Nýr bíll frá Subaru Ég veit ekki alveg hvort taka á eftirfarandi fréttum sem tilraun til apríl gabbs en um sl helgi fór að bera á orðrómi um að verið væri að hanna nýjan Subaru Coupe og er ég amk 2x búinn að fá senda lýsingu á þessum bíl í tölvupósti.

Samkvæmt þessum fréttum er Subaru að klára að hanna nýjan Subaru Coupe og á hann að fá nafnið Pulsar. Þessi bíll byggir að grunni til á Impreza undirvagni, margfrægu Subaru 4WD og 2000 cm3 vél en dýrasta útgáfan á að koma með 3000 cm3 twin turbo vél sem er sama vél og er í dýrustu útgáfunni að Outback en allir Outbackar sem eru á götunni hér á landi eru með 2500 cm3 vél. Japanska útgáfan á að vera um 280 hö en þarlendir bílar mega víst ekki skila meiri orku á pappírunum en menn vonast til að Evrópubúar fái eitthvað öflugri útgáfu. Einnig á að vera 6 gíra WRX STi gírkassi í honum, Brembo bremsukerfi, 19" álfelgur ásamt öðrum nauðsynlegum búnaði í svona öflugum bíl.

Bíllinn á að vera skráður fyrir ökumann og 3 farþega en miðað við myndina af bílnum þá leyfi ég mér að efast um að það verði mikið pláss fyrir farþega afturí eins og í öðrum Coupe bílum. Bíllinn verður ekki boðinn með kringlóttum Impreza 2001 framljósum sökum dræmra undirtekta við þeim og gæti það bent til þess að 2002 árgerðin af Impreza WRX verði með nýjum framljósabúnaði.

Bílnum er ætlað að keppa við lúxuscoupeútgáfur af Jaguar, BMW og Mercedes Benz og á verðið á bílnum að vera mun lægra heldur en á áðurtöldum bílum. Subaru er einnig að horfa á samkeppni við Nissan GTR Skyline en ég er nú ekki viss um að Nissanmenn verði mjög hressir með þetta Pulsar nafn því að eins og menn muna var Nissan Sunny seldur á sumum mörkuðum undir nafninu Pulsar.

Mér telst til að þetta sé þriðji coupe sportbíllinn sem Subaru setji á markað fari þessi bíll í framleiðslu, ef coupe útgáfur af Impreza eru undanskildar Sá fyrsti var XT Coupe sem er best að hafa sem fæst orð um en hinn var snilldarbíllinn SVX sem kom á markað árið 1992.

Að lokum er víst best að taka það fram að þessi risa spoiler sem er aftan á bílnum á eftir að minnka áður en hann fer í framleiðslu. Meðfylgjandi mynd af Subaru Pulsar er tölvuteiknuð.