
Sem dæmi mun 4. kynslóð VW Polo verða kynnt til sögunnar en bíllinn hefur verið endurhannaður frá toppi til táar. Þar vekja ný framljós sérstaka athygli en þau eru 4 talsins og öll kringlótt. Núverandi útgáfa af Polo er einungis búin að vera á markaðnum í rúm 2 ár og vekur það því talsverða furðu að strax skuli vera komin ný útgáfa. Nýr VW Polo kemur til sölu í Evrópu næsta haust.
Fjarskyldur ættingi VW verður einnig frumsýndur í Frankfurt en það er bíll sem ber nafnið Skoda Superb og er byggður á breyttum undirvagni VW Passat. Superb nafnið er ekki ókunnugt í Skodaverksmiðjunum en fyrsti Superb bíllinn var framleiddur á árunum 1934 - 1947 með ýmsum vélarstærðum og vekur þar helst athygli 8 strokka 4000 cm3 vél sem á að hafa skilað heilum 95 hestöflum.
Bíllinn mun verða flokkaður í D Class og eru utanmálin á honum 4800 X 1700 X 1400 mm (lengd, breidd, hæð). Hjólhaf bílsins er 2800 mm sem mun vera það mesta í bílum í D Class og tryggir það að bíllinn er mjög rúmgóður innandyra.
3 bensínvélar verða í boði í bílnum og eru tölulegar staðreyndir um þær eftirfarandi:
2000 cm3 sem skilar 115 hö
1800 cm3, 20V túrbóvél sem skilar 150 hö
2800 cm3, V-6 sem skilar 193 hö
Díselaðdáendur verða ekki fyrir vonbrigðum en þeir geta valið á milli 2 umhverfisvænna og eyðslugrannra díselvéla.
Sagan segir að Skoda hafi áhuga á að setja 8 strokka vél í bílinn eins og gert var með gamla Superb bílinn. Skoda með 8 strokka vél hefði þótt góður brandari fyrir nokkrum árum en í dag þykir þetta ekki vera svo fjarlægur draumur.
Ekki hefur enn komið fram hvenær bíllinn verður settur í framleiðslu en Skoda stefnir að að hann verði verðlagður svipað og Ford Mondeo.