Það fór eins og margir Bretar höfðu vonað að úrslit HM í ralli myndu ráðast í lokaumferðinni, Network Q Rally Great Britain, en keppnin hófst fyrr í kvöld og stendur fram á seinnipart sunnudags. Hinsvegar áttu fáir von á að jafnmikilli spennu fyrir lokaumferðina og raun varð á og má segja að þetta sé ein mest spennandi keppni sem um getur í 23 ára sögu HM-rallsins. Í fyrsta sinn hefja 4 ökumenn lokakeppnina með möguleika á heimsmeistaratitli, þar sem aðeins munar 2 stigum á þrem efstu mönnum.
Fyrirfram telja menn að baráttan um sigur komi til með að standa á milli Colin McRae og Richard Burns enda eru þeir hér á heimavelli en þeir hafa hvor um sig sigrað hér þrisvar. McRae sigraði hér 94, 95 og 97 á Subaru Impreza, Armin Schwarz sigraði hér 96 á Toyota Celica en Burns hefur sigrað hér sl 3 ár, fyrst á MMC Carisma 97 en 98 og 99 á Subaru Impreza. Burns er því æði sigurstranglegur miðað við fyrri störf hér en rallkeppni vinnst ekki á fornri frægð. Colin McRae hefur aftur á móti ekki náð að ljúka keppni hér sl 3 ár og er mikið í mun að klára rallið í ár, og þá á undan Burns og Tommy Makinen.
Tommy Makinen hefur aldrei gengið vel í þessu ralli og er besti árangur hans hér 3. sætið ef ég man rétt. Hann tryggði sér þó heimsmeistaratitilinn hér árið 1998 þrátt fyrir að hafa keyrt á steyptan stólpa í byrjun keppninnar og grillað meirihlutann af afturhjólakerfi Lancersins sem olli því að hann varð að hætta keppni. Titilinn gat hann þakkað vélinni í Corolla bíl Carloz Sainz en hún gaf upp öndina um 300 metrum frá lokamarkinu á seinustu sérleiðinni og það þýddi að Makinen varð heimsmeistari en Sainz varð að sætta sig við 2. sætið. Makinen er einnig með nýjan aðstoðarökumann með sér í rallinu en aðstoðarökumaður hans, Risto Mannisenmaki, slasaðist eins og kunnugt er í hörðum árekstri í Korsíkurallinu í seinasta mánuði, og er óvíst hvort hann verði orðinn heill heilsu fyrir fyrstu umferðina í Monte Carlo í janúar næst komandi en þá verða þeir félagar komnir yfir til Subaru.
Ekið er á malarvegum um skóglendi í Wales en á þessum árstíma er þar allra veðra von, því brostið getur á með grenjandi rigningu, snjókomu, frosti og þoku sem gerir malarvegina mjög sleipa.
Mikið fjölmiðlafár hefur verið í kringum baráttu Burns og McRae í Bretlandi undir nafninu “The battle of the Brits” og hafa þeir verið ósparir á að senda hvor öðrum pillur í blaðaviðtölum. Ýmsir rallísérfræðingar og gamlar rallíkempur hafa verið fengnir til að spá í spilin og hefur sú spá skipts nokkuð jafnt en þó hefur Burns verið talin eilítið sigurstranglegri og þá sérstaklega mtt góðst árangurs í undanförnum keppnum, en hér mun sálfræðin einnig spila stóra rullu. Breskir veðbankar taka ekki af skarið og segja sömu líkur á sigri Burns og sigri McRae.
Talsvert hefur verið spáð í hvort liðin muni beita sérstökum skipunum til að styðja ákveðna menn til sigurs. Þar horfa menn einkum til Peugeot og Marcus Grönholm en undirritaður telur hann vera líklegasta kandídatinn til að ná að hanga í Burns og McRae. Reglurnar í WRC eru þannig að heimsmeistari ökumanna fær rásnúmer 1 á bíl sinn fyrir næsta ár og samkvæmt því sem undirritaður kemst næst flytur hann númerið með sér þó hann skipti um lið. Peugeot gæti því skipað sínum mönnum að víkja fyrir Burns í lokin til að tryggja honum titilinn með það að markmiði að halda rásnúmeri 1 hjá Peugeot á næsta ári en Grönholm hefur keyrt bíl nr. 1 í ár sem núverandi handhafi heimsmeistartitilsins. Þetta er þó talið frekar ólíklegt þar sem Peugeot á í harðri keppni við Ford í keppni um heimsmeistaratitil bílaframleiðenda og hefur ekki efni á að missa af mörgum stigum í þeirri baráttu. Nafn Markko Märtin hefur einnig skotið upp í þessu samhengi en hann yfirgefur Subaru eftir þetta rall og gengur til liðs við Ford og hafa menn velt því fyrir sig hvort hann myndi freistast til að vinna sér inn prik hjá tilvonandi liðsfélaga sínum með einhverskonar aðstoð.
Sigri Burns eða McRae hér jafna þeir met Hannu Mikkola, sem sigraði hér 4 sinnum á árunum 1978 til 1982, 78 og 79 á Ford Escort en 81 og 82 á Audi Quattro, og er það sigramet enn óslegið. Það sem myndi þó gera afrek Burns sérstakt er að sigrar hans kæmu allir í röð.
Hvernig sem þetta fer allt saman er óhætt að lofa hörkukeppni og er við hæfi að enda þessa grein á orðum McRae á einum af blaðamannafundunum fyrir kepppnina en hann sagði:
“It’s going to be the driver and team at the end of Sunday that can win the championship and whoever does it, deserves it”.