SL sportbílarnir eiga ættir sína að rekja allt aftur til ársins 1957 til 300 SL Roadster, oft nefndur Gullwing Coupé sem var þýtt sem mávavængir á íslensku, en svo var fyrsti SL bíllinn nefndur vegna hurðanna sem opnuðustu upp eins og vængir. Alls hafa verið framleiddir um 490.000 eintök af bílunum sem hafa oft verið nefndir bílar sem láta drauminn rætast. Hvernig svo sem menn skilja það.
Á 59. Alþjóðabílasýningunni í Frankfurt sem haldin var í september sl. var 5. kynslóð bílsins kynnt opinberlega og mun sá bíll verða aðalumfjöllunarefni þessarar greinar. Eins og áður segir hafa þessir bílar verið framleiddir allar götur síðan 1957 en þrátt fyrir það er 5. kynslóð hans einungis að líta dagsins ljós þetta árið. Sökum þessa langa líftíma milli kynslóða, sem ku vera um 9 ár samkvæmt meðaltalsreglunni, þá hefur bíllinn náð að halda verðgildi sínu mjög vel og í raun betur en flestar aðrar bílategundir.
5. kynslóð bílsins ber nafnið Mercedes Benz SL 500 en áður en fjallað verður um hann er best að líta aðeins á eldri bræður hans.
Fyrstan ber þar að nefna 300 SL Roadster.
Þetta er fyrsti SL bíllinn og var hann kynntur til sögunnar á Alþjóðabílasýningunni í Genf árið 1957. Hann var framleiddur til ársins 1963 í 1858 eintökum og hefur löngum verið einn sá eftirsóttasti og dýrasti á klassíska bílamarkaðinum.
Næstur í röðinni var 230 SL Pagoda en hann var kynntur til sögunnar árið 1963. Hann vakti einkum hrifningu fyrir nýtt hvolflaga þak sem tryggði stærri hliðarrúður, betri aðgang og þar að auki betri styrk og öryggi. Nafnið Pagoda er einmitt heiti á austurlensku musteri á mörgum hæðum og með hvolflaga þökum.
Árið 1971 var 3. kynslóðin kynnt til sögunnar og fékk hún nafnið 350 SL. Bíllinn, sem var talsvert ólíkur hinum tveimur kynslóðunum í útliti, reyndist gríðarvinsæll og var framleiddur samfleytt í heil 18 ár.
4. kynslóin var svo kynnt til sögunnar á Alþjóðabílasýningunni í Genf árið 1989. Bíllinn fékk nafnið 500 SL og var fremri forverum sínum að öllu leyti hvort sem horft var á öryggisbúnað, þægindi eða kraft. Mesta athygli vakti geysiöflug 306 hestafla vél sem var kraftmesta vélin sem Benz hafði hingað til sett í fjöldaframleiddan bíl. Að auki var ný rafstýrð opnun á þakinu orðinn staðalbúnaður en aðeins tók 30 sekúndur að taka það niður eða setja upp og þótti það nokkuð gott á þessum tíma.
Hönnun á 5. kynslóð hófst árið 1996 þegar 10 hönnuðir voru valdir úr stórum hópi hönnuða frá Þýskalandi, Kaliforníu og Japan. Verkefnið var ögrandi og stórt en niðurstaðan var bíll sem er troðfullur af tækninýjungum eins og sönnum SL bíl sæmir en þrátt fyrir það hefur hann ekki gleymt uppruna sínum og sést það td í loftinntökunum á frambrettunum.
Eitthvað virðist nafnið á 5. kynslóð bílsins hafa vafist fyrir Þjóðverjunum en niðurstaðan var SL 500, sem er sama nafn og á 4. kynslóðinni en einungis er búið að víxla á SL og 500.
Nýi bíllinn er eins og eldri bræður sínir tveggja sæta og með rafstýrðri opnun á þakinu og hefur opnunar- og lokunartíminn næstum styðst um helming frá 4. kynslóðinni en nú tekur aðeins 16 sekúndur að opna eða loka þakinu. Nýja þakið kallast Vario þak, sem gerir bílinn jafnt að coupe eða blæjubíl en þetta þak var fyrst kynnt árið 1996 í SLK Roadster en í honum tekur það 25 sekúndur að opna eða loka þakinu. Þegar þakið er uppi mælist farangursrýmið vera 317 lítrar en þegar það er tekið niður minnkar rýmið niður í 235 lítra þar sem að þakið fellur ofan í farangursrýmið. Þrátt fyrir það er farangursrýmið heilum 52 lítrum stærra en í 4. kynslóðinni. SL 500 verður svo fáanlegur með glerþaki frá og með miðju ári 2002.
Loftmótstaða nýja bílsins hefur verið minnkuð um 9% frá 4. kynslóðinni og hefur cd stuðulinn (cd = coefficient of drag) lækkað úr 0.32 í 0.29. Þrátt fyrir það er SL 500 aðeins stærri og breiðari en forveri sinn. Hann er 4535 mm að lengd sem er 36 mm aukning , 1815 mm breiður sem er 6 mm aukning, 1289 mm hár sem er 8 mm aukning og svo hefur hjólhafið aukist um 45 mm og er nú 2560 mm. Þrátt fyrir aukna stærð og meiri notkun á hástyrkleika stáli er hann jafnþungur og forveri sinn eða 1845 kg.
Hönnuðir bílsins settu sér það markmið að gera nýja bílinn talsvert stífari heldur en forvera sinn og tókst það með aukinni notkun á hástyrkleika stáli en um 33% af boddíi bílsins er gert úr hástyrkleika stáli á meðan rétt um 19% af boddíi forvera hans var gert úr sama efni. Þyngdinni var svo haldið niðri með því að nota ál í hurðir, vélarhlíf, frambretti og skottlok en innra byrði hurðanna er gert úr magnesíum sem er bæði léttara og sterkara en venjulegt ál en dýrara. Til gamans má geta þess að sambærileg vélarhlíf á SL 500, sem smíðuð er úr stáli, er heilum 15 kg þyngri en vélarhlífin sem smíðuð er úr áli. Stuðarar og gólfplata eru svo gerð úr plastefnum.
Vélin í bílum er geysiöflug 5 lítra, V8 vél sem smíðuð er úr léttmálmum. Hún skilar 306 hestöflum @ 3600 rpm sem er jafn mikið og vélin í 4. kynslóðinni gerði enda er þetta í raun sama vélin. 3 ventlar eru á hverjum strokki og er hámarkstog 460 Nm @ 2700-4250 rpm. Mercedes Benz gefur hröðun frá 0 - 100 km/klst á 6.3 sekúndum og hröðun frá 60 - 120 km/klst í 3. gír á 7.6 sekúndum.
Gírkassinn í bílnum er 5 gíra sjálfskipting sem einnig má spila á sem beinskiptingu.
Einn af mörgum sniðugum fídusum í bílnum er sú staðreynd að hann er búinn 2 rafgeymum. Annar sér eingöngu um að ræsa vélina en hinn sér um að knýja allan rafbúnað bílsins áfram sem er vel yfirdrifinn.
Glænýtt bremsukerfi er í bílnum og nefnist það Sensotronic Brake Control, skammstafað SBC. Þetta er rafeindastýrt kerfi, svokallað “brake by wire system”, og á það ef vel reynist að leysa mekanísk og vökvaknúinn bremsukerfi af hólmi í framtíðinni. Trixið í þessu kerfi er það að sérstök tölva í bílnum reiknar út hemlunarátakið út frá því hversu fast er stigið á bremsupedalann eða hversu hratt ökumaðurinn sleppir bensíngjöfinni. Eftir að tölvan hefur reiknað átakið úr sendir hún skilaboð til vökvakerfisins við hvert hjól bílsins um hversu skart skuli bremsa. Með þessu er Mercedes Benz að stytta bilið sem líður frá því að ökumaður stígur á bremsuna og þar til bremsuklossinn snertir bremsudiskinn og er því haldið fram að stöðvunarvegalengd styttist um 3% með nýja kerfinu. Nýja kerfið þurrkar einnig reglulega af bremsudiskunum til að koma í veg fyrir að vatnsfilma setjist á diskana við blautar akstursaðstæður. En það sem menn verða kannski fyrst var við í nýja kerfinu er að titringurinn eða púlsinn sem ABS bremsukerfið sendir upp í bremsupedalann með tilheyrandi braki er nú horfinn. Hvort þessir fídus er til bóta skal ósagt látið en framleiðendur hafa haft tilhneigingu til að minnka þennan titring í nýrri gerðum bíla sinna.
SBC bremsukerfið vinnur saman með ESP stöðugleikakerfinu ásamt öðru kerfi sem kallast Active Body Control (ABC) en það er háþrýsti vökvakerfi sem stillir demparana eftir því hversu bíllinn er þungur og út frá aksturslagi þess ökumanns sem er undir stýri hverju sinni. Samvinna þessara þriggja kerfa á að tryggja hámarksstöðugleika við allar aðstæður.
Framljósabúnaðurinn samanstendur af klassískum 4 kringlóttum Xenonljósum, 2 sitt hvoru megin og eru þau samtengd. Sérstök BiXenon ljós eru fáanleg sem aukabúnaður og eiga þau að skila bæði háum og lágum geisla. Afturljósin eru heil eining og er glerið aðeins rautt að lit en þrátt fyrir það innihalda þau 6 ljós. Endurskinmerki, bremsu-, stöðu- og þokuljós sem er reyndar aðeins vinstra megin en einnig stefnu- og bakkljós. Til þess að stefnuljósin sýndust gul og bakkljósin glær þrátt fyrir rauða glerið í ljósinu þróuðu verkfræðingar Benz sérstakar síur sem tryggja þetta og er þeim komið fyrir inn í sjálfu ljósinu.
Bíllinn er hlaðinn ýmsum staðalbúnaði og má þar helst nefna:
- Rúðuþurrkur með vatnsskynjara sem fara sjálfkrafa af stað þegar vart verður við vatn á framrúðu
- Tvöfaldur loftpúði ökumanns- og farþegarmegin ásamt loftpúðum í hurðum
- Sjálfvirk miðstöð sem skynjar hitastig, hreinleika og rakastig loftsins inn í bílnum og stillir sig eftir því
- LED ljós í bremsuljósum sem eiga að skila meiri birtu og auka þar með öryggi
- ELCODE sem er kerfi sem tryggir að þakinu megi opna og loka með fjarstýringu
- Tölvukerfi sem þekkir lykil hvers ökumanns og stillir sæti, hliðarspegla og stýri eins og viðkomandi ökumaður stillti þau seinast
- Útvarpi og farsíma má stýra með tökkum á stýrinu
- Touchshift sem þýðir að skipt er um gír með því að ýtt eða togað er í gírstöng.
- Xenon framljós
- Central læsing á öllum lokuðum hólfum innandyra ma á hanskahólfi og á hólfi milli sæta
- ESP stöðuleikakerfi eins og áður hefur verið minnst á
- ABC vökvakerfi eins og áður hefur verið minnst á
- SBC bremsukerfi eins og áður hefur verið minnst á
Og miklu, miklu fleira
Þrátt fyrir ríkulegan staðalbúnað er boðið upp á ýmsan aukabúnað fyrir þá sem eiga nóg af seðlum. Má þar helst nefna:
- BiXenon framljós
- COMAND tölvukerfi sem inniheldur útvarp, geislaspilara, sjónvarp, leiðsögukerfi og farsíma í einni og sömu einingunni
- DISTRONIC hraðastýring með fjarlægðarskynjara sem heldur bílnum í fyrirfram ákveðinni fjarlægð frá bílnum á undan
- Búnað sem fylgist með loftþrýstingi í dekkjunum
- LINGUATRONIC sem er raddstýring á útvarpi og farsíma
- TELEAID sem er tölvukerfi sem hringir sjálfkrafa eftir hjálp eftir umferðaróhapp
- Sérstakt hljóðkerfi sem stillir ma. tíðni og aðrar stillingar á hljóðkerfinu eftir veghljóðinu í hvert sinn
Og miklu, miklu meira
Bíllinn er jafn glæsilegur að sjá innandyra og að utan. Innanrými hefur aukist frá 4. kynslóðinni með auknu hjólhafi og tryggir það að nú má hreyfa sætin 50 mm aukalega fram og aftur og 30 mm upp og niður. Efniviður í innréttingar er blanda af leðri, viði ( þar sem menn geta valið á milli valhnotu, kastaníu eða eikarinnréttingar) ásamt áli. Þar að auki geta menn valið á milli 5 litasamsetninga innandyra en bíllinn sjálfur er fáanlegur í 14 litum en allir þessir möguleikar tryggir að væntanlegir kaupendur Mercedes Benz SL 500 geta valið úr 46 ólíkum litasamsetningum.
Og ef þetta er ekki nóg fyrir menn þá verður þessi bíll fáanlegur í sérstakri AMG útgáfu sem kallast Mercedes Benz SL 55 AMG en hún er enn öflugri og betur búinn. Um hana verður eftir til vill fjallað síðar.