Á bílasýningunni í höllinni varð ég ástfanginn fyrir alvöru. Einhver hafði tekið 1970 módel af Porsche 911 og breytt honum í eftirlíkingu af 911 Carrera RS. Það hafði nú engin fyrir því að taka þetta fram á sýningunni en þar sem að 2.7 RS var aðeins framleiddur 1972-1973 gat ég getið mér til um þetta.
Engu að síður var þetta glæsileg bifreið sem ég endaði með að skoða aftur og aftur. Þetta var bíllinn sem í mínum huga sýndi hvernig Sportbíll á að vera. Þannig varð ég gripinn löngun til að skrifa grein um einn magnaðasta Porsche frá upphafi: 911 Carrera 2.7 RS.
Með tilkomu 2.7 RS hafði fyrsti “ofur” Porsche-inn orðið til. RS stendur reyndar fyrir Renn Sport og nú mega þýskugúrúarnir koma mér til hjálpar. Ástæðan fyrir tilkomu hans var sú að Porsche þurfti að “homologate” nýja Porsche fyrir kappakstur og þurftu þeir því að byggja a.m.k. 500 götubíla sem uppfyltu viss skilyrði. Kappakstursbíllinn sem um var að ræða varð svo 2.8 RSR sem fór sigurför árið 1973.
Til að búa í haginn fyrir kappakstursbílinn var ýmislegt gert við 2.7 RS bílinn. Porsche menn beyttu brögðum til að stækka 2,4 lítra 6 strokka boxer vélina sína í 2,7l en náðu þá úr henni 210 hö við 6300 rpm. Bíllin fór í öfluga megrun, þynnra stál notað ásamt sérstaklega þunnu gleri í gluggum og innréttingar snauðar.
Þyngdin náðist með þessu móti í 960-975 kg sem er prýðilegt fyrir bíl sem hefur 210 hö enda var hann í kringum 5,7 sek. í hundraðið. Ekki bara þokkalegt heldur frábært árið 1972!
Hljóðið frá vélinni þykir hreinasta tónlist og líklegast enginn annar Porsche sem slær því við nema 2.8 RSR sem skyggir þar á með sín 300 hö. RSR bíllinn var einungis smíðaður í 55 eintökum og eru a.m.k. einhverjir þeirra “götulöglegir”. Porsche smíðaði hinsvegar miklu fleiri en 500 RS bíla þegar að kom í ljós hve mikil eftirspurn var eftir þeim. Allt í allt var framleiðslan 1580 bílar að 2.8 RSR meðtöldum en þó voru þónokkrir 2.7 RS bílarnir með fullbúnum innréttingum.
Þessi fyrsti RS bíll er talinn af mörgum skemmtilegasti akstursbíll Porsche. Augljóslega er hann hrár en setur ökumanninn líka í snertingu við aksturinn og götuna. Þetta eru heldur ekki auðveldir bílar í meðhöndlun. Það sem heillar er sú staðreynd að með hæfni er hægt að temja bílinn og hreinlega fá hann til að fljúga.
Það væri bara óskandi að Porsche myndi gera bíla í þessum anda í dag…