Í óbeinu framhaldi af umræðu hér um bíla sem vantar á götur hérlendis, langaði mig til að velta fyrir mér hve flotta og framandi bíla er hægt að fá fyrir tiltölulega hóflegan pening. Ef maður er tilbúinn til að skoða eldri bíla er oft hægt að finna ótrúlega veglega bíla á jafnvel verði nýs smábíls.
Til samanburðar er gaman að nefna til tvo nýja bíla sem maður sér ósjaldan á götunni og flestir myndu telja til fínni bíla. Annars vegar BMW 316i, prýðisbíll, en hljómar frekar snauður með sín 115 hestöfl, með hliðsjón af verði sem er yfir 2,9 milljónum. Hins vegar er Toyota Land Cruiser 90, sem í grunnformi kostar rúmar 4,1 milljón, en flestir eru nú væntanlega eitthvað breyttir. Auðvitað eru ekki allir sammála mér, en Land Cruiser finnst mér gersneyddur sjarma.
Maður getur samt ekki alveg ætlast til þess að fornbílaeign gangi jafn snuðrulaust fyrir sig og það að eiga glænýjan bíl í ábyrgð. Á móti kemur að maður er ekki skildugur til að fara í reglubundnar, og oft dýrar, þjónustuskoðanir og sömuleiðis er ekki sjálfgefið að vel hirtur gamall bíll þurfi að bila meira en glænýtt tækniundur. Svo má ekki gleyma því að nýir bílar falla hratt í verði oftast, en með eldri bíla er jafnvel hægt að komast hjá slíkum afföllum. Bílskúr, eða sambærileg geymsla, er samt líklega æskileg ef maður á mikið eldri bíl, sérstaklega ef maður notar hann ekki mikið.
En hvað getur maður fengið með BMW eða Land Cruiser pening í vasanum? Hvað um alvöru evrópskan Grand Tourer með 300 hrossa V8? Jensen Interceptor eru breskir sportbílar af sverustu gerð, en yfirbyggingin var ítölsk hönnun og undir húddinu má finna Chrysler big block, sem skilar gífurlegu togi af áreiðanleika. Eyðslan er auðvitað ekki til að hrópa húrra fyrir, en þegar maður fær svona á Ford Focus verði, eða léttilega undir 2 milljónum, hlýtur eitthvað að hanga á spítunni. Á þessu verði yrði stýrið nefnilega að vera öfugu megin. Alvöru Grand Tourer á undir tveimur milljónum og bókað að þú lendir aldrei í að leggja við hliðina á öðrum eins. Samt eru varahlutir í vél og skiptingu auðfinnanlegir.
Fyrst við erum að tala um svera breska bíla, hví ekki að bæta við fjórum strokkum og tveim hurðum? Jaguar XJ12 Series III ætti að vera hægt að fá frá Þýskalandi fyrir undir milljón krónur. Þá erum við að tala um innan við 20 ára gamlan bíl, sem er einhver fallegasti fjögurra dyra bíll fyrr og síðar. Útlitið eitt dugir ekki til, en næstum 300 hestafla V12 sér um restina, ásamt orðspori Jaguar fyrir að búa til bíla sem sameina vel þægindi og sportlega eiginleika. Auðvitað má búast við að svona bíll eigi við drykkjuvandamál að stríða, en verðið er samt það lágt að í samanburði við stóran og kraftmikinn nýlegan fólksbíl ætti verðmismunurinn að dekka ansi mikið bensín og forvarnarviðhald.
Ef breskir bílar fá mann til að hafa áhyggjur af ryði og rafmagnskerfi er hægt að vera ansi flottur fyrir hóflegan pening og kaupa þýskt. Það eru ekkert sérstaklega margir Porsche 944 á götunni, sem er í raun skrítið m.v. hvað er hægt að fá fyrir peninginn. Ég vona í raun að þetta breytist ekki, því ég er að vonast til að næsti bíll minn verði 944. Hann sameinar marga helstu þætti sem ég vil sjá í einum bíl. Merkið skiptir mig máli og fá hafa meiri ljóma en Porsche. Aksturseiginleikarnir hafa hlotið hrós merkra manna og þessir bílar kippa í kynið þegar kemur að smíðisgæðum. Svo fíla ég útlitið á einhvern pervertískan hátt, mjög líklega vegna þess að ég komst á táningsaldur á 9. áratugnum… ca. \'86 módel ætti að vera hægt að fá til Íslands fyrir 800þ. og ef bíllinn er góður ætti engin fyrirstaða að vera fyrir því að selja hann aftur á sama verði. Líklega eiga þessir bílar eftir að halda verði sínu mjög vel. Vélin skilar kannski bara ca. 160 hrossum, en það skilar bílnum þokkalega áfram og þetta er með þýðgengari fjögurra strokka vélum.
Ef jeppi er málið gætum við hreinlega fengið alla þessa bíla ásamt ca. tíu ára Range Rover fyrir það sem Land Cruiser 90 kostar. Auðvitað kostar meira að tryggja og halda svona mörgum bílum á götunni, en Jagúar, Porsche og Range Rover kosta samanlagt minna en BMW 316i. Einn fyrir konuna og einn inn í skúr eftir hvernig viðrar og smá peningur í afgang til að sjá um kostnað. Ekki skrítið að ég sé nánast hættur að sjá nýja bíla.
Þessi listi er samt auðvitað ekki tæmandi, heldur nokkrar gerðir sem mér datt í hug, sem ég er viss um að hægt er að gera góð kaup í. Verðin eru áætluð, en varla mjög langt frá lagi. Ég vona svo bara að bílahugarar bendi á fleiri bíla sem kosta hóflegan pening en bjóða upp á mikið, til viðbótar við þá sem ég nefndi.