Á undanförnum árum hefur allskonar eftirlitsbúnaður verið tekinn í notkun, sem er ætlaður til að vernda borgarana gagnvart sjálfum sér.
Við höfum sætt okkur við margar smá breytingar en yfir lengra tímabil þá er eftirlitið að verða meira og meira.
Hvað bílana varðar þá höfum við sloppið þokkalega hér á Íslandi en víða erlendis eru menn lengra komnir. Svo er spurningin hvar á að stoppa.
Ef við lítum almennt á málið þá sættum við okkur við öryggismyndavélar í bönkum, og fannst það alveg sjálfsagt. Síðan komu myndavélar við gatnamót til að taka þá skúrka sem aka gegn rauðu ljósi. Það þykir flestum af hinu góða. Sumum brá þegar myndavélum var komið upp í ákveðnum skólum til að fylgjast með nemendum, en menn sættust að lokum á þetta þar sem að tilgangurinn er góður (það má svo velta því fyrir sér hvað sagt yrði ef myndavélum yrði komið upp á vinnustöðum til að fylgjast með starfsfólki). Eitthvað hefur verið sett upp af hraðamyndavélum þó þær séu sjaldgæfar hér ennþá.
Þetta er svo sem allt gott og blessað en hvað ætli komi næst?
Þeir sem eru hvað harðastir í eftirlitinu vilja að komið verði fyrir búnaði í hverjum og einum bíl sem sendir stöðugt upplýsingar um hraða og staðsetningu. Með þessum búnaði er hægt að sekta lögbrjóta án þess að lögregla þurfi að verða vitni að brotinu. Viðhorfið er þá það, þú átt að fara eftir lögum, og ef þú gerir það ekki þá á að sekta þig. Í Bretlandi hefur af alvöru verið rætt um svona kerfi.
Nokkur fyrirtæki hér á landi (m.a. Pizzustaðir) hafa sett upp eftirlitsbúnað í sína bíla til að fylgjast með hvernig starfsmenn þeirra aka bílunum. Það má segja að það sé í sjálfu sér ekki slæmt þar sem að þeir eiga ökutækið og bera einhverja ábyrgð á því sem ökumaður þess gæti gert.
Einhverjar bílaleigur í Bandaríkjunum (og eflaust víðar) hafa tekið upp eftirlitskerfi á sömu forsendu. Þar er fylgst með hraða og staðsetningu ökutækis. Með því móti er hægt að fylgjast með hvort menn hafi keyrt löglega. Einnig nota bílaleigurnar búnaði til að fylgjast með hvert menn fara. Í sumum tilfellum þá átt þú að halda þig innan ríkisins (skilyrði í samning). Ef þú keyrir of hratt eða heldur þig ekki innan þess svæðis sem þú áttir að vera á þá sektar bílaleigan þig. Þeirra rök fyrir sektinni eru m.a. að með því að keyra óvarlega þá setjir þú bílaleiguna í meiri hættu á tjóni en ef þú værir á löglegum hraða.
Nú er Kalifornia að skoða kerfi til mengunarmælinga sem hefur verið notað í einhverjum ríkjum, m.a. Colorado. Kerfið byggist á því að nemar á ákveðnum stöðum geta mælt mengun bifreiða, og myndavélar fylgjast með númeri hennar. Í Colorado er kerfið notað til að umbuna ökumönnum og er þannig uppbyggt að ef þú ert innan marka þá þarft þú ekki að mæta í mengunarmælingu (og færð póst þar um). Kalifornia ætlar víst að nota kerfið á annan hátt, ef þú stenst ekki mælingu þá ert þú boðaður í tjékk.
Mér sínist því að hugmyndir um stóra bróður sem fylgist með öllum eigi eftir að verða að veruleika áður en langt um líður.
Nú er ég ekki að segja að ég sé mótfallinn öllu þessu eftirliti (er t.d. ánægður með myndavélar á ljósum) heldur vil ég koma smá umræðu af stað um þessi mál.
Eigum við að sætta okkur við að rafrænn eftirlitsbúnaður fylgist með hverju því sem við gerum bakvið stýri á bíl eða á að setja einhver takmörk?
JHG