Það er varla hægt að finna tvo ólíkari bíla sem keppa samt um sömu athygli en Honda Integra Type-R og Subaru Impreza Turbo. Eftir miklar vangaveltur á þessum síðum um Subaru Turbo og þriggja milljón króna draumabíla fór ég að velta fyrir mér hvort Integran væri “ódýri” real-world draumabíllin minn í dulargervi.
Það vita flestir hvernig Scooby Turbo er enda má segja að hann hafi sigrað heiminn og Ísland líka. Það lekur af honum rallfílingurinn og Subaru hefur heimsmeistaratitlana til að standa við orðsporið. Subaru eru að ég held einir um það að gera bíla með flatan (“boxer”) mótor undir húddinu. Í Turbonum drífur vélin fjórhjóladrifs kerfi og með 215 ólm hestöfl er lítið mál að láta fjórhjóladrifið vinna fyrir sér.
Integran er mun venjulegri í því að hafa þverstæða fjögurra strokka línuvél sem keyrir framhjólin. Þangað til maður skoðar vélbúnaðinn nánar þ.e., en hann er harla óvenjulegur. Vélin er ekki nema 1.8l en skilar 187 hestöflum við 8000 snúninga! Red-line við 8,5krpm og aflinu skilað í götuna í gegnum LSD mismunadrif sem ekki er oft að finna í framdrifnum bílum. Það má því segja að við séum að bera saman wannabe Touring Car við wannabe rallbíl. Það vita þó flestir að það er ekkert wannabe við umrædda bíla!
Ef við berum snöggt saman það sem að ofan er komið myndi ég segja að Subaruinn sigri í vélbúnaði þrátt fyrir óvenjulega hi-tech aðferðir Honda við að smíða framdrifsbíl. Ef við tökum fyrir útlitið þá finnst mér hvorugur vera fallegur, þó þeir stingi alls ekki í augu. Subaruinn er vígalegur með spoilerkittið og öll loftintökin en sleppur samt nett við að vera eins og einhver “boy racer”. Integran hefur að mínu mati vinninginn. Mjög laglegur vængur á skottlokið ásamt Type-R límmiðum á hliðinni er það eina sem er áberandi. Það sem hinsvegar kitlar mig eru felgurnar, sérstaklega hvítar á hvítum bíl, ekki margir sem komast upp með þannig. Rúsinan í pylsuendanum er þó rauðu Recaro stólarnir sem fullkomna Touring Car fílinginn. Svona á að gera þetta!
Hvað varðar afköst og getu eru fáir bílar sem skila jafn miklu fyrir krónuna. Þeir voru á líku verðir nýjir þegar þeir fengust, sitthvoru megin við 2.700þ. ef minni mitt bregst ekki. Subaruinn skilaði 0-60mph á ótrúlegum 5,4 sek. og Integran nær honum ekki þótt 6,2 teljist aldrei slakt. Þegar komið er í 0-100mph dregur þó enn meira í sundur, 14,6 sek fyrir Turbo og 17,9 fyrir Type-R. Bhp/ton er 177 í Impreza en 173 í Integra og hlýtur þá tog að skilja að því Subaruinn pumpar út 214 lb/ft á móti 131 hjá Hondunni og það er enginn smá munur.
Þótt að Scooby hljóti að teljast á heimsklassa þá var ósjaldan haft á orði að Integra hefði bestu aksturseiginleika sem væri að finna í framdrifnum bíl. Það hlýtur að vera eitthvað sem mann langar að kynnast, eða hvað?
Þrátt fyrir hve ólíkir þessir bílar eru er með ólíkindum hve nálægt þeir eru hvor öðrum í t.d. afköstum. Þeir höfða samt líklegast til ólíkra manna því Integra Type-R er í raun mjög hard-core í alla staði. Svona val er erfitt en Integran virðist vinna á hjá mér. Með þennan mótor þarf að hafa fyrir því að ná því besta út úr bílnum á meðan að Impreza er örugglega aðgengilegri. Í bæjarsnattinu er túrbo-togið örugglega að espa mann upp í Subarunum á meðan að Integran þyrfti, að ég held, smá spark til að taka við sér. Ekkert að því svosem. Mér finnst Integran veita það loforð að hún verðlauni færni á meðan að Imprezan lætur þig fá allt í hendurnar ef þú bara biður. Og auðvitað ef soundið í Integra Type-R er betra en í Prelude 2.2 VTi þá er það annað stig í minni bók fyrir Honda. Ennfremur er Hondan fágætari meðan að það virðist vera einn Impreza Turbo á hverri bílasölu. Svo eru það rauðu sætin og hvítu felgurnar og ég held að ég sé búinn að finna japanska hetjubílinn minn!
Meðan ég man, Integra Type-R er örugglega skemmtilegri í GT2 en Impreza, m.v. að báðir séu stock. Ætli það segji eitthvað…?
Hröðunartímar, hestöfl og slíkt tekið úr evo. Hafði ekkert í km/h því miður og hö eru í raun Bhp.