Ég hef tekið eftir því að nokkrir hérna hafa skrifað um bílana sína, en þar sem ég er bara 15 ára hef ég ekki bílpróf og á þar af leiðandi ekki bíl, og bílarnir sem mamma og pabbi eiga eru ekki þess virði að skrifa um, pínulítil súkka og Ford skutbíll, en ég ætla að skrifa um mjög fallegan og MJÖG þægilegan bíl sem afi minn og amma eiga, Renault 25.
Ég hvet ykkur öll til að skrifa um bílana ykkar eða bíla sem þið þekkið, það er svo gaman að lesa greinar hérna :)
Afi minn á bíl sem er af gerðinni Renault 25, man ekki alveg árgerðina, annað hvort 1987 eða 1988. Þó að ég sé ekki hrifinn af svona gömlum bílum, þá bara elska ég þennan bíl, hann er alveg eins og nýr og mjög vel með farinn.
Afi átti umboðið fyrir Renault og BMW, sem hét Kristinn Guðnason, alveg til 1988, og flutti bílinn sinn inn með því. Þess má geta að langafi minn, Kristinn Guðnason, stofnaði það og var fyrsti innflytjandi BMW á Íslandi, og annar innflytjandi Renault.
Bíllinn er með miklum aukabúnaði, allaveganna miðað við árgerð, enda var hann markaðssettur sem lúxusbíl.. Í bílnum er til dæmis aksturstölva, leðuráklæði, rafdrifnar rúður, og síðast en ekki síst, talkubbur.
Ég gæti ekki skrifað þessa grein án þess að minnast á þann skemtilega fídus sem talkubburinn er. Bíllinn semsagt segir til ef eitthvað er að, til dæmis að vélinni, ef hurðum er ekki lokað þegar hann er settur í gang, ef hann er bensínlaus og örugglega er ég að gleyma einhverju. Þetta var fyrsti bíllinn með þessum fídus sem var fluttur inn til landsins, og þeir sem keyrðu hann frá höfninni og upp í umboð, brá nokkuð þegar þeir heyrðu fyrst í honum.
Ég gleymi ekki þegar ég heyrði bílinn tala í fyrsta sinn, þá var ég 10 ára og á leiðinni norður á strandir í brúðkaup hjá systur minni, og ég og litla systir mín þurftum að vera í ömmu og afa bíl því mamma og pabbi þurftu að koma með ýmislegt dót. En allaveganna, bíllinn sagði eitthvað, ég man ekki alveg hvað og okkur brá svolítið,, því við höfðum aldrei heyrt bíl tala áður. Það var mjög skemmtilegt móment :).
Síðan hef ég heyrt bílinn tala nokkrum sinnum, alltaf jafn skemmtilegt, og mér finnst synd að það séu ekki margir bílar í dag með þennan fídus, því hann er stórsniðugur.
Að utan er bíllin mjög flottur, glansandi og bara alveg eins og nýr. Hann er fallega dökkbrúnn að lit, og með krómuðum hurðaopnurum og ýmsu öðru.
Mér finnst Renault merkið framan á honum vera flottara en þau eru í dag, þar sem það er með fallegum línum greypt í það, annað en nýja, slétta, tilbreytingalausa Renault merkið.
Númerið á honum er líka mjög flott, svona svart, með gamla laginu, og talan er falleg á eftir R-inu. Ég veit að þða má ekki birta númer hérna, en númerið er R *10, alveg einstakt þar sem mjög flott var að vera með 3 tölustafa R númer.
(Myndin er ekki af bílnum sjálfum, en hann er alveg eins, nema brúnn).
Inni í bílnum er svo æðislegt að vera, þessi leðursæti eru einhver þægilegustu bílsæti sem ég hef setist í, þau eru svoooooo mjúk, og ég hef til dæmis setist upp í nýja BMW og aðra lúxusbíla, meira að segja sendiherrabíl Íslands í London. Ég hélt að þetta væri bara út af aldri bílsins, að þetta væri eðlileg slit, en pabbi og afi segja að svona hafi þetta verið frá upphafi.
Annars er bíllinn allur leðurklæddur að innan, með fallegu ljósbrúnu leðri sem hefur þann kost að það hitnar ekki í sól eins og svarta leðrið, og er miklu flottara!
Mér finnst leiðinlegt að sjá ekki fleiri svona bíla á íslenskum götum, því þeir eru fallegir og þægilegir, en kannski var fólk á þessum tíma ekki að leita í Renault þegar það vildi lúxusbíla. Þess má geta að afa bíll er eini Renault 25 sem ég hef séð á Íslandi, en ég sá reyndar einn í London um daginn, bara ekki jafnfallegan.
Ég veit ekki hvað ég á að skrifa meira um bílinn, þannig að ég segi þetta komið gott hér, og hvet ykkur til að senda inn greinar og virkja þetta áhugamál meira :D.