sem kom fram árið 1960. Hann var krossfestur sem hættulegur gallagripur af Ralph Nader, lögfræðingi, neytendafrömuði og seinna meir forsetaframbjóðenda í Bandaríkjunum. Ef eitthvað er virðist sagan um hve hættulegir aksturseiginleikar Corvair voru eiga sér fót í raunveruleikanum en hafa þó líklega verið stórlega ýktir. Hvað um það, Chevy Corvair og Ralph Nader saman er ekki bara efni í aðra grein heldur heilan greinabálk líklegast!
Það sem máli skiptir er að á miðju ári 1962 kom Monza Spyder útgáfan af Corvair. Merkilegt var að Spyder var tveggja dyra coupe en ekki blæjubíll eins og nafnið gefur til kynna. Hann fékkst þó einnig sem blæjubíll og það sem meira er, með túrbínu!
Fyrir þá sem ekki þekkja Chevy Corvair er við hæfi að lýsa honum nánar. Þarna var fyrsta tilraun Chevy að búa til minni og hagkvæmari bíl til að takast á við innflutta bíla eins og t.d. Volkswagen. Corvair var ólíkt flestum bílum amerískum með sjálfberandi yfirbyggingu og “swing-axle” fjöðrun að aftanverðu (eins og VW Bjallan) en algerlega sjálfstæða að framan. Seinna fékk hann svo hreina sjálfstæða fjöðrun að aftan þegar Corvette var einn amerískra bíla með slíkt eftir því sem ég best veit. Það má segja að Chevy hafi verið í fararbroddi á heimsvísu á þessum tíma enda var Corvette einnig fyrsti bíllinn með yfirbyggingu úr trefjaplasti. Meira er þó áberandi við Corvair að vélin var flöt (boxer), loftkæld með sex strokkum og staðsett aftast í bílnum! (Rétt eins og Porsche 911) Gerð afturfjöðrunar í fyrri gerðum bílsins ásamt staðsetningu vélar hefur augljóslega verið ástæða ills orðspors Corvair.
Á þessum tíma var tæplega 2,4l (145 cid) vél ekki stór í amerískum bíl. Grunnútgáfa hennar var heldur ekki nema 80 hö en með túrbínu náðust 150 hö út úr álvélinni. Ekki slæmt m.v. rúmtak en ef haft er í huga að forþjöppun er beitt þá er þetta ekki mikið afrek. Vél þessi kom bílnum þokkalega áfram en þjáðist illa af þjöpputöf (turbo lag) og hefur líklegast notið sín best á opnum vegum en varla verið heimakomin innanbæjar. Síðari gerðir vélarinnar höfðu svo 180 hö.
1969 var Corvair heillum horfinn og hætt að framleiða hann enda salan nánast alveg dottin upp fyrir. Sorglegur endir fyrir stórmerkan bíl amerískrar bílasögu, bíl sem sýndi fram á hugrekki og frumleika hjá Chevy og að mínu mati, 1965 og seinna, einn fallegasti bíll sem komið hefur frá Ameríku.
Bæverjar taka við kyndlinum:
Næstir til að spreyta sig með forþjöppun var BMW. 1966 höfðu þeir hafið sölu á BMW 1600, litlum tveggja dyra “sports saloon” sem bauð upp á sportlega aksturseiginleika og, þökk sé léttleika, afköst til að sýna mörgum sportbílnum í tvo heimana. BMW fór síðan að bjóða upp á stærri vélar og var 2.0l 130ha vél sú öflugasta þar til 1973 þegar BMW tóku stökkið og urðu fyrsti bílaframleiðandinn í Evrópu til að setja túrbínu í fjöldaframleiddan bíl. Úr varð BMW 2002 Turbo, einn af merkari bílum í röð ófárra goðsagnakenndra BMW bifreiða.
Það þykir alls ekki slæmt í dag að bjóða upp á kúpubakssportara með 170hö en í dag eru flestir þannig bílar orðnir þónokkuð þyngri en 1103kg sem 2002 Turbo var. Þrátt fyrir þetta afl í litlum bíl var hann heilar 7,3 sekúndur í 60 mph, ekki amalegt í þá daga en bendir þó til þeirrar staðreyndar að þjöpputöf hafi verið mikil. Til að geta notað forþjöppu á þessa vél varð BMW að lækka þjöppun úr 9,5:1 sem í þá daga var dágott niður í 6,9:1. Það má segja að þetta hafi verið Akkilesarhæll þessarar prýðisbifreiðar enda leiðir svona lág þjappa til þess að viðbragð áður en túrbínan fer að vinna er mjög slakt en hún fór ekki að vinna fyrr en í 3800 snúningum! Það var þó ekki þetta sem gerði útaf við BMW 2002 Turbo heldur bensínkreppa, aðeins ári eftir að hann kom á markað. Tækifærið til að gera afgasforþjöppuna að almennt viðtekinni tækni rann úr höndum BMW aðeins til að vera snapað upp af öðrum nafntoguðum þýskum bílaframleiðenda.
Goðsögn er sköpuð:
Bíllinn sem verður alltaf bendlaður við “Turbo” sem eitthvað töfraorð verður alltaf Porsche 911 Turbo. Fyrsti ofurbíllinn með forþjöppu og þótti ekki aðeins erfiður viðureignar fyrir ökumanninn heldur óhugnanlega kraftmikill. 260 hö þykja kannski ekki ýkja mikið í dag en það þótti yfirdrifið í þessum bíl í þá daga. Porsche framleiddi bíla sem voru sneggri í 60 mph en 911 Turbo með sínar 6,1 sekúndu en þegar Turboinn var kominn á skrið var fátt sem hafði við honum þegar teygðist úr veginum. Hámarkshraði var um 245 km/klst.!
Porsche beitti því hugviti sem hefur verið þeim einkennandi til að minnka sem mest þeir gátu biðina eftir að forþjappan byrjaði að snúast og skila afköstum. Þrátt fyrir stóra endurbót var töfin enn til staðar og gat gert 911 Turbo ansi loðinn í viðbrögðum. Þið getið rétt ímyndað ykkur að keyra næstum 250km ofurbíl með tog á við flugmóðuskip í regnblautri beygju með aðeins fjóra gíra (aðrir 911 höfðu 5 á þessum tíma!) til að stýra snúningum vélarinnar. Lítið mátti útaf bera til að forþjappan kæmi skyndilega inn en þá mátti búast við að það grip sem aftuhjólin höfðu væri rokið út í veður og vind. Afleiðing af því gat auðveldlega orðið snöggur, illstöðvanlegur snúningur með tárvotum endi.
Það er, enn og aftur, efni í aðra grein að ræða kosti og galla 911 hönnunarinnar og sérstaklega þá hvað viðvíkur 911 Turbo. Á endanum var það samt sá bíll, þrátt fyrir þá galla sem hann kann að hafa, sem bjó yfir forþjöppubúnaði fínpússaðan nægilega af Porsche til að verða að vænlegum kosti. Ekki nóg með það heldur varð með þessu til einn þekktasti ofurbíll fyrr og síðar og nú, meira en aldarfjórðungi síðar, eru nýrri gerðir hans enn meðal öflugustu bíla. Það hefði verið eitt ef Porsche hefði bara fínpússað tæknina, heldur böðuðu þeir hana í töfraljóma með goðsagnarkenndum afköstum 911 Turbo. Ef þú fórst í gagnfræðaskóla á 9. áratugnum eins og ég hefurðu örugglega horft aðdáunaraugum á bíl rækilega merktan “Turbo” í bak og fyrir og jafnvel hvíslað töfraorðið meðan hann ók framhjá…
Hér með líkur að mínu mati 1. kafla í sögu túrbína í götubílum. Næsti kafli upphefst þegar tvær af merkari tækninýjungum síðustu aldar í bifreiðahönnun komu saman í einum og sama bílnum: Audi Quattro, enn ein goðsögnin og efni í enn eina grein…
Heimildir:
Consumer Guide's “Automobiles Of The ‘60s” sem er (ásamt myndinni)að finna á Andrew’s Corvair Web Page: http://www.vex.net/~guru/corvair/aot6/aot6.htm
AutoZine: http://home.netvigator.com/~europa/index.html