Í raun er Porsche bifreiðaframleiðandinn búinn að framleiða aðeins tvær grunngerðir um nokkuð skeið. Þá er ég að sjálfsögðu að tala um 911 (módelnúmer 996) og Boxster (986). Það hefur hinsvegar legið í loftinu að Porsche vilji bjóða upp á fjölbreyttara úrval og er víst að það mun fjölga í fjölskyldunni.
Mínar tilfinningar í þessu máli eru blendnar því að næsta nýja tegund af Porsche verður jú jeppi. Hvaða skoðun sem fólk kann að hafa á því eru ástæðurnar augljósar. Þegar Porsche eigendur sem eru ekki sterkefnaðir (augljóslega efnaðir engu að síður) koma sér upp fjölskyldu hefur Porsche ekkert að bjóða. Þannig að þegar svo er í pottinn búið fær sportarinn að fjúka og líklegast er að í staðinn komi s.k. SUV eða Sports Utility Vehicle sem er ekkert annað en jeppi með flottara nafni. Allar líkur eru til að seinna meir fái heimilisfaðirinn sér Porsche sportbíl til að svala gráa fiðringnum en Porsche vill augljóslega ekki missa viðskiptin á meðan.
Í sem styðstu máli mun Porsche jeppinn koma á markað 2002 og heita Cayenne. Porsche er á samstarfi við Volkswagen við þessa framkvæmd, en VW mun koma á markaðinn með sinn eigin jeppa sem verður byggður á sama grunni en ku verða gjörólíkur í útliti. Það sem er mér til huggunar í þessu jeppaævintýri er að undir húddinu má finna V8 mótor sem mun koma við sögu seinna í greininni.
Þegar Cayenne kemur á markað mun Porsche bjóða upp á þrjár grunngerðir. Ýmsar yfirlýsingar benda hinsvegar til þess að Porsche vilji bjóða upp á fleiri gerðir og hefur borið á góma að áhugi sé fyrir því að fjórar mismunandi gerðir verði í boði. Bíllinn sem við munum mögulega fá að sjá næst á eftir Cayenne er Porsche Boxster í lokaðri (Coupe) útfærslu. Þetta verðut vart kallað ný grunngerð en ýmislegt bendir til að þetta verði mikilvægur bíll engu að síður. Eins og mál standa í dag eru vissar óánægjuraddir með þróunina sem varð þegar hinn síðasti “sanni” 911 (993) fékk að víkja fyrir nýja 911 (996) og flata sex strokka vélin varð vatnskæld. Við þetta mýktist 911 bíllinn nokkuð og breyttist í áherslum, varð meiri Grand Tourer. Þótt óneitanlega sé enn um frábært ökutæki að ræða voru gömlu bílarnir hrárri og harðari, jafnvel erfiðari sem mörgum þótti stór hluti sjarmans við 911. Ennfremur hafa sérútgáfur eins og GT3 ekki verið eins hráar og fyrri bílar sem báru þá oft Club Sport eða RS (Renn Sport) titlana.
Talið er að þeir sem sakni “alvöru” 911 fái mögulega eitthvað fyrir sinn snúð með tilkomu Boxster “Coupe”. Líklegt þykir að hann fái enn stærri og kraftmeiri vélar en “roadster” útfærslurnar og er því hætta á að hann ógni 911 í afköstum, þó 911 fái reyndar andlitslyftingu bráðlega ásamt aflaukningu í kringum 15 hö. Boxster Coupe verður mjög líklega léttari bíll og einnig nokkru ódýrari en 911. Þarna gæti verið kominn bíllinn sem “harðhausarnir” meðal Porsche aðdáendanna hafa beðið eftir. Þess má geta að ég reyndi mikið að komast yfir myndir á netinu af Boxster Coupe áður en ég lagði í þessa grein en ekkert gekk. Ég er búinn að sjá tvær myndir annarsvegar í Auto Motor und Sport og hinsvegar Autocar. Um er að ræða sömu myndina sem hefur verið breytt í tölvu á mismunandi hátt. Þótt gallar væru í útlitinu lofuðu myndirnar góðu. Stór afturrúða með miklum halla setur svip sinn á bílinn sem verður með “fastback” sniði og mun hönnunin skírskota í gamla Porsche kappakstursbíla rétt eins upprunalegi Boxsterinn.
Það má því segja að Porsche hafi litið aftur um öxl eftir innblæstri og að vanda heppnast þeim það vel. Að kalla verður það líka gert í fjórða bílnum sem má vænta. Þegar Porsche-menn hafa látið í ljós að gerðirnar verði fjórar hefur verið þvertekið fyrir að Porsche bjóði upp á ódýrari gerð en Boxster. Þær hugmyndir sem ég hef frétt af má í raun kalla endurreisn 928 og munu einhverjir eflaust gleðjast. Vélin sem notuð er í Cayenne yrði þá grundvöllur í nýtt Porsche flaggskip með V8 mótorinn í bílnum framanverðum. Keppinautarnir eru engir aukvisar, heldur bílar á borð við Ferrari 550 Maranello og Aston Martin. Þarna færi Porsche inn á markað sem þeim hefur í raun aldrei gengið mjög vel á og verður því að vona að þeir reiði sig ekki um of á Porsche-merkið góða sem yrði á sínum stað á húddinu. Ég verð samt að játa það að vera spenntur yfir þessum nýju stefnum. 2+2 Grand Tourer Porsche með vélinu frammí og drifið að aftan gæti orðið verulega áhugaverður bíll. Af útlitsskyssum sem ég hef séð er yfir engu að kvarta. Bíllinn myndi verða með sterkan 911 ættarsvip en um leið ákaflega sérstakt yfirbragð. Það er kannski helst að sakna að meira væri vitnað í útlit 928.
Þess má líka geta að sumir Porsche aðdáendur hafa tekið þá bíla Porsche sem hafa vélina frammí fram yfir 911 hvað varðar aksturseiginleika. Nick Mason, trommari Pink Floyd, er þekktur bílamaður og eini bíllinn ættaður frá Stuttgart sem komst á topp 10 lista hans var 944 Turbo. Þann bíl telja sumir gefa lítið eftir gagnvart 911 Carrera í afköstum. 968 Club Sport hefur einnig þótt vera einn besti bíll fyrirtækisins hvað varðar aksturseiginleika og er ekki leiðum að líkjast. Nýr V8 Porsche yrði þó einna helst sambærilegur við 928 og væri ekki slæmt að feta í fótspor 928GTS svo lengi sem þau spor leiða ekki til óverðskuldaðrar gleymsku eins og raunin varð því miður með 928 línuna.