Nissan Z 350 Nissan, 3. stærsti bílaframleiðandi Japans, kynnti ýmsa athyglisverða bíla á Bílasýningunni í Tokyo. Alls sýndi Nissan 7 nýja hugmyndabíla og eiga þeir að endurspegla þá hönnunarstefnu sem Nissan ætlar að fylgja á næstu árum. Carlos Chosn, sem er tiltölulega nýtekinn við starfi sem stjórnarformaður Nissan, tilkynnti á sýningunni að Nissan hygðist setja 13 nýja bíla á markað á næsta ári og þar að auki 7 nýja bíla á hverju ári á árunum 2003 - 2006. Það er því greinilegt að það blása ferskir vindar um Nissan þessa dagana og þá sérstaklega eftir að Chosn varð stjórnarformaður. Hann er af mörgum kallaður kraftaverkamaðurinn enda hefur honum tekist að snúa langvarandi taprekstri Nissan í metgróða á stuttum tíma.

Aðalnúmer Nissan í Tokyo var tveggja sæta sportbíllinn Nissan Z 350, sem er seldur undir nafninu Nissan Fairlady Z í Japan. Fairlady er nafn sem undirritaður myndi seint tengja við sportbíla en það virðist ganga ágætlega í Japana. Enn er óvíst hvort bíllin verði framleiddur fyrir Evrópumarkað en hann kemur til sölu í USA í byrjun árs 2002 og kemur til með að kosta um 30.000 USD.

Nissan Z sást fyrst sem concept á 1999 Detroit Auto Show og svo í endurbættri útgáfu á 2001 North American International Auto Show. Umfjöllun um þær útgáfur má finna í grein sem undirritaður birti hér fyrr í sumar. Slóðin er: http://www.hugi.is/bilar/greinar.php?grein_id=24767

Framleiðsluútgáfa Nissan Z 350 var svo frumsýnd á bílasýningunni í Tokyo í lok október og þrátt fyrir að Nissan hafi ekki enn gefið út nákvæmar performance upplýsingar um bílinn þá kemur bíllinn ekkert til með að breytast meira útlitslega áður en hann fer í framleiðslu fyrir USA markað og væntanlega okkur Evrópubúa. Einu fáanlegu upplýsingarnar um vélbúnað bílsins segja að hann verði búinn 3500 cm3 V6 vél og nýjum 6 gíra “Short shifter” handskiptum gírkassa sem beinir öllu aflinu til afturhjólanna. Óstaðfestar upplýsingar segja þó að hestaflatalan verði 260+.

Persónulega finnst mér Nissan hafa tekist vel upp við hönnunarferlið frá concept útgáfunni að framleiðsluútgáfunni. Bíllinn hefur farið í gegnum miklar breytingar frá 2001 concept útgáfunni og sem dæmi þá ber vissulega ekki jafnmikið á álprófílum innandyra eins og í conceptinu en þrátt fyrir það passar efnisvalið innandyra vel við heildarmynd bílsins.

Nissan Z 350 virðist því greinilega hafa orginal Z DNA eins og Nissan lofaði við kynningu concept útgáfu bílsins árið 2001.