Það eru líklegast fáir menn sem hafa sýnt jafnmikla snilld á ferli sínum í bílaiðnaðnum og Colin Chapman stofnandi Lotus. Ekki eingöngu hannaði hann og fyrirtæki hans nokkra af merkari sportbílum síðustu aldar heldur var Lotus á tímabili stórveldi í Formula 1 kappakstri og kynnti til sögu nýjungar á báðum sviðunum. Ekki slæmt afrek fyrir fyrirtæki sem í upphafi breytti bílum fyrir kappakstur og önnur not, hafði eingöngu einn starfsmann, eigandann, og var fjármagnað af tilvonandi unnustu hans.
Áður en Elan kom á markaðinn hafði merkasti bíll Chapmans verið Seven. Seven kom á markaðinn 1957 og fyrst í partaformi til heimasmíða. Lotus Seven á í raun merka sögu í sjálfu sér en nægir hér að nefna að hann er enn í dag smíðaður lítið breyttur í grundvallaratriðum sem Caterham Super Seven. Kraftmeiri útgáfur af Caterham eru meðal sneggstu bíla í heimi enn í dag.
Það má rekja upphaf Elan til þess að Lotus gerði Elite sportbílinn sem var um margt merkilegur. Elite var lítill GT sportbíll og hann var fyrsti bíllinn sem hafði trefjaplasts einskeljungs (glassfibre monocoque) yfirbyggingu. Þökk sé straumlínulagi sem er sbrl. við það besta í götubílum nútímans (Cd 0,29, sama og t.d. Corvette C5 Coupe) náðu jafnvel kraftminnstu útfærslur Elite yfir hundrað mílna hraða. Ágætt fyrir 71bhp bíl frá 1959. Bíllin hafði hinsvegar ýmsa galla, einn þeirra var þó ekki aksturseiginleikarnir, en vöndun var lítil og Elite kostaði meira en Jaguar XK150 á sínum tíma enda mjög erfitt að smíða hann.
Árið 1962 kom svo Elan fram á sjónarsviðið og vakti svo mikla lukku að ári seinna var Elite tekin af markaðnum. Lotus þurfti að einbeita sér að framleiðslu Elan. Fyrst í stað var Elan tveggja sæta blæjubíll. Yfirbygging var úr trefjaplasti og undirvagninn s.k. stál “backbone”.
“Léttleiki er næstur Guðdómleika” voru kjörorð Chapmans og það má segja að léttleiki bílsins hafi tryggt honum guðdómlega aksturseiginleika en fyrstu gerðir Elan vógu aðeins 680kg. Með “double wishbone” fjöðrun framan sem að aftan var þessi litli blæjubíll einstaklega lipur og lág þyngdin tryggði að þrátt fyrir framúrskarandi aksturseiginleika var fjöðrunin langt í frá höst.
Það þarf engum að segja að ekki þarf mikið vélarafl til að koma 680kg bíl áfram. Lotus treysti þar á fólksbílamótor frá Ford en hönnuðu og smíðuðu þó sitt eigið hedd með tveimur yfirliggjandi kambásum fyrir vélina. Þannig náðu þeir 105bhp út úr 1,6l fjögurra strokka vél, hreint ekki slæmt árið 1962.
Þegar á leið bættust í hópinn bæði “kúpubakur” (ömurlegt orð en ég er að reyna að temja mér að nota íslensku, hvað er að coupe?) og 2+2 útfærsla. Ein mikilvægasta breytingin varð þó árið 1971 þegar Sprint útfærslan kom með s.k. Big Valve (stórventla í lakri þýðingu) vél sem gaf heil 126bhp. Þótt þyngd bílsins væri þá komin upp í 720kg munaði litlu um. Elan Sprint gaf fáum bílum eftir í hröðun nema ofurbílum þessa tíma og þá helst ekki fyrr en komið var á þó nokkra ferð. Ég get mér til, byggt á heimildum, að Elan Sprint hafi verið um 7,0 sek. úr kyrrstöðu og upp í hundrað kílometra hraða, hámarkshraði hefur verið um 193 km á klst.
Ef við bætum svo nokkrum beygjum í reikninginn hafa fáir samtímabílar haft í vel ekinn Elan Sprint. Reyndar eru þessir bílar enn það góðir að þeir eru notaðir í ýmsar gerðir áhugamannakappaksturs og yfirleitt með góðum árangri gagnvart nýrri og “fullkomnari” bílum.
Það er því augljóst að þótt Lotus Elan falli í flokk lítilla blæjusportara þá sló hann mun fastar frá sér en flestir ef ekki allir bílar í hans flokki, jafnvel eftir að framleiðslu var hætt árið 1973.
Lotus reyndi síðan að endurvekja Elan til lífsins á 9. áratugnum og notaði nafnið á framdrifinn tveggja sæta blæjubíl. Árangurinn var umdeildur en hann náði aldrei þeirri hilli sem eldri bíllinn náði né heldur stóð sala hans undir væntingum og var framleiðslurétturinn löngu seinna keyptur af Kia. Mazda hinsvegar notaði Elan sem innblástur við hönnun MX-5 Miata og endurlífgaði þar með markaðinn fyrir litla og “ódýra” blæjusportara. Margir vildu meina að Mazda MX-5 væri Lotus Elan án olíblettanna í heimreiðinni en staðreindin er sú að þótt Mazda bíllinn hafi sannarlega verið frábær sportbíll telst hann seint jafn góður á því sviði og fyrirmyndin.
Verðið á Elan í dag ber líka með sér að hann gleymdist ekki meðal bíladellumanna. Meðal merkra eigenda Elan er Gordon Murray hönnuður hjá McLaren, en McLaren F1 var að miklu leiti hans barn. Við lok þessarar aldar setti Murray Elan á topp 10 lista sinn yfir bestu akstursbíla síðustu aldar, í 3. sæti en á undan voru einungis eigin hannanir Murrays.
Heimildir: EVO Magazine #3 og #13, The Encyclopedia of Classic Cars, Autozine Monthly (mynd einnig, veftímarit: http://home.netvigator.com/~europa/Main_Menu.htm) og Supercars.com