Argentíska rallinu, sem er jafnframt 5. umferðin í Heimsmeistarakeppninni í rallakstri (WRC), lauk nú fyrr í kvöld. Úrslitin urðu á þann veg sem að margir gerðu ráð fyrir eftir að hafa fylgst með keppninni um helgina. Colin McRae á Ford varð í fyrsta sæti, Richard Burns á Subaru í öðru sæti og Carloz Sainz á Ford í þriðja sæti. Sigur McRae er honum kærkominn þar sem hann var stigalaus eftir fyrstu 4 keppnir ársins. Árangur Richard Burns hefur einnig verið rýr það sem af er ársins og koma stigin 6, sem hann fær fyrir 2. sætið, honum og Subaruliðinu vel. Árangur Carlozar Sainz er mjög athyglisverður þar sem að hann var mjög slæmur af bakverkjum alla helgina og ótrúlegt að hann skuli hafa náð að keyra rallbíl í heila 4 daga í þessu ástandi og ná á sama tíma þetta góðum árangri.
Keppni hófst á fimmtudagskvöld en þá voru keyrðar 2 sérleiðir á mjög athyglisverðri og stuttri braut. 2 bílarnar voru í brautinni í einu og kepptu þeir innbyrðis. Þessi braut var keyrð tvisvar sinnum og voru McRae og Sainz þar í sérflokki. Petter Solberg á Subaru stóð sig einnig vel og skilaði sér í 3. sæti
Föstudagurinn byrjaði með látum. McRae keyrði ótrúlega vel og náði um 30 sek forskoti á Burns en Burns tókst að saxa á það á 3 seinustu sérleiðum dagsins. Burns missti vökvastýri á sérleið 5 og afturbremsur hættu að virka á sérleið 6. Samt sem áður náði Burns besta tíma á sérleið 6 og voru menn að gantast með það að kannski væri lykillinn að árangri í rallakstri að keyra bara bremsulaus. Áhorfandi truflaði Makinen á sérleið 6 þar sem hann var í botn í 6. gír og skemmdi hann framenda og intercoolerinn talsvert í kjölfarið. Petter Solberg sneri bílnum á sérleið 6 og tapaði tíma á því en á meðan var Didier Auriol með vandræðum með grip að aftan. Harry Rovanpera hætti vegna bilunar í fjöðrunarkerfi. Kenneth Eriksson og Alister McRae sem báðir aka Hyundai lentu í því að það kviknaði í bílum þeirra á miðri sérleið. Eriksson hafði stuttu áður átt í miklu basli með pústkerfi og týnt amk helmingum af því og því varð eldur laus í afturenda bílsins. Hyundainn brann mjög vel en þeim tókst þó að slökkva eldinn og halda áfram keppni þó að fyrstu fréttir hefðu hermt að þeir hefðu orðið að hætta keppni í kjölfarið.
Staða í lok dagsins var McRae – Burns – Sainz – Makinen – Auriol – Gronholm.
Laugardaguinn var tekin með krafti og voru menn að setja góða tíma á flestum sérleiðum. Eins og áður voru McRae og Burns í hörkukeppni á flestum leiðum en Sainz fylgdi í humátt á eftir og var nokkuð öruggur í 3. sæti. Makinen var í vandræðum með drifbúnað að aftan í byrjun dags og keyrði lengi vel með 3WD. Solberg lenti í vandræðum á sérleið 12 þegar vatnsflaska í bílnum hans fór á ferðalag og festist hún að lokum á versta mögulega stað eða á milli bensíngjafar og bremsupedala. Solberg missti svo alla gíra nema 3. og 5. á sérleið 15 en náði þó 8. besta tíma. Vökvastýrið hjá Gronholm bilaði á sömu sérleið og tapaði hann næstum 2 mínútum á því. Báðir Skodabílarnir duttu út eftir að slökkvibíll, sem var á leiðinni að slökkva mikinn eld á bílastæði áhorfenda þar sem 20 bílar brunnu, valt og eyðilagði báða Skodana. Ökumenn Skoda sem báðir voru staddir í bílum sínum náðu að kasta sér út og sluppu ómeiddir en einn af yfirmönnum Skoda rallýliðsins rifbeinsbrotnaði í árekstrinum. Af 7 sérleiðum dagsins átti Burns 4 bestu tímana, McRae 2 og Makinen 1.
Staða í lok dagsins var McRae – Burns – Sainz – Solberg – Makinen – Gronholm.
McRae lagði upp með þá áætlun á sunnudeginum að halda fengnum hlut og verja stöðu sína. Að sama skapi ætlaði Burns að sækja á hann en ætlaði samt sem áður ekki að tefla á tvær hættur þar sem forystumaðurinn í heimsmeistarakeppninni var í 4 sæti en sjálfur lýsti Burns því yfir fyrir keppnina að hann yrði að ná fleiri stigum út úr keppninn heldur en Makinen. Sérleið 18 reyndist mörgum keppendum dýrkeypt. Solberg lenti í vandræðum með vökvastýrið og tapaði um hálfri mínútu og þar af leiðandi skaust Makinen framúr honum. Gronholm fór út af veginum í fyrstu beygju og grillaði kúplinguna í átökunum sem fylgdu því að koma bílnum aftur inn á veginn og því varð hann að hætta keppni. Delecour lenti í vandræðum með bensíngjöf og gírkassa og tapaði tæpri mínútu á því. Burns lenti ekki í vandræðum á þessari leið og náði besta tíma. Auriol skemmdi framfjöðrun á sérleið 20 og tapaði heilum 8 mínútum og hætti í kjölfarið. Eriksson tapaði framhjóli undan Hyundainum sínum og varð að hætta keppni á sömu sérleið og Delecour en hann var þá í 9. sæti.
Lokastaðan í argentíska rallinu:
1. Colin McRae á Ford
2. Richard Burns á Subaru
3. Carloz Sainz á Ford
4. Tommy Makinen á Mitsubishi
5. Petter Solberg á Subaru
6. Freddy Loix á Mitsubishi