
Bíllinn var fyrst kynntur með 3.8 (M116) og 5.0 lítra (M117) V-8 vélum úr áli. Þetta var á olíukrepputímum þannig að benz reyndi að miða sem mest að sparneytni, sem bitnaði kannski óþarflega mikið á getu bílsins, en jafnframt var vélin, sem var öll úr áli, miklu léttari en fyrri vélar og stuðlaði þannig að minni eyðslu. Enn fremur tóku í gildi mengunarlög í bandaríkjunum sem gerði þessum stóru sportbílum lífið erfitt, þar sem 204 hestafla vél 380 bílsins í evrópu varð að 185 hestöflum í bandaríkjunum. 380 SECinn náði mest 210 km/klst og 500 týpan 225 km/klst. 100 km/klst náði 380 SEC á 9,8 sekóndum, 500 bíllinn á rúmum 9. M116 vélinni var breytt ’85 og tekin upp 4.2 lítra vél (420 SEC), en þeir bílar voru framleiddir í enn takmarkaðara upplagi en hinir SEC bílarnir, og eru einskonar safngripir í dag. Einnig var tekin upp 5.6 lítra vél en framleiðslu á 5.0 lítra vélinni einnig haldið áfram. 560 SEC átti þó eftir að verða til þess að eftirspurn eftir 500 SEC minnkaði. Allt í allt voru framleiddir 73.060 SEC bílar, og var framleiðslu þeirra opinberlega hætt ’91. Þó voru nokkrir bílar framleiddir seint á árinu ’91 seldir sem ’92 árgerð í bandaríkjunum. MB í Suður-Afríku hélt þó framleiðslu SEC bílana áfram sem “limited edition” bílum allt til ársins ’94.
Mercedes Benz voru aðallega þekktir fyrir að gera þægilega, íburðarmikla, öfluga, endingargóða og dýra lúxusbíla með góða aksturseiginleika. Og SEC bíllinn var gerður eftir nákvæmlega þeirri formúlu. Þó að vissulega hafi ýmsir tæknifídusar verið í bílnum svo sem loftpúðar og ABS, þá var engu ofgert í þeim efnum, flestir eru þeir praktískir, þó nokkrir þeirra séu til að sýnast (armurinn sem réttir bílstjóranum beltið). Bíllinn átti fyrst og fremst að vera rúmgóður og þægilegur sportbíll. Þó reynt hafi verið að miða að lítilli eyðslu þá var þessi 1850 kg þungi og 5 metra langi bíll með eyðslu frá 17 og uppí 20 lítra á hundraðið, sem reyndar þótti ekki neitt ofboð á þessum tímum. Verðið á bílnum var einnig með því hæsta sem gerðist í heimi lúxus bifreiða, svo kaupandahópurinn var hvort sem er nógu ríkur til að geta haldið botninum á tankinum blautum.
Þessir bílar hafa haldið sér ótrúlega vel, og líta enn þann dag í dag út fyrir að vera jafn dýrir og þeir litu út fyrir að vera fyrir rúmum 20 árum síðan. Þeir eru allir mjög þéttir og heillegir í sér, hurðirnar lokast með þessu djúpa “thump” hljóði sem einkennir dýra og vel einangraða bíla. Draumur að keyra og mjög skemmtilegt að stýra honum. Leður var nú ekki staðalbúnaður, en þeir eru flestir leðurklæddir, sætin voru örlítið frábrugðin þeim sem voru í SE(L) bílunum, áttu að styðja betur við bakið. Það er einnig mjög “svalt” að sjá bílinn frá hlið þegar allar rúður eru niðri. Þetta er vissulega einn af mínum uppáhaldsbílum, þó ég hafi persónulega aldrei átt einn slíkan. Kannski einhvern tíman þegar maður á pening. Þangað til verður pósterið á veggnum að duga.