Hver stórfréttin á eftir annarri hafa komið fram í WRC heiminum sl. viku.
Fyrst ber þar að nefna niðurfellingu á Rally Portúgal og í staðinn hefur rall í Þýskalandi verið tekið inn í WRC seríuna og ber það hið frumlega nafn Rally Deutschland.
Önnur frétt tengist stigakerfinu í WRC en því var breytt árið 1997 ef ég man rétt og Formula 1 stigakerfið tekið upp sem tryggir 6 efstu bílum stig á bilinu 10 til 1 eftir árangri. Skoda og Hyundai hafa mikið kvartað yfir þessu kerfi í ár og einhvað virðist það vera að bera árangur þar sem nú er rætt um að taka gamla stigakerfið upp aftur. Þá fengu 10 efstu bílar stig á bilinu 20 til 1 eftir árangri. Einnig er rætt um að láta 2 efstu bílar hvers framleiðanda fyrir sig skora stig en nú tilnefna framleiður 2 áhafnir fyrir hverja keppni til að keppa til stiga.
Nýjasta fréttin og svo sannarlega óvænt tengist Subaru og Mitsubishi en liðstjóri Mitsubishi Ralliart, George Donaldson, hefur ákveðið að ganga til liðs við Prodrive / Subaru World Rally Team og tekur hann við starfi sem liðstjóri Subaru. Þetta kemur mjög á óvart þar sem George var ráðinn til Mitsubishi Ralliart í byrjun keppnistímabilsins í ár og hafði verið nefndur sem mögulegur eftirmaður Andrew Cowan, sem er núverandi stjórnarformaður Mitsubishi Ralliart.
George Donaldson býr yfir gríðarmikilli reynslu úr rallíbransanum bæði sem ökumaður og starfsmaður ýmissa verksmiðjuliða. Hann gekk til liðs við Toyota árið 1985 og gegndi þar ýmsum störfu þar til hann var ráðinn aðstoðarliðstjóri árið 1992. Hann var svo gerður að liðstjóra árið 1994 og undir stjórn hans sigraði Toyota heimsmeistarakeppni framleiðenda árið 1999 og er það hápunkturinn á ferli hans hingað til. Hann gekk svo til liðs við Mitsubishi Ralliart í byrjun keppnistímabilsins 2001. Hann hefur unnið með flestum af bestu WRC ökumönnunum og má þar nefna menn eins og Carlos Sainz, Didier Auriol, Freddy Loix, Juha Kankkunen, Bjorn Waldegaard, Markku Alen, Tommi Makinen og Marcus Gronholm.
John Spiller, sem var liðstjóri Subaru, hefur nú fengið nýtt starf sem Event Manager og tekur við stjórn Prodrive Live sem er stórt akstursþjálfunarverkefni á vegum Prodrive.