Undirbúningur bíls fyrir veturinn.
Þar sem ég sé hefðbundna haustpósta um hvað eigi að gera, þegar lásinn frís fastur, eða hurðin. Þá datt mér í hug að senda inn smá leiðbeiningar um hvernig skuli undirbúa bílinn fyrir veturinn.
Byrjum á hurðunum. Það borgar sig að smyrja í alla lása með lásaolíu, ásamt hjörunum. Á alla gúmilista skal bera sílikon. Fitan í olíunni, hindrar rakamyndun í lásunum, og hjörunum, ásamt að halda þessu liðugu. Silikonið hindrar raka í að sitja á gúmílistunum, og þeir frjósi þannig saman.
Svo skal kíkja á rúðuþurkurnar, þær eiga að liggja vel að rúðunni, órifnar, og mjúkar. Rúðuþurkur eru nú mjög ódýr líftrygging, svo höldum þeim í lagi.
Því næst skulum við kíkja undir húddið.
Byrjum á að fylla á rúðupissið með frostþolnum vökva, það er góð regla að fylla alltaf á rúðupissið, um leið og tekið er bensín.
Það þarf að vera nægur kælivökvi á vélinni, með réttu hlutfalli af frostlegi. Það er gott að miða við 50% blöndu af frostlegi og vatni. Frostþolið er hægt að láta mæla á næstu bensínstöð. Ég vek athygli á því, að ofmikill frostlögur á móti vatni, minnkar frostþolið á kælivatninu, svo ekki hella hreinum frostlegi á kælikerfið, nema í mjög littlum skömmtum.
Það er mjög gott að láta skipta um smurolíu, og smyrja bílinn fyrir veturinn. Láta þá um leið, smyrja í hurðirnar, eins og nefnt er að ofan. Einnig skal kanna hvort nægt magn af smurolíu sé á vélinni.
Kíkja skal á vatnsmagnið á rafgeyminum. Á öllum blautgeymum eru merki sem segja til um vökvamagnið (min/max), sem á að vera á sellunum, en þær eru oftast 6 talsins. Sé vökvinn fyrir neðan neðra strikið, þá þarf að bæta vatni á geyminn, þangað til það er komið nánast upp að efra strikinu.
Skoða skal tengin fyrir útfellingum. Tengin eiga að vera með hreinum málmi, ef þau eru með hrúður utan á sér, þá borgar sig að hreinsa það af með vírbursta. En gerið það með varúð, svo þið skemmið ekki tengin. Einnig skal gæta þess að málmur má alls ekki ná á milli stells bílsins og +pólsins á tengdum rafgeymi, þar sem það getur sprengt rafgeyminn.
Ef rafgeymirinn er orðinn slappur, þá borgar sig að skipta um hann, þar sem rafgeymar slappast hratt í kulda, þá er líklegt að slappur rafgeymir svíkji þig í vetur.
Kíkja skal á kertaþræðina, ef þeir eru orðnir lélegir, þá borgar sig að skipta um þá, einnig að skipta um kertin ef þau eru orðin léleg. Margir vilja líka setja sílikon á kertaþræðina, til að verja þá fyrir raka, sem myndast þegar frost og þýða skiptast á.
Fara skal yfir öll ljós á bílnum, og skipta um þær perur sem eru í ólagi. Það er gott að nota stóra glugga, svo sem verslunarglugga, til að sjá hvort bremsuljósin séu að virka.
Síðast en ekki síst skal skoða dekkin. Ávalt skal vera á góðum dekkjum, með ekki minna en 2 mm munstri á veturnar. Miklu skiptir að loftþrýstingurinn sé réttur í dekkjunum, til að fá hámarksgrip. Einnig skiptir máli að vera á vetrarmunnstri, þar sem það gefur best grip í snjó og ís. Það er hægt að nota heilsársdekk, en þau gefa ekki eins gott grip í vetrarakstri og vetrardekk. Ég sjálfur mæli ekki með nöglum á höfuðborgarsvæðinu, en það er smekksatriði.
Alls ekki má keyra á sumardekkjum á veturnar, þar sem gúmíið í þeim harðnar, og gefur því mjög lítið grip, fyrir utan að munstrið er ekki gott í snjó og hálku.
En það þarf einnig að muna að tjöruhreinsa dekkin reglulega. Ég mæli með að hreinsa þau ekki sjaldnar en á 2 vikna fresti, til að fá gott grip. Til að hreinsa dekkin, þá er best að kaupa dekkjahreinsi, og úða yfir gripflötinn á dekkjunum. Síðan er best ef hægt er að keyra í nýjum snjó, en annars þarf að skola dekkin vel með vatni.
Ef dekkin eru ekki tjöruhreinsuð reglulega, þá liggur tjaran neðan á gripfletinum, og gerir dekkin flughál, og eru mörg dæmi um óhöpp og slys út af þessu.
Ég vona að eitthvað af þessum ráðleggingum gagnist ykkur, en endilega bætið við, ef ég er að gleyma einhverju.
Kveðja habe.