Chevrolet hefur tilkynnt að 2002 árgerðin af Camaro verði sú síðasta en það árið mun Camaro einmitt eiga 35 ára afmæli. Þótt að ég beri til takmarkaða hrifningu á þessum draumi amerískra unglingspilta er þetta viss missir fyrir bílamenninguna. Þó þessir bílar hafi verið n.k. risaeðlur sem urðu eftir þegar aðrar tegundir þróuðust voru margir sem hrifust af þeim. Kostir Camaro rétt eins og annara “pony cars”, eins og þessi flokkur bifreiða hefur verið nefndur, hafa verið öflugur mótur í tiltölulega ódýrum pakka. Það sem hefur skort í fágun og aksturseiginleikum telja margir að sé bætt upp með afli, togi, rúmtaki og síðast en ekki síst: hröðun. Það skemmir svo ekki fyrir að þótt rokkurinn undir húddinu hafi stundum þótt drykkfelldur hefur hann oftast hljómað vel.
Nú vaknar sú spurning hvort þetta marki endalok fyrir “pony cars”. Ford virðist ætla að halda áfram með Mustang og veit ég ekki til að Pontiac muni hætta með Firebird þótt ég hafi fyrir löngu heyrt orðróm um það. Ég tel það líklegt m.v. örlög Camaro að Ford muni sitja einir að kjötkötlunum. Víst er að nú munu einhverjir syrgja en ég vill frekar sjá þetta sem tækifæri fyrir GM. Eftir brotthvarf Camaro verður Corvette eini sportbíll Chevrolet og þar sem hann er mun miklu dýrari en Camaro mætti halda að Chevrolet þyrfti að finna eitthvað í stað Camaro. Nú er mál fyrir fyritækið að sýna getu sína og búa til nútímalegan arftaka Camaro, bíl sem myndi jafnvel geta öðlast vinsældir ekki eingöngu í Ameríku heldur einnig í Evrópu sem Camaro tókst aldrei.
Í rauninni ætti að vera auðvelt fyrir Chevrolet að búa til framúrskarandi sportbíl til að taka við af Camaro. GM samsteypan hefur stóran flota mismunandi bíla í framleiðslu hjá fyrirtækjum innan sinna vébanda. Þeir ætti því að geta byggt nýjan sportbíl á bíl sem er til þegar svo hægt sé að halda hönnunar- og framleiðslukostnaði niðri. Hvað þeir velja veit ég ekki en ég hef hinsvegar hugmynd: Hvað yrði betri arftaki Camaro en miðlungsstór 2+2 kúpubakur? Hvað myndi skapa þannig bíl meiri sérstöðu á þeim markaði en V8 vél (þó ekki sé nema aukabúnaður) og afturdrif á vænlegu verði? Ef vel yrði að málum staðið gæti enduruppfundinn Camaro slegið í gegn. Nota mætti kannski Sigma undirvagninn sem Cadillac byggir nýja CTS bíl sinn á til grundvallar. Ef þyngdinni er haldið í hófi, a.m.k. réttu megin við 1500kg en frekar þó um kannski 1300kg, gæti kraftmikil V6 vél eða jafnvel lítil V8 skilað bílnum vel áfram. 4,0l Northstar útfærslan sem prýddi Aurora bíl Oldsmobile kemur mér strax til hugar en ýmsar aðrar spennandi vélar eru líka í bígerð hjá GM núna. Þennan bíl mætti svo selja með minniháttar breytingum sem Opel í Evrópu og gera þannig Opel merkið meira spennandi . Að því gefnu að það gengi upp myndi GM örugglega reyna að selja hann undir Chevrolet merkinu á heimsvísu.
En Camaro hættir ekki þegjandi og hljóðalaust. Síðasta árið verður boðið upp á sérstaka 35 ára afmæliútgáfu sem ætti að teljast einhver huggun fyrir þá sem eru ekki sáttir við endalok Camaro.