Subaru SVX í tilefni annarrar kynslóðar. Ég tók mig til og fékk að prófa Subaru SVX bíl síðast liðið vor og það er kannski ekki svo vitlaust að deila því með ykkur þar sem þetta eru nokkuð merkilegir Subaru bílar.

Bíllinn er náttúrulega mjög framúrstefnulegur í útliti og hann er enn í dag nokkuð flottur að innan með rússkins og leður innréttingu. Einnig eru hliðarrúðurnar nokkuð óhefðbundnar og ég man ekki betur en að það sé hægt að rúlla niður aftari hliðarrúðum líka. Þetta eru geysilega vel hannaðir bílar og snúa ennþá höfðum hvar sem þeir fara. Þeir eru þó dálítið viðkvæmir fyrir litum og þessir ljósari einna skemmtilegastir þar sem þeir draga fram toppinn sem er dökkmálaður (sumir halda að hann sé úr gleri en því miður er svo ekki).
Þessir bílar eru með frekar stóran rokk af japönskum bíl að vera en vélin er 3.3 lítra 6 strokka boxer vél og 230 hestöfl. Það er mjög sérstakt að heyra í í svona stórri boxer vél og togið í þessum vélum er mjög mikið. Þetta er samt mjög þungur bíll og ekkert sérstaklega fljótur á sér. Bíllinn er eitthvað um 1700 kíló sem er ekki lítið fyrir Coupe bíl og þessi 230 hestöfl koma honum í 100 kmh hraða á 7.3 sekúndum, það eru hinsvegar mjög misvísandi tölur um það á netinu og ef einhver er með réttar tölur þá má endilega koma með þær. Maður finnur nokkuð mikið fyrir þygndinni á þessum bíl í akstri og þung vélin leggur framendan óþarflega mikið í beygjum. Bremsurnar mættu einnig vera betri en þær virðast ekki ráða almennilega við að stöðva þetta feiknastykki. Bíllinn er mjög þægilegur þó hann mætti vera hljóðlátari og verðið er orðið nokkuð vel viðráðanlegt þar sem bíllin sem ég prófaði var 1993 módel og á tæp 1300 þúsund.

Ég myndi telja að arftaki þessa bíls yrði að fara frumlegar og djarfar leiðir útlitslega þar sem gamla boddíið var algjör bylting miðað við það sem áður hafði komið frá Subaru ef undanskilin er XT sem var þó ekki eins framúrstefnulegur. Arftakinn yrði einnig að vera annað tveggja, miklu léttari eða miklu öflugri þar sem þessi 230 hestar eru ekki nóg til að keppa við t.d. Audi TT nema náttúrulega hann fari í góða megrun. Fjórhjóladrifið verður að sjálfsögðu til staðar og tryggir gott veggrip, en til að allur pakkinn virki væri þá ekki best að hafa beggja blands? # lítra vélina úr Outback bílnum með túrbínu á??? Með því móti ætti að vera hægt að ná með góðu móti um 280-300 hestölfum úr bílnum (280 líklegasta markmiðið) og jarða samkeppnina með bíl sem væri sennilegast ódýrari, sterkari og sprækari…..