Þegar Skoda lýsir nýjasta bílnum sínum sem “Skoda's fastest production car” veldur það nú ekki miklu fjaðrafoki. En með 180ha vél og uppgefið verð í Bretlandi sem er aðeins 15.000 pund ættu einhverjir að ranka við sér.
Bíllinn sem ræðir um er Skoda Octavia RS, frekar heimilislegt nafn fyrir utan “RS” viðbótina. Það er hinsvegar lítið heimilislegt við hann þennan nema Skoda merkið. Undir húddinu er kunnuleg vél frá VW, fjögurra strokka, 20 ventla, 1,8l með forþjöppu og skilar rétt eins og grunngerðin af Audi TT litlum 180 hö. Miðað við þá tölu eru tölurnar ekkert ógurlegar á blaði en allir aksturseiginleikar eru fínpússaðir og tölurnar ku líka vera vel í hógværari kanntinum. Uppgefinn tími 0-100 km er t.d. sagður af Skoda vera 7,9 sek.
Bíllinn kemur (a.m.k. í Bretlandi) hlaðinn aukabúnaði s.s. 17“ álfelgur, EBD (rafeindastýrð átaksdreifing á bremsum) og ASR (rafeindastýrður stöðugleikabúnaður) ásamt fleiru. Miðað við venjulega Skoda Octavia er líka búið að fikta allnokkuð í fjöðruninni m.a. lækka bílinn um 15 mm. Til að fólk rugli honum svo ekki við venjulegan Octavia þá er vindskeið á skottlokinu, ”sílsar“ á hliðunum og ný framsvunta. M.v. við verðið í Bretlandi ætti ekki að vera of mikil bjartsýni að ætla að Hekla gæti boðið þennan bíl hér heima á undir tveimur milljónum. Fyrir mitt leiti er fátt sem myndi slá þessum bíl við fyrir þann pening.
Og já, bremsu ”caliper"-arnir eru grænir… Grænir!?