Eins og menn muna eflaust keypti GM 20% hlut í Fuji Heavey Industries framleiðanda Subaru fyrir nokkrum misserum. Bæði fyrirtækin þóttu sjá sér hag í þessum viðskiptum og horfði GM þar einkum til yfirgripsmikillar fjórhjóladrifsþekkingar Subaru en Subaru hafði aftur á móti hug á að komast inn í hið gríðarstóra og öfluga sölu- og dreifikerfi GM til að auka sölu á Subaru utan Japan. Menn hafa hingað til lítið orðið varir við afleiðingar þessara kaupa en nú fer að verða breyting á því.
Fyrst ber það að nefna concept bíl frá GM sem kynntur var í janúar á þessu ári og kallast hann Chevrolet Borrego. Bíllinn mæti flokka sem 2 dyra coupe jeppling en hann á að vera sambland af WRC rallíbíl og Baja rallíbíl. Bíllinn tekur 4 farþega í sæti en með örlitlum tilfæringum má breyta honum í 2 sæta pickup. Subaru leggur til fjórhjóladrifskerfi og 4 strokka 2500 cm3 túrbó boxervél en ekkert hefur heyrst um mögulegt afl vélarinnar.
Subaru hefur svo hafið sölu á Opel Zafira í Japan og hefur bíllinn fengið nafnið Subaru Traviq. GM hefur hingað til verið að selja 100-200 Zafira bíla á mánuði í Japan en Subaru telur sig hinsvegar getað selt í kringum 10.000-12.000 Traviq bíla á ári. Subaru Traviq fær nýjan undirvagn sem hentar Japönum betur og svo bætir Subaru loftflæði bílsins með því að bæta sérhönnuðum vindskeiðapakka við bílinn og fer CD loftmótstöðustuðullinn (CD = Coefficient of Drag) þá niður 0.30 sem verður að telja nokkuð gott. Subaru gerir einnig ýmsar breytingar á fjöðrunarkerfi bílsins til að hann henti Japönum betur. Subaru selur ódýrustu útgáfu Subaru Traviz fyrir 1.99 milljónir jena á meðan GM selur grunngerð Opel Zafira fyrir 2.89 milljónir jena.
Ekki er ólíklegt að samvinna sem þessi milli bílaframleiðenda sé það sem koma skuli í þessum bransa en víst er að GM hefur tekið þá stefnu að ganga til samstarfs við þá bílaframleiðendur sem eru leiðandi á sínu sviði í hönnun og framleiðslu á bílum. Má nefna nokkur dæmi um fyrirtæki sem GM er í samstarfi við:
Fiat (GM á 20% í Fiat og Fiat á 5.6% í GM) í framleiðslu á díeslvélum
Isuzu (GM á 49% í Isuzu) í framleiðslu á díeslvélum
Saab í framleiðslu á túrbóvélum (GM á Saab)
Subaru í þróun og framleiðslu á fjórhjóladrifskerfum og samtengingu þeirra við bremsubúnað og gírkassa (GM á 20% í Subaru)
Suzuki í framleiðslu á litlum og sparneytnum bensínvélum og smábílnum (GM á 20% í Suzuki)
GM á þar að auki allt hlutafé í Holden, Adam Opel AG og Vauxhall Motors Limited.
Með þessari samvinnu getur GM sparað sér stórfé í eigin rannsóknar og þróunarvinnu en spurningin er hvort að sú hagræðing skili sér í betri og ódýrari bílum til neytenda eða meiri arði til hluthafa í GM.