Gran Turismo 4 Gran Turismo bílherma serían ætti að vera flestum að góðu kunn, en hún er eingöngu til á Playstation 1 og 2, og hefur verið í gangi frá því á miðjum síðasta áratug. GT3 kom út 2001 og er að mínu mati enn meðal bestu bílaleikja heims.
Nú fer að styttast í það að örverpi fjölskyldunnar, GT4, komi út, en það verða væntanlega skyldukaup fyrir alla þá sem hafa á annað borð eitthvað að gera með leikjatölvur og bíla.
4. leikurinn í seríunni verður væntanlega að gera allt sem fyrri leikir gerðu, en gera það bæði betur og gera meira af því.

Það eru því ærin verkefni framundan fyrir þær 70 manneskjur sem vinna í fullu starfi við að reyna að koma þessum ósköpum frá sér.
Það sem fram hefur komið um hann hefur heldur ekki valdið vonbrigðum, en skv. heimildum verða á bilinu 500-1000 tegundir bíla í honum, en takmarkið er víst að hafa fleiri tegundir en í öllum fyrri Gran Turismo leikjum til samans!

Demo af leiknum hafa verið að sjást á leikjatölvusýningum í nokkurn tíma, enda er þetta ein alstærsta leikjasería á Playstation 2, og er það mál manna að grafíkin hafi tekið stór stökk fram á við, þótt ekki sé ennþá búið að ná hinum tæknilegu endamörkum sem hardware-ið í PS2 býður upp á. Sjálfur á ég erfitt að ímynda mér hvernig grafíkin getur stórbatnað frá því sem var í GT3, mér fannst hann nú alveg nógu flottur!

Einnig má geta þess að nú verða blæjubílar án blæju, þeir hafa hingað til ekki treyst sér til þess því þeir vildu ekki láta sjást í ökumann fyrr en þeir væru sáttir við hreyfingar hans undir stýri, s.s. í beygjum, við gírskiptingar og fleira, en þetta á allt að vera orðið óaðfinnanlegt.

Þeir virðast vera farnir að snúa sér í auknum mæli að bíla- og trackday menningu í Bretlandi og megum við eiga von á því að sjá glitta í nokkra Caterham, og vonandi aukið úrval af öðrum sérbreskum bílum. Þetta tel ég vera stökk fram á við því breska mótorsportmenningin er mjög aðgengileg og skemmtileg og á vafalaust eftir að auka enn frekar á fjölbreytileika GT4.
Nú verða einnig amerískir drekar í stórauknum mæli, og þá ekki bara þeir nýjustu heldur verður líka leitað mikið til fortíðar, sem er mjög gott!

Ekki hefur verið neitt fjallað um þáttöku risanna Porsche og Ferrari í nýja leiknum, þannig að því miður er ekki útlit fyrir að þeir verði heldur með í þetta skiptið (innskot: það hefur nú ekki komið að sök með Porsche því RUF geta nokkurn veginn svalað Porsche þorsta flestra, eins og verið hefur í síðustu leikjum)

Hljóðin í bílunum verða stórgóð og verða mjög nálægt hinum raunverulegu hljóðum, enda var vélarniðurinn tekinn upp á öllu snúningssviðinu til notkunar í leiknum, á hverjum bíl fyrir sig.
Hvað umhverfið varðar verður meira lagt upp úr því en áður að sækja það í raunverulegar fyrirmyndir alls staðar í heiminum. Þá verða margar brautir leiksins nákvæmar endurgerðir “alvöru” brauta, og má búast við mörgum nýjum í bland við þær sem áður hafa sést í seríunni.

Útgáfudagurinn er ekki kominn á hreint, enda er Polyphony vant því að gefa hann ekki upp nema með ca. tveggja vikna fyrirvara. Tímabilið sem má búast við leiknum á er einhversstaðar í kringum mars-maí 2004 á Evrópumarkaði.

Já, ég held að GT4 verði alveg málið, en það er óskandi að Ferrari og Porsche fáist til að taka þátt í þessum pakka, veit ekkert hvernig mál standa með það.

Heimildir:
Evo magazine
Gamespot.com