Fordómar gagnvart amerískum bílum. Fordómar gagnvart amerískum bílum.

Í fréttablaðinu í dag (8. maí) er bílablaðamaður blaðsins spurður um eldri ameríska bíla. Hann svarar m.a. á þá leið að besta leiðin til að læknast af því að langa í svoleiðis bíla sé að eignast þá. Þetta svar finnst mér fela í sér, að eftir að viðkomandi hafi prófað þá muni hann ekki hafa áhuga á þvílíku aftur.

Ég hef í gegnum árin reynt að leiðrétta allskonar þjóðsögur sem oftar en ekki hafa verið þvæla. Lífseigustu þjóðsögurnar eru líklegast:

1) Þeir eyða 40 lítrum á hundraði
2) Alltaf bilandi
3) Ómögulegir í beygjum

Mig langar að fjalla um þessa punkta.

*****

1) Eyðsla.

Ákveðnir amerískir bílar eyða vel. Um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar hófst mikið hestaflastríð á milli amerískra bílaframleiðenda og stóð það þangað til snemma á áttunda áratugnum. Undir það síðasta voru sumir bílar komnir með stórar vélar með gríðarlega háa þjöppu og sjóðandi heita knastása, lág drifhlutföll og hæsti gír var 1:1. Margir þessara bílar voru að krúsa á 3000 rpm á hundrað kílómetra hraða. Það þarf engan að undra að þessum bílum hafi þótt sopinn góður, en það skipti heldur ekki miklu máli, bensínið kostaði mjög lítið.

Svo kom olíukreppan og stórauknar kröfur um minni mengun. Eftir það urðu bílaframleiðendur að setja aðra hluti í forgang. Til að byrja með þá hrundi þjappan, og hestöflin fylgdu með. Pústkerfið var mjög þvingandi (fyrstu hvarfakútarnir sáu dagsins ljós) og vélar fengu loftdælur er dældu lofti í pústgreinina. Allt þetta kostaði afl. En framleiðendur aðlöguðust. Mjög fljótlega datt eyðslan niður, og aflið fór svo að aukast aftur en ekki á kostnað eldsneytiseyðslu.

Ég á 1986 módel af Transam sem ég hef notað mikið. Hann eyðir á bilinu 14-16 lítrum á hundraði. Bíllinn er með blöndungs V8 vél og yfirgírskiptingu. Ég fylli alltaf tankinn og skrái mælastöðu og lítrafjölda í excel-skjal. Þessar eyðslutölur eru því raunveruleg eyðsla en ekki áætluð. Eina skekkjan er að dekkin eru eitthvað stærri en upprunalega þannig að raunveruleg eyðsla er eitthvað minni. Ekki er um sparakstur að ræða heldur allann almennan akstur (og pinninn er stundum kíldur í gólfið). Eyðslan eykst töluvert á veturna og getur skriðið uppfyrir 20 þegar kaldast er.

Einnig á ég 1981 módel af Blazer K5, V8 bensínvél með blöndung, enginn yfirgír, lág hlutföll og 38” dekk. Hann eyðir á bilinu 22-25. Hann er reyndar viðkvæmari fyrir bensínfætinum en versta mæling er 37!

Þó eyðslan sé mikil þá er hún kannski ekki svo slæm þegar tekið er tillit til þess sem Patról menn voru að upplýsa á vef 4x4 klúbbins um daginn. Þar kom fram að 38-44 breyttur Patról væri oft að fara með 25-35 lítra á hundraði. Þegar tekið er tillit til að þeir bílar sem um var rætt voru ýmist með 2,8 eða 3,0 lítra DÍSELVÉLUM og þessir bílar eru allir með yfirgír (og allskonar tölvubúnað til að stýra eldsneytisflæði) þá er eyðslan á gamla trukk ekkert svo slæm.

Ég átti um tíma Suzuki Swift 1300cc. Þegar ég eignaðist hann þá eyddi hann yfir 10 lítrum á hundraði. Eftir að ég hafði farið yfir hann þá fór eyðslan niður í 8 l/h. Ef miðað er við hvað bíllinn er lítill og vélin lítil þá finnst mér eyðslan á þeim bíl ekkert vera til að hrópa húrra fyrir. Allavegana kemur Transaminn ekki illa útúr samanburðinum.

Um tíma keyrði ég mikið 1992 módel af Subaru Legacy 2,0 lítra (bein innspíting). Þessi bíll var yfirleitt í kringum 16 lítranna.

Nýrri amerískir bílar eru farnir að eyða miklu minnu. Þegar C5 Corvettann kom fram þá var hún gefin upp 8 í langkeyrslu og 13 í bæjarakstri (tölur frá EPA, hvað sem það nú er). Með nýrri tækni sem GM er að innleiða, en það er að keyra vélina ýmist á 4 eða 8 strokkum (var reynt á níunda áratugnum en þá var tölvubúnaðurinn ekki nógu þróaður fyrir dótið) er talið að Suburban eigi að komast 40 mílur á galloninu. Þar er eyðslan á þessum trukk komin í svipaða eyðslu og smábílar.

Ég held að þó að mikil eyðsla hafi vissulega verið um tíma þá sé það liðin tíð, og þurfi ekki að vefjast fyrir mönnum þegar þeir vilja kaupa ameríska bíla.

*****

2) Bilanir.

Þegar ég keypti Blazerinn þá var mér sagt að þetta ameríska dót væri alltaf bilandi. Mér var m.a. sagt að ég væri einn dag á fjöllum og tvo daga inní skúr. Ég var reyndar ekki óvanur slíku en ég hafði lengi átt Suzuki Fox sem því miður bilaði nokkuð oft.

En Blazerinn átti eftir að afsanna þessa kenningu. Ég er nú búinn að eiga þennan trukk í ein átta ár og hann hefur staðið sig með prýði. Eina stóra sem hefur bilað var þegar smurstöð gleymdi að setja olíu á afturhásinguna eftir að hafa tappað af henni, en það var tryggingartjón sem VÍS borgaði. Vélin stekkur alltaf í gang í hvaða veðri sem er og drepur aldrei á sér þrátt fyrir hríðarbyl eða vatnasull. Ég hef ekki hugmynd hve mikið er búið að keyra trukkinn en það eru örugglega nokkur hundruð þúsund mílur.

Tveimur árum seinna ákvað ég að kaupa Transam en nú var ég ekki hræddur við að dótið myndi bila. Hann stóð alveg undir því, hann hefur staðið sig með prýði. Transaminn er ekki mikið ekin, eða umþaðbil 80.000 mílur.

Mamma á 1993 módel af Grand Cherokee. Sá bíll hefur lítið sem ekkert bilað og er eins og nýr að keyra hann. Ef ég man rétt þá er hann keyrður umþaðbil 130.000 mílur.

Bræður mínir hafa átt Cherokee, Chevy pickup og 1974 Transam og allir hafa staðið sig vel.

Ég get því ekki tekið undir að þessir bílar bili neitt meira en annað sem á götunum er (ég hef minna þurft að eiga við amerísku bílana mína en þá japönsku sem ég hef átt).

*****

3) Beygjur. Hversu oft hafa menn ekki skellt því fram að amerískir bílar geti ekkert í beygjum. Það er rétt að ákveðnir eldri amerískir bílar voru alls ekki hannaðir fyrir beygjur. En takið þið japanska bíla frá sama tíma, fæstir þeirra voru það heldur. Þú gast engu að síður fengið ameríska bíla sem lágu eins og klessur (og örugglega japanska líka), þú fékkst bara það sem þú vildir kaupa. Margir kaupendur vildu mjúka bíla, svo að margir mjúkir bílar voru framleiddir.

Ef við höldum okkur við mína reynslu. Fáir bílar hafa staðist mínum Transam snúning í beygjum og hringtorgum. Bíllinn liggur eins og klessa, enda var hann hannaður til þess. Þegar þriðja kynslóðin af F-body var hönnuð þá var bíllinn hannaður m.v. stífustu fjöðrun og aðrar týpur gerðar mýkri. Það var hægt að fá þessa bíla mjúka, en ef menn keyptu Transam eða Camaro Z28 (en ekki standard Camaro eða Firebird) þá var hann yfirleitt með stífa fjöðrun (ef menn báðu ekki um annað).

*****

Ég hef grun um að eitthvað af þessum þjóðsögum byggi á eldgömlu sögum. Einnig má vera að innfluttir illa viðgerðir tjónabílar eigi einhvern þátt í þeim (mikið af amerískum bílum komu hingað tjónaðir og var tjaslað saman bílskúrum).

En hvað fullyrðingu blaðamanns varðar, að besta leiðin til að læknast af þrá í ameríska bíla sé að eignast ameríska bíla, þá er hún útí bláinn.

Ég þekki mikið af núverandi og fyrrverandi eigendum af amerískum bílum. Þeir fyrrverandi lygna aftur augunum þegar þeir tala um gamla Bjúkkann, Fordinn eða Challann. Margir sjá eftir því að hafa selt þá og segja að það hafi verið bölvuð vitleysa. Ef þeim sem eiga ameríska þá geta margir hverjir ekki hugsað sér að selja þá (ég hef ekki tölu á því hve oft ég hef hafnað tilboðum manna sem hafa ýmist stoppað mig á förnum vegi eða bankað uppá heima hjá mér).

Ef viðkomandi lendir hinsvegar á lélegu eintaki (þau eru til í amerískum eins og öðrum, illa hirtir og útkeyrðir) þá má vera að hann langi ekki í amerískann, en ef hann er skynsamur þá kennir hann ekki því um að bíllinn er amerískur heldur hvernig meðferð hann hefur fengið.

JHG