Á netinu (www.autoexpress.co.uk) rakst ég á val á 100 bestu bílum “ever”. Mjög forvitnilegt eins og gefur að skilja fyrir alla með einhverja bíladellu. Nú veit ég ekki hvort þið hafið séð þetta en allavega, hér eru þær niðurstöður sem mér finnst athygliverðastar.
#1 Mini. Þetta ætti sosem ekki að koma neitt sérstaklega á óvart og í raun gerir það ekki. Mini var og er ennþá frábær akstursbíll og mjög frumlegur á sínum tíma og verk eins manns, Sir Alec Issigonis, ólíkt arftakans sem er hannaður af hópi fólks sem fæstir vita hverjir eru. Mini á líka sérstakan stað í hjarta allra sem hafa haft einhver kynni af þessum bílum líkt og VW bjalla.
#2 Porsche 911. Maður er ekki hissa að sjá þann bíl svona ofarlega á þessum lista. En autoexpress hefur nokkuð til síns máls þegar tekið er tillit til þess að þessi bíll er sportbíll með öllum þeim málamyndunum sem þeim fylgja og samt sem áður svona ofarlega.
#3 Ford módel T, ekki skrítið, fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn sem svo eftirminnilega fékkst í öllum litum svo framarlega sem hann var svartur.
#4 VW Bjalla. Alls ekki skrítið. Þessi bíll hefur svipaðan status og Mini og er þeim sem kannast eitthvað við þessa bíla alveg jafn hjartfólginn. Það er heldur engin tilviljun að báðir þessir bílar hafa verið notaðir sem fyrirmynd að nýjum bíl. Síðan á eftir að koma í ljós hvorum arftakanum vegnar betur.
#5 McLaren F1….. Langflestir telja þetta eina bíl sinnar tegundar fyrr og síðar, hann er svo svakalega góður í því sem hann á að gera að flestir efast um að nokkur muni leggja fé og vinnu í að reyna að toppa þennan bíl-um alla framtíð. Þessi bíll er einskonar áttunda undur veraldar. Því miður voru aðeins smíðuð 100 eintök.
#6 Land Rover. Enn einn frumkvöðullinn. Eins og auglýsingin segir “nobody knows how long a Land Rover lasts, it has only been manufactured for 50 years”
#7 Jaguar E-type, einn fallegasti blæjubíll fyrr og síðar og með karakter í stíl við útlitið…öflugur.
#8 Renault Espace???? What the f… Ok, hann er frumlegur og sennilega merkilegast nýjungin í bílabransanum síðustu 20 árin FJÖLNOTABÍLLINN.
#9 Fiat 500. Vespa á fjórum hjólum. Fyrsti bíllinn sem Schumacher eignaðist, og hann á fékk einn gefins fyrir stuttu. Fyrst hann var nógu góður fyrir hann þá á hann eflaust heima þarna.
#10 Citroen DS, ótrúlega framúrstefnulegur bíll sem er gullfallegur og nútímalegur enn í dag.
Þetta eru tíu efstu bílarnir og í raun hef ég engar athugasemdir við þetta, það væri gaman að vita hvað öðrum finnst.
Þá eru það þeir bílar sem ég er hissa að sjá á topp 100 listanum.
#15 VW Golf Mark IV, afhverju í ósköpunum, þetta er ofurvenjulegur bíll, hann er vinsæll, en ekkert vinsælli en t.d Opel Astra fyrir nokkrum árum (þá á ég við Evrópu) eða Fiat Punto!
#54 Fiat Panda. Ég skil ekki afhverju þessi bíll á heima á þessum lista, vísu var hann vinsæll og þetta eru ágætis bílar miðað við peninginn. En ekkert nýtt, ekkert sem Mini hafði ekki gert betur áður.
#61 Audi TT. Ekki er ég sammála þessu. Bara vegna þess að bíllinn lítur vel út þá hefur hann sosem ekki mikið annað með sér. Hann er t.d. ekki neitt sérstakur akstursbíll og ekki er það einstakt að gullfalleg prototýpa fari í framleiðslu nær óbreytt.
#63 VW Rúgbrauð. Ég er hinsvegar hissa að sjá þenna bíl ekki ofar á listanum.
#80 Trabant 601. Þetta er sko ekki fyndið. Maður á ekki að gera grín að áralöngum þjáningum austur þúskra borgara. Þetta er ekki einu sinni bíll!
Smá innskot til Mal3….#84 Ford Anglia síðan 1959 “Its OHV engine proved so good that Ford still uses it today… in the Ka. ”
#100 Opel Tigra. Þetta var flottur bíll,ekki hægt að neita því, en ekki neitt sérstaklega merkilegur á neinn annan hátt en þann að hann kom á óvart bara vegna þess að hann var frá Opel.
Ég vona að menn taki þetta nú ekki of alvarlega, en það væri gaman að vita hvað öðrum finnst og endilega kíkið á þessa síðu, þetta er mjög skemmtilegur listi.