Það eru örugglega nokkrir sem eru ekki enn búnir að setja á vetrardekkin og kannski einhverjir sem eru ekki búnir að versla sér dekk fyrir veturinn.
En hvað er það sem skiptir máli þegar kemur að því að velja sér dekk fyrir veturinn? Flestir segja örugglega annað hvort “naglar” eða “munstur”. Vissulega er munstrið eitt af því sem munar á milli sumar og vetrardekkja. En það er annað atriði sem skiptir álíka miklu máli, en það er efnið í dekkjunum.
Til að vetrardekk virki sem slík þarf efnið í þeim að haldast mjúkt jafnvel í kulda. Þetta er ástæðan (fyrir utan óhentugt munstur) fyrir því að sumardekk eru slæmur kostur að vetri til.
Efni þessarar greinar datt mér einmitt í hug þegar ég var að skoða ódýr nagladekk. Ég potaði í einn kubinn af munstrinu sem hreinlega gaf ekkert eftir. Þegar ég ýtti fastar gaf hliðarveggurinn á dekkinu eftir en ekki gripflöturinn! Ég er nokkuð viss um að þessi dekk hefðu ekki einungis verið slöpp í köldu veðri heldur myndu þau draga verulega úr aksturseiginleikum bílsins sem þau væru sett undir.
Ef málið er að spara pening í dekkjakaupum er ég ekki frá því að það sé vænlegra að kaupa vönduð heilsársdekk en að skröltast um á lélegum vetrardekkjum og kannski lélegum sumardekkjum líka á sumrin. Mér að miklum óvörum hef ég séð dekkjaprófanir við vetraraðstæður þar sem að heilsársdekk komu alveg þokkalega út. Ekki jafn vel og bestu vetrardekk en mun miklu betur en sumardekk nokkurn tíman. Það er vert að benda á það í framhaldi að ég veit um prófanir á vetrardekkjum á móti sumardekkjum við þurrar, hlýjar aðstæður og merkilegt nokk, vetrardekkin eru mjög slæmur valkostur fyrir sumarakstur.
Ég er samt viss um að það er fátt sem skiptir meira máli fyrir bílinn manns en góð dekk sem henta fyrir þær aðstæður sem bíllinn er notaður við. Hvort sem við aðhyllumst snjódekk, nagladekk eða harðkornadekk er málið að velja dekkin af kostgæfni því öryggi okkar sjálfra og annara veltur á því að við séum á góðum dekkjum í umferðinni.
Sjálfur hef ég verið naglalaus þrjá síðustu vetur og mæli eindregið með að fólk skoði þann valkost fordómalaust, enda mun ég líklegast aldrei kaupa aftur nagladekk. En það var ekki meiningin að fara að ræða kosti og galla nagla hérna, það eitt og sér er efni í grein. Og líklegast hörð skoðanaskipti…