Ég var svona að hugsa um að skrifa grein þar sem ég bæri Porsche og Ferrari saman svona óhlutbundið. En það væri bara að prédika yfir páfanum held ég!
Í framhaldi af því fór ég að hugsa smá um Porsche (meira en vanalega semsagt) og langar að leyfa ykkur að njóta ávaxtanna af því. Þetta er ekki endurtekning á fyrri Porsche-prédikunum. Til að það sé á hreinu þá hef ég aldrei keyrt Porsche. Ef einhver finnur fyrir þörf til að leiðrétta það getið þið bara sent mér skilaboð. Eða lagt pening inn á bankareikninginn minn!
Fyrir mér er það einn bíll sem tryggir Porsche sérstöðu sína og það er (auðvitað) 911. Málið er það að hann er einstakur á götunum. Útlitið er augljóslega stærsti þátturinn í því. Það er bara enginn bíll sem lítur út eins og 911. Ef þið ætlið að segja að VW bjalla og 911 séu líkir þá er það eins og að segja að Ferrari Dino 246 og Ferrari Testarossa séu líkir. Í báðum tilfellum er það uppsetning bílsins sem leggur línurnar fyrir útlit bílsins og með uppsetningu meina ég staðsetning vélar. Annars er 911 og bjallan ekki svo lík.
Fyrsti 911 bíllin kemur um miðjan sjöunda áratuginn (slakt, ég veit, ég man ekki nákvæmt ártal) og útlitslega séð verða engar stórfelldar breytingar, þó að 1993 sé bíllin endurhannaður og síðasta módelið með loftkældum mótor kemur. 1997 kemur loksins(?) algerlega nýr 911 (996) með vatnskældum mótor og hönnun sem er mjög augljóslega ný þótt enn kippi í kynið.
Annað sem er sérstakt er staðsetning mótorsins. Hann hefur lengst af (ca. 30 ár!) verið loftkældur og er staðsettur aftast í bílnum, ólíkt til dæmis Ferrari Testarossa, Lotus Elise og Lamborghini Diablo sem líka hafa vélina fyrir aftan ökumann. Í þeim bílum má heita að vélin sé fyrir miðjum bíl, innan hjólhafsins, en í 911 er hún aftan við hjólhafið. Þetta hefur mikið að segja um hegðun bíls í akstri. Þyngdardreifing í 911 er lík og í meðal framdrifs fólksbíl, nema bara öfug! Af þessu hlýst að lítil þyngd liggur á framhjólunum sem gerir stýrið mjög næmt. Ef ég skil rétt leiðir þetta líka til að bíllinn á til að undirstýra nokkuð. Meira en helmingur þyngdar bílsins hvílir á afturhjólunum (en þangað fer allt aflið og að jafnaði mest allt í 4wd 911), þetta leiðir til þess að aflið kemst mjög vel til skila undir inngjöf enda hafa 911 bílar mjög oft 0-100 tíma sem oft er nokkru betri en hjá öðrum sambærilegum bílum. Þetta þýðir líka það að þegar aftuhjólin fara að skrika í beygju er þér eins gott að passa þig því að allur þessi massi á það til að snúast hratt! (Einhversstaðar heyrði ég að að jafnaði væri meðal 911 Turbo ekið meira utan vega en meðal Range Rover!)Gullna reglan verður því hægt inn í beygjur, HRATT út úr þeim. (Prófið bara elstu RUF Turbo bílana í GT2!) Að lokum um vélina; það eru ekki margir bílar með flata, loftkælda sexu og því er hljóðið sérstakt!
Margir bílaspekúlantar vilja meina að stærðin sé líka hárrétt, 911 er það lítill að á þrengri vegum hafa sumir ofurbílar lítið í hann og útsýni í 911 slær flestum ofurbílum við. Gleymið heldur ekki að 911 þótti um tíma með bestu rallbílum í heimi. Samt er hann nógu stór til að taka við tveimur fullorðnum og farangri/tveim börnum(sem myndu líklegast vera fórnarlömb jarðsprengja…)
Það er til slatti af bílum sem geta gert líka hluti og 911. Sumir fyrir betra verð og þá jafnvel öflugri. Hverjir þeirra luma hinsvegar á skotheldu orðspori hvað varðar smíðisgæði, endingu og áræðanleika jafnframt? Fæstir geta heldur jafnað merkið á húddinu, en fáir bílaframleiðendur hafa verið jafn sigursælir í mótorsporti eins og Porsche og þótt það skipti mig ekki máli þá þarftu eitthvað eins og Ferrari til að fá meira “snob-appeal”. Svo eru hinir bílarnir bara ekki Porsche 911! Þó sumir bendi á grundvallar hönnunargalla og setji spurningu við framsetningu stjórntækja blása þeir sem hafa smitast á þetta og kalla húmbúkk. Þetta gerir bílinn bara meira sjarmerandi. Fyrir suma okkar er hann bara einstakur: galvaníseraður draumur.
Það getur allaveganna enginn neitað því að 911 svínvirkar!