Um sumarið 1964 kom bíllinn fyrst fyrir almenningssjónir og þá undir nafninu Ford GT40 og hófu nokkrir slíkir bílar í fyrsta sinn keppni í Le Mans kappakstrinum. Þessir fyrstu bílar reyndust greinilega nógu hraðskreiðir fyrir keppnina enda þótt þeir ættu við ýmsa byrjunarerfiðleika að stríða í sínum fyrsta kappakstri. Skömmu eftir keppnina var Carroll Shelby ráðinn til Ford til að endurskipuleggja og hafa yfirumsjón með keppni Ford í Le Mans kappakstrinum. Meðal þess sem Shelby lét strax gera var að láta setja hina þrautreyndu sjö lítra 427 vél í bílinn, sem síðar varð þekkt undir nafninu Mark II GT40.
Í febrúar 1965 kepptu ökumennirnir Ken Miles og Lloyd Ruby Ford GT40 til sigurs í fyrsta sinn sem bíllinn háði keppni í hinum fræga tvö þúsund kílómetra kappakstri í Daytona í Bandaríkjunum. Sló bíllinn nær hvert einasta hraðamet sem sett hafði verið í brautinni. Ekki lét árangurinn heldur á sér standa á sama tíma að ári því þá tók Ford GT40 undir stjórn sömu ökumanna þátt í tveggja sólarhringa hraðakstri á Daytona og setti bíllinn þrjá hröðustu hringina; hraðasta, næsthraðasta og þriðja hraðasta. Endurtók sagan sig skömmu síðar í 12 tíma keppni á brautinni í Sebring í Bandaríkjunum. Þessi geysi vel heppnaði bíll náði ennfremur þeim undraverða árangri í júní 1966, á aðeins sínu þriðja keppnistímabili, að vinna svokallað „triple crown“, það er fyrstu, önnur og þriðju verðlaun í tveggja sólarhringa keppni í Le Mans kappakstrinum.
Ný útgáfa lítur dagsins ljós
Í upphafi árs 1967 var hafist handa við að tilraunaaka nýrri útgáfu þessa magnaða kappakstursbíls. Hlaut nýi bíllinn nafnið GT40 Mark IV sem sannaði strax í upphafi og með eftirtektarverðum hætti að vera enginn eftirbátur fyrirrennarans. Í sinni fyrstu keppni, í mars 1967, settu ökumennirnir Bruce McLaren og Mario Andretti bæði hraða- og vegalengdarmet í brautinni í Sebring og tveimur mánuðum síðar óku Dan Gurney og A.J. Foyt GT-bílnum til sigurs í Le Mans keppninni þar sem bíllinn háði spennandi einvígi við Ferrari. Ári síðar voru þær breytingar gerðar á keppnisreglum Le Mans að vélarstærð var takmörkuð við fimm lítra. Það breytti engu um árangur Ford GT því hann kom, sá og sigraði Le Mans kappaksturinn bæði 1968 og 1969 en kappakstrinn 1969 er af mörgum talinn sá mest spennandi í sögu Le Mans keppninnar því GT-bíllinn sigraði með aðeins tveggja sekúndna forskoti eftir stöðugan akstur í tvo sólarhringa.
Nýtt æviskeið hefst
Í upphafi árs 2001 komu aðalstjórnendur Ford saman til fundar í því skyni að marka línur um hvernig skyldi minnast komandi 100 ára afmælis Ford. Sú byltingarkennda og kjarkmikla hugmynd kom fram að gera það með því að taka sögufrægasta kappakstursbíl fyrirtækisins, Ford GT, endurhanna hann og bjóða síðan á almennum markaði. Það var ekki ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur. Skömmu síðar var Camilo Pardo ráðinn sem yfirmaður hönnunarteymis Ford sem fékk það hlutverk að koma fram með nýjan Ford GT40. Teymið vann hratt og örugglega og tæplega ári síðar, árið 2002, svipti aðalforstjóri og stjórnarformaður Ford, Bill Ford Jr, ásamt aðstoðarframkvæmdastjóra hönnunardeildar Ford, J. Mays, hulunni af nýjum hugmyndabíl Ford GT á alþjóðlegu bílasýningunni í Detroit.
Ford GT endurspeglar stolt framleiðandans
Það er ekki skrýtið þótt Ford hafi valið GT sem tákngerving fyrir það stolt fyrirtækisins að hafa komið „heiminum undir stýri“ í tilefni 100 ára afmælis síns. Strax í upphafi var markmiðið með verkefninu að nýr Ford GT skyldi búa yfir þremur megineinkennum: Komast hratt, búa yfir óaðfinnanlegum aksturseiginleikum og vera flottur. Til að vera trúr minningu forverans var líka ljóst að hinn nýi ofursportbíll yrði að endurspegla algerlega það sem Ford stendur fyrir. Hann varð að vera óaðfinnanlegur.
Nýr hugmyndabíll kynntur
Hugmyndabíllinn, sem kynntur var árið 2002 er geysilega flottur og mikil áskorun. En það er eitt að kynna hugmynd og annað að hrinda henni í framkvæmd. Framleiðslan er jafnvel enn mikilfenglegri áskorun. Það varð strax ljóst á viðbrögðum gesta á sýningunni í Detroit að það hafði tekist, slík voru fagnaðarlætin. Og nú skyldi hefjast handa og vinna hratt.
Við hönnunina, þar sem notuð var fullkomnasta tölvutækni sem völ var á, var bíllinn skapaður á aðeins þremur mánuðum þótt að meðaltali sé varið um níu mánuðum til slíkrar vinnu. Við smíði frumgerða var byggt á 90% færri frumgerðum en venjulega.
Vegna óbilandi eldmóðs hönnunarteymisins og með hjálp fullkominnar tækni tókst þeim hjá Ford að gera það ómögulega mögulegt. Henry Ford II hefði orðið stoltur af starfsfólki sínu hefði hann upplifað þá vinnu sem lögð var í sölurnar og séð afraksturinn.
Lifandi goðsögn
Ford GT er hin fullkomna lifandi goðsögn því saga hans er þrungin frægðarljóma og ríkri arfleifð. Og það sást á gestum sýningarinnar í Detroit að þeir upplifðu sterk hughrif er bíllinn birtist á ný, gljáandi með sínum sterku og lágu útlínum og að sjálfsögðu einkennismerki sínu alla tíð: tveimur sportröndum sem liggja samhliða eftir ofanverðum endilöngum bílnum. Ford GT var endurfæddur.
Þótt útlit bílsins sé nauðalíkt hinum sögufræga kappakstursbíl má líka segja að þar ljúki samanburðinum og þótt báðir beri GT nafnið deila þeir nánast engu öðru en því. Nýi bíllinn hefur að sjálfsögðu sterka tilvísun til arfleifðar sinnar. Til að mynda ná hurðir bílsins enn inn á þakhlutann og eru að nokkru leyti sameiginlegar toppnum, sem er einmitt í samræmi við hefðina. Einnig eru sem fyrr áberandi loftinntök á báðum hliðum bílsins sem veita köldu lofti að aftanverðri 5,4 l 550 hestafla V8 vélinni. Og sumt í innréttingu nýja GT bílsins minnir á forverann. En nýi bíllinn er tæpum 46 cm lengri en fyrirrennarinn og rúmum 10 cm hærri. Hann kemur hlaðinn öllu því besta sem Ford hefur á að skipa í tækni og eiginleikum - enda ætlaður til sölu á almennum markaði. Því mun hann sem fyrr búa yfir sömu getu og áður til að slá öllum öðrum ofursportbílum við þegar kemur að snerpu og þoli. Á sínum tíma stöðvaði Ford GT áralanga sigurgöngu Ferrari í hraðaksturskeppnum í Le Mans, Daytona og víðar. Nú færast vígstöðvarnar til. Ford GT er kominn og tekinn við veldissprotanum af Ferrari sem mesti ofursportbíll allra tíma sem seldur er á almennum markaði. Ferrari er á ný fallinn í skuggann.
Álið áberandi
Hinn nýi Ford GT skartar miklum og einstökum tækninýjungum enda lögðu hönnuðir Ford allt í sölurnar þegar þeim var falið að endurhanna nýjan Ford GT. Af mörgu er að taka þegar kemur að slíkri upptalningu. Meðal annars má nefna að yfirbyggingin er byggð úr styrktu áli og hlífin yfir vélinni er auk þess klædd sérstökum kolefnum.
Hverjum dropa náð úr tankinum
Þá er eldsneytistankurinn sérstaklega hannaður með það í huga að innihaldið skvettist ekki til eins og raunin er í mörgum bíltegundum. Tankurinn er ennfremur sérstakur að því leyti að eldsneytisdælan nær alltaf að fæða kerfið til fulls án tillits til þess hversu lítið er í tankinum, t.d. í bröttum brekkum eða hliðarhalla. Einnig er eldsneytisstúturinn, þar sem dælt er á bílinn, loklaus og minnir þetta um margt á þann búnað sem notaður er í keppnisbílunum í Formula 1.
Hurðar eru eitt stykki
Algengast er við bílhönnun að hurðar séu samsettar úr nokkrum hlutum, svo sem innra byrði, ytra byrði, styrktarbitum, rúðukarmi og svo framvegis, en við hönnun hins nýja Ford GT er þessu þveröfugt farið; hurðar eru mótaðar í eitt heildarstykki, sem er mjög sérstakt þegar skoðað er nánar.
19 að aftan – 18 að framan
Þegar kolefnisklædda vélarhlífin hefur verið opnuð blasir við sjálft orkuverið; hin 5,4 l 550 hestafla V8 álvél, líka sjálfstæði fjöðrunarbúnaðurinn, sem einnig er úr áli, og að síðustu sjálf afturdekkin. Það er sérstök upplifun að sjá að hjólin að framan og aftan eru ekki að sömu stærð. Ford GT er nefnilega á 19 tommu dekkjum að aftan og 18 að framan. Þessi útfærsla skapar vissulega sérstaka sýn á bílinn ásamt sportröndunum margfrægu þegar heildarásýnd hans er skoðuð.
Orkuver og skipting
Orkuverið sjálft, hin geysiöfluga 5,4 l vél Ford GT, er að öllu leyti samsett úr álhlutum og knúið áfram með aðstoð reimaforþjöppu, svokölluðum „blower“. Fjórir ventlar eru við hvern strokk og tveir innsprautunarspíssar. Sveifarás, stimplar og stimpilstangir eru sérstaklega styrkt. Útkoman er vél sem skilar 550 hestöflum, 678 Nm togi og 322 kílómetra hámarkshraða á klukkustund.
gírkassi og hemlakerfi
Við vélina er tengdur sex gíra Ricardo gírkassi með tregðulæsingu. Ford GT er búinn hinu fræga Brembo hemlakerfi þar sem fjórir stimplar eru við hvert hjól sem klemmast um gegnumboraða og kælda bremsudiska bílsins. Hjóldælur eru heilsteyptar með fjórum stimplum.
Stílhreint mælaborð
Þótt ytri ásýnd Ford GT veki sterk hughrif er ekki síður athyglisvert að skoða innra rýmið. Þar eru meðal annars sannkölluð sportbílaleðursætin áberandi sem meðal annars eru með öflugri loftkælingu til að ökumanni líði ávallt sem allra best við aksturinn. Hönnun mælaborðsins er nýstárleg en ber engu að síður sterk einkenni frá forveranum. Stílhreinir mælar með stórum og skýrum hraðamæli eru aðaleinkennin. Einnig eiga margir stjórnhnappar mælaborðsins það sameiginlegt að vera annað hvort snúið eða dregnir út við ræsingu búnaðar eins og tíðkaðist í „gamla daga“ og er mjög skemmtilegt að sjá aftur í nýjum bíl.
Spennandi upplifun í Brimborg
Það væri auðvelt að halda lengi áfram með upptalningu á öllum þeim spennandi búnaði sem prýðir „Brimborgar GT-inn“ og bílaáhugafólki gefst brátt tækifæri til að virða fyrir sér í sýningarsalnum við Bíldshöfða. Eins og áður hefur komið fram er GT Brimborgar búinn öllum þeim hugsanlega aukabúnaði sem unnt er að fá með bílnum svo sem sérhönnuðum léttmálmsfelgum og sannkölluðum ofur hljómflutningstækjum. Það skýrir meðal annars verðið á þessum ótrúlega bíl sem er langt yfir 20 milljónum króna. Þetta er að sjálfsögðu enginn venjulegur sporbíll.
Fylgstu með hér á vefnum
Fylgstu með hér á vefnum og komdu svo í heimsókn þegar nýi sérpantaði Ford GT ofursportbíll Brimborgar mætir á svæðið.
tekið af http://www.ford.is/?pageid=1414&preview=true
Aaaa