Hvað varð um smábílana?
Ef við skoðum nýjustu “smábílana” komumst við að því að þeir hafa farið mikið stækkandi síðustu árin. Þeir hafa nær allir lengst, breikkað og það sem mikilvægast er: hækkað og þyngst.
Með tilkomu bíla eins og Renault Scenic hafa há þök og fleiri eiginleikar fjölnotabíla smitast yfir í venjulega litla fólksbíla. Skoðið bara nýju Peugeot 307, Honda Civic, VW Polo og Ford Fiesta. Nýjasti VW Polo er orðinn stærri en upprunalegi VW Golf! Lengdarmunurinn á Ford Focus og nýju kynslóðinni af Ford Fiesta er ekki nema 25,5cm.
Kosturinn við þessa þróun er fyrst og fremst aukið pláss í bílunum og munar nú oft um í minnstu bílunum. En oft fylgir böggull skammrifi. Þessir nýju bílar eru þyngri en nokkru sinni fyrr og þar sem þeir eru hærri er hætta á að þyngdarpunkturinn færist líka upp á við. Bæði atriðin sem standa góðum aksturseiginleikum fyrir þrifum ásamt því að þyngri bílar eyða meira bensíni og eru verri fyrir umhverfið. Reyndar hafa mörg fyrirtæki bætt minni bílum, svokölluðum “borgarbílum”, inn í úrval sitt en þessir bílar eru flestir hátt byggðir til að bjóða upp á nýtanlegt pláss í litlum bílum.
Ég er því farinn að hafa verulegar áhyggjur af því að alvöru GTi bílar séu að deyja út samhliða þessari þróun. Það er vonandi að það gerist ekki eða allavega að eitthvað komi í staðinn fyrir þá sem vilja skemmtilega bíla en hafa ekki mikinn pening.
Eitt fyrirtæki hefur þó séð leið til að sætta bæði sjónarmiðin. Fiat er að undirbúa arftaka fyrir Bravo/Brava er nefnist Stilo. Munu þriggja og fimm dyra bílarnir vera nokkuð ólíkir þar sem að fimm dyra bíllinn verður með háu þaki eins og nú er farið að tíðkast en þriggja dyra bíllinn verður lægri og sportlegri að sjá. Það er víst að ég bíð spenntur eftir frumsýningu á Fiat Stilo.