Það eru nokkur atriði varðandi íslenska umferðarmenningu sem ég læt fara alveg óskaplega í taugarnar á mér, og þess vegna datt mér í hug að skrásetja það og sjá hvort ég sé sá eini sem er svona pirringstýpa,.. :)
1. Vinstri þrjóskir.
þetta fólk er alveg sér þjóðflokkur, það verður að viðurkennast að í ótrúlega mörgum tilvikum er þetta kvenfólk sem gerir þetta, ég hef ekið víða um heim og það virðist vera alheimsregla að kvenfólkið gleymir sér oftar með þetta atriði en karlarnir, EN… þeir verstu í þessu eru samt karlarnir, því þeir færa sig ekki þó maður komi aftan að þeim og blikki með stefnuljósum, háu ljósum og jafnvel flauti á þá, ég hef meira að segja lent í því oft að þeir hreinlega horfi í spegilinn og hristi hausinn, þ.e. þeir sjá mig, vita að ég vil komast framúr en vilja ekki færa sig, ég get vel skilið fólk sem gleymir sér, og færir sig svo þegar það sér hvað er að gerast, en svona týpur skil ég ekki, af hverju vilja þessir aðilar ekki færa sig? er það einhver niðurlæging að láta taka fram úr sér? Ég er sannfærður um að þetta lið á eftir að skapa stórhættu á Reykjanesbrautinni þegar breikkuninni loks lýkur…
Pirr Factor = 9,5
2. Palli var einn í heiminum.
Þessir Pallar eru liðið sem heldur að það sé á eina bílnum í heiminum, stoppar t.d. algjörlega upp úr þurru á miðri götu til að hleypa einhverjum úr bílnum, skoða hús eða bara í raun hvað sem er, og í leiðinni stöðvar alla umferð í kringum sig, og ef einhver gerist svo ósvífinn að flauta á þessa Palla þá fær sá sami illt augnráð fyrir vikið og jafnvel löngutöng í andlitið. Það verður að segjast að leigubílstjórar eru einna stærsti hópurinn í þessu undarlega samansafni fólks sem virðast líta svo á að fólk geti bara alveg beðið þar til þeirra eigin erindagjörðum sé lokið.
Pirr Factor = 9,0 (lækkar reyndar ef ég er bara að rúnta)
3. Óli Lokbrá.
Þú bíður á umferðarljósum, ljósið er grænt og bílstjórinn fyrir framan þig hreyfir sig ekki, þessir aðilar hafa svosum ekki háan Pirr Factor hjá mér, ca 3~4, en þeir sem lúsast yfir á grænu á 4 km hraða skapa mun hærri Pirr Factor, þessir aðilar eru valdurinn af því að aðeins 3 eða 4 bílar komast yfir á grænu, víðast hvar erlendis eru málin þannig að fólk gefur hraustlega í af stað á grænu ljósi, og heldur hraða þannig að mun fleiri komast yfir á græna ljósinu en hér á Íslandi, mín skilaboð til þessara aðila: “hundskastu yfir þursinn þinn” !!!
Pirr Factor = 7,0
4. Steini Strætó !!.
Nú verð ég að viðurkenna að ég veit ekki alveg hvað þessi límmiði í afturrúðunni á strætó gefur strætó mikinn “rétt” í umferðinni, þ.e. græni og rauði límmiðinn sem sýnir táknrænt að umferð á akvegi eigi hreinlega að stöðva um leið og strætó vill komast út á götuna frá stoppistöð, en margir strætóbílstjórar virðast halda að þeir hafi með þessum bölvaða límmiða öðlast guðlegt vald í umferð Íslands. Ég hef persónulega lent í lífshættu út af þessu, var á mótorhjóli að aka í Lækjargötunni fyrir mörgum árum þegar einn “Strætóguðinn” svínaði svo hressilega á mig að ég endaði á gangstéttarkanti með 580 slög á mínútu. Það var því einu að þakka að ég datt ekki hve litlum hraða ég var á. Það væri mjög athyglisvert ef einhver gæti komið með skotheldar upplýsingar um vald þessa einstaka límmiða..?
Pirr Factor = 9,9
5. Júlla Jeppakerling.
Hvern kannast ekki við Júllu Jeppakerlingu á Landcruisernum með 44“ dekkin að reyna að koma þessu ferlíki í bílastæði,,, og að þurfa að bíða eftir því að hún komi skrímslinu í stæðið. Maður kann ekki við að flauta á Júllu, því ef hún ræki drekann í eitthvað í fátinu og þyrfti að útskýra fyrir framkvæmdarstjóranum, manninum sínum, hvað hefði gerst þá örlar fyrir smá vorkunsemi yfir Júllu í mínu hjarta, mín skilaboð til Júllu: ”notaðu frekar Polo'inn þegar þú skreppur út í búð, það er ekkert töff lengur að sjá konu/menn á jöklafarartæki á bílastæðum Kringlunnar".
Pirr Factor = 5,0