Upp á síðkastið hefur fylgni fjórhjóladrifinna sport- eða a.m.k. sportlegra bíla aukist mikið. Svo mikið að Subaru Impreza er orðin tákn um kraft og aksturseiginleika og birtist í draumum flestra upprennandi bílaáhugamanna. Það má segja að þessi gerð götubíla hafi byrjað þegar Audi kom með upprunalega Quattro bílinn. Fjórhjóladrif og túrbínur skiluðu honum yfirburða árangri í ralli, svo góðum að allir hinir urðu að fylgja eftir þessari þróun. Að sjálfsögðu var Quattro götubíllinn allra veðra tryllitæki og fáir bílar ef nokkrir hefðu haft við vel eknum Quattro þar sem aðstæður voru slæmar.
Það var hinsvegar Jensen í Bretlandi sem á heiðurinn af fyrsta fjöldaframleidda bílnum með fjórhjóladrifi til götuaksturs en það var Jensen FF sem kom fram 1966. FF stóð fyrir “Ferguson Formula” en Ferguson hannaði fjórhjóladrifskerfið upprunalega til nota í Cooper Formula 1 bíl! Líkt og í formúlubílnum virkaði kerfið vel í Jensesn. FF kerfið hafði jafnvel “viscous-coupling limited slip differential” (seiglu kúpling?) og var drifi skipt milli fram og afturhjóla 33/67 til að tryggja sportlega eiginleika.
Ekki nóg með að Jensen hafi þarna verið frumkvöðull hvað varðar fjórhjóladrif heldur hafði FF líka hemlalæsivörn! Læsivörn þessi var ólíkt nútímakerfum vélvirk og þykir í dag hafa verið vafasöm. Fjórhjóladrifskerfið þótti hinsvegar virka með eindæmum vel og vildu margir kalla Jensen FF öruggasta bíl í heimi á þeim tíma enda hafði hann hreint ótrúlegt veggrip.
Líkt og Jensen Interceptor var FF veglegur “Grand Tourer” enda áttu þeir margt sameiginlegt, m.a. voru þeir mjög líkir í útliti. Báðir notuðust við 6,3l Chrysler V-8 mótor eins og reyndar margir fágætir eðalvagnar á þessum tíma gerðu. 325 hö. skiluðu FF samt ekki betri 0-60 mph tíma en u.þ.b. 8 sekúndum (samt ekkert slæmt á sínum tíma) og má rekja það til þess að þetta voru þungir bílar (1830 kg) með sjálfskiptingu. Það má ætla að það hefði verið frábært að krúsa Evrópu á svona vagni, það hefði verið sannkallað fyrsta farrými á hraðbrautunum. Jensen þóttu glæsivagnar á þessum tíma enda má segja að þarna hafi allt það besta komið saman í einn bíl: amerískur mótor, ítölsk útlitshönnun og breskir aksturseiginleikar. FF hlaut frábæra dóma en seldist aldrei jafn mikið og Jensen Interceptor. Aðeins 320 bílar voru smíðaðir á milli 1966-1971, en Interceptor lifði til 1976.
Fjórhjóladrifnir sportbílar urðu svo að bíða til 1980 þegar að Audi Quattro stormaði á sjónarsviðið. Það varð þó ekki fyrr en eftir að Audi hafði keypt og skoðað einn Jensen FF…