Ég var í fjölda ára félagi í FÍB. Fyrir um tveimur árum síðan hætti ég að borga félagsgjöldin því mér fannst félagið gera voða lítið, og að peningum mínum væri betur varið í eitthvað annað. Nú er ég sáttari en nokkru sinni við þá ákvörðun. Ástæða þess er yfirlýsingar talsmanns þeirra og fréttatilkynning sem þeir sendu út vegna mótmæla atvinnubílstjóra og 4x4 klúbbsins.
Samkvæmt öllum yfirlýsingum frá þeim er skipulögðu mótmælin, og mótmælaskjali sem afhent var fjármálaráðherra þá er ekki verið að mótmæla kerfisbreytingunni heldur hve gjaldið er hátt.
Mönnum svíður að í stað þess að dísellítrinn verði um 10% ódýrari eins og lagt var upp með þegar frumvarpið var fyrst lagt fram (vörugjald 35 kr) þá var vörugjaldið hækkað í 45 kr, og dísellíterinn því ekki eins hagkvæmur og upphaflega stóð til.
Upphaflega frumvarpið miðaði við nágrannalönd okkar en í meðförum þingsins breyttist það til hins verra.
Fjármálaráðherra er sem betur fer búinn að lagfæra þessa villu um 4-5 krónur en betur má ef duga skal.
En svo við snúum okkur aftur að meginmálinu, það er yfirlýsing FÍB.
Í henni er m.a. þetta að finna:
“Í tilefni mótmæla sem fjögur félög hafa efnt til vegna breytinga á þungaskatti hefur Félag íslenskra bifreiðaeigenda ítrekað að félagið styðji breytinguna. Félögin fjögur séu á móti því að í stað þungaskatts á dísilbíla komi olíugjald á dísilolíu en FÍB taki hins vegar heils hugar á móti breytingunum og finnist núverandi kerfi ósanngjart og úrelt. Sú ósanngirni sé í stuttu máli þannig að sá sem eigi dísiljeppa og aki yfir 20 þúsund kílómetra á ári taki engan þátt í kostnaði við vegina þá kílómetra sem hann ekur umfram þessi 20 þúsund. Félagið segist samt skilja að einhverjir vilji áfram getað keyrt frítt á vegum landsins og látið eigendur bensínbíla borga fyrir þá, en segir það um leið ekki vera stórmannlegt. Félögin fjögur eru 4x4, Félag hópferðaleyfishafa, Frami - stéttarfélag leigubifreiðastjóra og bifreiðastjórafélagið Átak”
FÍB kemur semsagt með yfirlýsingar um þessi mótmæli án þessa að kynna sér um hvað þau snúast.
Þeir gera mótmælendum upp þá skoðun að þeir vilji “keyra frítt” á vegunum áfram meðan að mótmælin snerust ekki um kerfisbreytinguna heldur hve dropinn á að vera dýr.
Nú undir kvöld hefur FÍB breytt yfirlýsingunni á heimasíðu sinni en eru engu að síður með óskiljanlegar aðdróttanir.
Ég er allavegana feginn að hafa hætt að borga í þetta félag.
JHG