Ég bara varð að skrifa grein um þennan…
Ég er nú þeirri náttúru búinn að verða að hafa skoðun á bílum. Ég er líka alltaf að velta fyrir mér hvaða nýi bíll uppfylli kröfur mínar best án þess að hljóma eins og liður í fjárlagafrumvarpi. Núna lengi vel hef ég hugsað blauta drauma um Porsche Boxster og TVR Tamora og var Tamoran búin að salta samanburðinn. Þangað til maður heyrði enn fleiri draugasögur um áreiðanleika TVR… Og þá las ég prufun á bíl sem er eins og gerður fyrir mig og ekki nóg með það heldur er rétt merki á trýninu líka!
Lotus Elise er sportbíll sem allir eiga að þekkja enda einn af merkustu nýju bílum síðasta áratugs. Byggður samkvæmt hugmyndum Colins Chapmans, stofnanda Lotus, þó sá mæti maður sé fyrir löngu látinn. Með Elise endurvakti Lotus hugmyndina að sportbíl sem er ofur léttur og því sprækur þótt vélin sé ekki stór. Með eigin þyngd sem var ekki mikið yfir 700kg nægði 118bhp 1,8l vél til að fleyta upprunalegu Elise upp í hundrað á um eða undir 6 sekúndum. Létt þyngdin hjálpaði til að aksturseiginleikar væru hnífskarpir. Þessi uppskrift gerir líka að verkum að lítið álag er á slithlut bílsins og þessi hóflega dýri bíll er því léttari í rekstri en stærri og þyngri bílar sem eru engu sneggri.
Auðvitað er Lotus Elise engin limúsína. Innréttingar eru að grunninum til snauðar og bíllinn er þröngur en þó með farangursrími þótt lítið sé. Það er líka tiltölulega erfitt að setjast í hann, breið silla til að stíga yfir og bíllinn að sjálfsögðu lár eins og sportbíl sæmir. Hann er semsagt ekki daglegt farartæki fyrir hvern sem er en sumir eru tilbúnir til að lifa við svona ef það þýðir að þeir fái skemmtilegan og sprækan bíl. Sjálfur er ég eiginlega heillaður af þessu, þetta þýðir það að bíllinn er ekki fyrir hvern sem er. Það kitlar bara bíladelluna mína.
En Elise átti aldrei fastan stað í hjarta mínu fyrr en Lotus kom með 2001 módelið. Eins og Lotus er siður er nýja gerðin kölluð S2 sem þýðir Series 2. Útliti var mikið breytt og sýnist sitt hverjum. Það sem mestu máli skiptir var að fjöðrunin og þar með aksturseiginleikar voru fínpússaðir til að laga atriði sem höfðu sætt gagnrýni. Einnig voru innréttingar bættar, aðgengi fyrir ökumann og farþega bætt, stærri felgur staðalbúnaður og Rover K vélin fékk nýja tölvu frá Lotus sem setti aflið upp í 120bhp.
Það er auðvitað ekki slæmt að fá hreinræktaðan sportbíl með miðstæðri vél sem nær 0-60mph á 5,6 sek. skv. verksmiðju. Ef hann er sparneytinn og kostar undir 23þ. pundum í heimalandinu skaðar það ekki. En ef þið hugsið eins og ég eruð þið að velta fyrir ykkur hvernig hann væri með aðeins meira afli. Og svarið er: frábær!
Turbo Technics í Bretlandi býður upp á breytingapakka sem kemur Elise upp í 190bhp með aðstoð superchargers. Breytingarnar eiga sér eingöngu stað í vélarrúminu og því má segja að bíllinn sé algert leynivopn enda gefið upp að hann skjótist í 60mph úr kyrrstöðu á 4,6 sekúndum. Það eina sem gefur til kynna í sjón hvernig bíll er á ferðinni eru nettir litlir límmiðar á bretti og afturenda.
Það eru þó ekki allir bílar sem taka við aflaukningu upp á meira en helming með góðu móti. Elise virðist þó taka þessu vel og ættu aksturseiginleikarnir ekkert að skaðast, þvert á móti þá verða þeir bara aðgengilegri með auknu afli. Þyndinni er líka haldið í skefjum, bíllinn ekki nema 10kg þyngri eftir breytingu. Eini gallinn á gjöf Njarðar er sá að vélin er örlítið seinni að taka við sér eins og búast má við af vél með supercharger. Munurinn er þó varla til að kvarta yfir, a.m.k. ekki þegar litið er til alls aflsins sem maður fær í staðinn.
Breytingin sjálf er í hæðsta gæðaflokki og vélarrýmið ákaflega snyrtilegt að sjá með nýju pípulögnunum. Verðið er ekki lágt, 6756 pund með öllu og komið í bílinn, en vel þess virði. Hugsið ykkur bara hvað fæst sambærilegt fyrir undir 29þ. pund. Og ef 190bhp er ekki nóg og fólk á ennþá smá aukapening er hægt að bæta við nýjum kambásum og portun á heddi til að fá 230bhp. Í bíl sem er 250kg léttari en meðal smábíll…