Fyrsti Muscle bíllinn
Mig langar til að skrifa grein um einn af mínum uppáhaldsbílum, Pontiac GTO. Ég hef því miður ekki orðið þeirrar ánægju afnjótandi að keyra svona dýrgrip, og verð því að styðjast við greinar úr greinasafni HOT ROD tímaritsins (Pontiac Firebird, Trans Am and GTO).
Það kemur ekki oft fyrir að sérfræðingar komi sér saman um nokkurn skapaðan hlut. Bílasérfræðingar eru ekki betri en aðrir (verri ef eitthvað er) og geta þeir rifist dögum saman (ef ekki árum) um hve mörg hestöfl ákveðin vél var eða hver var aðalmaðurinn á bakvið einhverja ákveðna línu bíla. Um eitt eru þeir þó flestir sammála um, þ.e. að GTO var fyrsti muscle-bíllinn!
Á sjöunda áratug síðustu aldar voru stórir flekar konungar götunnar. Buick-ar og Cadillac-ar með stóra króm stuðara sigldu um göturnar með þíðu þungu hljóði og ekki þurfti að hafa áhyggjur af plássleysi. Þessir risar voru drifnir áfram af vélum með fjöldann allan af kúbikum sem toguðu endalaust. Úr þessum jarðvegi spratt upp ný markaðshugmynd.
Hugmyndina áttu Jim Wanger (þáverandi yfirmaður bókhalds yfir auglýsingastofu Pontiac) og John DeLorean (þáverandi yfirverkfræðingur Pontiac), en hún átti eftir að hafa mikil áhrif. Hún var að taka eina af þessum stóru vélum og setja hana í tiltölulega léttan bíl, og kalla hann GTO.
Í kringum 1960 höfðu yfirmenn helstu bílaframleiðanda Bandaríkjanna verið kallaðir fyrir yfirvöld og hótað öllu illu ef afli yrði ekki haldið niðri. Tryggingarfélög höfðu einnig mikið á móti aflmiklum bílum. Því var stefnan sett á að stóru vélarnar færu í stóra og þunga bíla en minni vélar í þá léttari. Yfirmenn hjá General Motors (GM) voru því ekkert sérstaklega hrifnir þegar GTO varð til, en Pontiac var kominn full langt með verkið til að stoppa það af.
Pontiac framleiddi marga stóra bíla og áttu stórt safn stórra véla. Þeir völdu 389 cid vél, settu aftaná hana 4 gíra kassa, þrjá tveggja hólfa Rochester blöndunga og þessu tróðu þeir í Tempest body. Útúr þessu kom 1964 módel af GTO.
Þessi aðgerð olli byltingu í bílaheiminum vestanhafs, og mjög spennandi tími hófst. Hestaflastríð hófst á milli amerískra bílaframleiðanda, en það endaði ekki fyrr en olíukreppa og hertar mengunarkröfur kæfðu það, snemma á áttunda áratugnum.
Þessi bíll var gerður til að spretta úr spori og það gerði hann mjög vel. Kvartmíluna fór hann á lágum 14 sekúndum beint frá framleiðanda á mjóum bias-ply dekkjum. Í einni af greinum HOT ROD er sagt frá því að bílablaðamenn hafi sett betri dekk undir og hafi þá farið 13,77 á 102 mílum. Það var sérstaklega tekið fram að bíllinn hafði ekkert verið tjúnaður, bara eins og hann kom úr kassanum.
389 cid vélin fékkst í tveimur útfærslum, það er 335 hestafla með fjögurra hólfa blöndung eða 360 hrossa með þremur tveggja hólfa. Þjappan var nokkuð há (um 10,75:1) og knastásinn frekar heitur. Hægt var að velja á milli 3,08:1, 3,23:1, 3,36:1, 3,90:1 og 4,33:1 drifhlutfalla og driflæsingu var hægt að fá.
Verðið fældi svo ekki frá kaupendur, en grunnverðið var $2.786, en það var vel samkeppnishæft við aðra bíla á markaðnum. Það var hinsvegar ímyndin sem seldi mest. Pontiac setti GTO merki á grillið, skottið og afturbrettin.
GTO sló í gegn frá upphafi. Pontiac gerði í fyrstu ráð fyrir að selja 5.000 bíla af 1964 módelinu en í janúarlok höfðu yfir 10.000 bílar selst. Allt árið seldust 32.450 bílar.
Árið 1965 stækkaði bíllinn nokkuð en jafnframt jókst vélaraflið um 10 hross, en bíllinn varð hluti af LeMans línunni. Það voru ekki margir bílar sem höfðu roð við GéTéO skepnunni þetta árið, það voru helst Mustangar og Z16 396 cid Chevrolet Chevelle. Þetta módel seldist í 75.352 eintökum.
***
1966 - GTO var orðin sér stofnun, en 96.946 manns pöntuðu GTO það ár. Þetta ár færði GTO sig frá LeMans línunni og varð sérstök lína.
***
1967 – GTO var ekki mikið breyttur, en 81.722 bílar seldust það ár. Mest áberandi breytingin var að nú fékk hann fjögur sjálfstæð afturljós (átta ljós að aftan). Nú var hægt að fá 400 cid vél sem skiluð frá 255 til 360 hestöflum eftir því hvað kaupandi pantaði. Bíllinn fékkst með diskabremsum að framan en það voru mikil framför frá skálum að framan og aftan.
***
1968 – Töluverð breyting varð á útliti bílsins þetta ár. Nú voru t.d. framljósin falin en ekki tvö áberandi ljós hvort ofaná öðru eins og áður. Grunnvélin var 350 hestafla 400 cid vél en hægt var að fá HO og Ram Air útgáfur sem fengu 10 fleiri hross. Þeir sem höfðu áhyggjur af bensíneyðslu gátu valið að fá bílinn með lágþjöppu 400 cid mótor sem skilaði 265 hrossum með 2 hólfa blöndung.
***
1969 – Litlar breytingar urðu frá 68 módelinu. Sú helst var líklegast sú að litli þríhyrndi hliðarglugginn var ekki lengur á sínum stað (ætti að vera í öllum bílum). Stóru fréttirnar þetta árið gerðust í húddinu og þar undir. Það var hið fræga Ram Air IV, vél sem bæði áhugamenn um Pontiac og þeir sem hafa lent á móti þeim bera mikla virðingu fyrir. Heddin á 370 hrossa (mikið undirmat) Ram Air IV voru með stór hringlaga port, 1,65:1 rokkerarma, álmillihedd og villtan ás. Þar sem að bíllinn var ekki gerður með lúxus í huga þá var ekki hægt að fá loftkælingu ef Ram Air IV var pantaður. Þeir fengust eingöngu með 3,90:1 eða 4,33:1 drifhlutföllum.
Það sem færri vita er að það var til vél sem hét Ram Air V, sem sló fyrri vélum við. Hún kom í þremur útgáfum, 303 (miðuð við Trans-Am keppnina), 366 (gerð fyrir GM A-body Nascar) og 400 sem var miðuð við kvartmílukeppnir. Þó að engar nákvæmar dynómælingar hafi verið birtar þá er varlega áætlað að hún hafi skilað 500 hestöflum á 6300 snúningum. Blokkin var styrkt, þær voru allar fjögurra bolta, en aðalmunurinn var í heddunum en þau höfðu ógnarstór port og mjög stóra ventla (2,19/1,88). Þjappan var 11,25:1 og varkárt mat (talið mjög varkárt) er að vélin hafi skilað 1,15 hrossum per kúbictommu. Enginn GTO fór frá verksmiðjunni með þessa vél en allt sem þurfti var hægt að kaupa frá framleiðanda.
Þetta ár kom einnig frægasti GTO-inn fram, það var dómarinn sjálfur eða “the Judge”. Þeir fengust sem hardtop, coupe eða convertible og fengust í fyrstu aðeins í Carousel rauðum lit, en síðar í öðrum litum sem boðið var uppá í GTO línunni. Staðalbúnaður í Judge var Ram Air III vél, Rally felgur, Hurst skiptir og að sjálfsögðu viðeigandi merkingar. Einnig var hægt að fá Judge með Ram Air IV.
***
1970 – Þetta ár urðu miklar breytingar á útliti GTO. Framljósin urðu fjögur, tvö hvoru megin að framan og lágu þau lárétt. Grunnvélin var 400 cid með fjögurra hólfa blöndung en tveggja hólfa blöndungurinn var ekki lengur inn í myndinni. Ram Air IV var lítið endurbætt með betra milliheddi og útblástursportum meðan að Ram Air III var enn skráð 366 hestöfl. Ný vél var kynnt til sögunnar en það var 455 cid vél. GM ákvað að lyfta 400 cid þakinu sem hafði verið á millistærðarbílum sem gerði mögulegt að bjóða hana í GTO.
***
1971 – Þetta ár urðu straumhvörf í bílaiðnaðinum, og markaði það upphaf að endalokum Muscle tímabilsins. Stórhertar mengunarkröfur í Bandaríkjunum þvinguðu þarlenda bílaframleiðendur til að minnka mengun sinna véla. Þjappan datt niður í 8,2:1 (455 HO fékk þó að vera 8,4:1) til að nota með 91 oktana bensíni með litlu blýmagni. Hestöflin hrundu. 400 cid vélin í grunnútgáfunni skilaði 255 hestöflum og 455 var skráð 260. Ljósið í myrkrinu var að 455 HO skilaði þó enn 310 hrossum.
***
1972 – Engar stórar breytingar urðu á bílnum, í framhaldinu varð GTO valmöguleiki í LeMans seríunni (í einhver ár), og hvarf á endanum.
***
Ekki er öll sagan sögð því nýverið var tilkynnt að áætlanir væru um að selja bíla undir merki Pontiac GTO í Bandaríkjunum. Bíllinn er reyndar innfluttur en hann kemur frá Holden verksmiðjunum í Ástralíu (dótturfyrirtæki GM). Mér finnst þessi bíll mjög spennandi, hann er afturhjóladrifinn (að sjálfsögðu), með V8 LS1 vél og fæst sjálfskiptur eða með 6 gíra kassa. Upplýsingar um nýjan GTO fást m.a. á:
http://www.pontiac.com/pontiacjsp/gto/launch/
Ef menn vilja skoða myndir af þessum bílum þá er þær m.a. að finna á:
http://www.gtoalley.com/
http://www.ultimategt o.com/
Ég veit ekki til að nokkur orginal Pontiac GTO sé til hér á landi (né hvort svoleiðis gripur hafi ratað hingað) en hef heyrt af einum sem er verið að klóna.
JHG
Heimildir:
The Best of HOT ROD MAGAZINE-PONTIAC Firebird, Transam and GTO; Car Tech – Auto Books & Manuals; 1999.
P.s. Þegar ég var nánast búinn að skrifa þessa grein rakst ég á grein um sama bíl á http://www.leoemm.com/ Það er mjög áhugaverð og skemmtilega skrifuð grein en hann nálgast viðfangsefnið frá svolítið öðru sjónarhorni.