Þar sem ekkert sérstakt er að gerast á bílaáhugamálinu núna verð ég að senda inn smá stúf varðandi ástand bílaiðnaðarins í dag.
Nú er þessari grein ekki ætlað að vera fræðileg eða ítarleg, aðeins að koma af stað umræðum um hvað er að gerast í dag.
Þannig er mál með vexti að ég rakst á það á netinu að Mazda hafi hlotið verlaun fyrir vélarhönnun ársins fyrir Renesis vélina sem notuð er í Mazda RX-8. Mér þykja þetta afskaplega góðar fréttir þar sem Mazda hefur staðið eitt fyrirtækja fyrir framleiðslu á þessum vélum í 30 eða 40 ár.
Nýja Renesis vélin er aðeins 1.3 líter að rúmmáli en samt að skila 238 hestöflum og það án forþjöppunar eins og notuð var í síðasta RX-7 (sem reyndar var twin turbo). Vélin er pínulítil eða svipuð og skúringafata. þetta gerir það kleift að koma fyrir fjórum fullvöxnum sætum í bíl að svipaðri stærð og lítill sportbíll - og ekki nóg með það heldur er pláss fyrir farangur líka.
Þessi bíll er allsstaðar að fá frábæra dóma. Aksturseiginleikar þykja hreint út sagt frábærir og hönnun á innanrými er frískleg og tæknilega séð fullkomlega útfærð.
Ég hef núna í sirka tvö ár hneykslast nokkuð á sífellt feitari og flóknari nýjum bílum. Sniffpetrol.com tók þetta ansi skemmtilega fyrir og komst að þeirri niðurstöðu að ef Golf héldi áfram að vaxa líkt og hann hefur gert frá fyrstu kynslóð þá myndi hann verða 4.2 tonn og 900 hestöfl árið 2014! Þetta gengur nefnilega ekki til lengdar. Það hlýtur að vera komin tími á nýja hugsun í hönnun bifreiða í dag.
Það hefur nefnilega afskaplega lítið gerst síðastliðin ár, Renault, Espace, Scenic og A-Benz allir með sitthvora útfærsluna af fjölnotabílnum. SUV bílarnir eru voða vinsælir og í raun bara þróun hugmyndarinnar hjá Renault. Sportbílar eins og Elise halda fast við sinn keip sem fyrr enda góð fílósófía þar á ferð. Benz og BMW eru fastir í hestaflakapphlaupi þar sem sífellt öflugri sedan bílar eru nauðsynlegir vegna GÍFURLEGS aukabúnaðar þeirra og sífellt aukinnar þyngdar.
Mazda er að mínu mati að taka hárrétta stefnu sem er eftirfarandi; ný vél sem afkastar vel, er fyrirferðarlítil og hagkvæm í rekstri, ný hönnun á bílnum sjálfum með “suicide” hurðum þannig að hann lítur út fyrir að vera Coupé þrátt fyrir að vera fullra fjögurra manna - bíllinn brúar því bilið á milli sportbíls og fjölskyldubíls án málamiðlana. Og síðast en ekki síst er hönnun innanrýmis algjörlega byggð á notagildi og tæknin notuð til að skapa rými og aðlaðandi bíl í stað þess að búa til rassakælibúnað og tölvustýrt hitt og þetta.
Ég hef keyrt talsvert af nýjum og geysigóðum bílum. En þeir hafa yfirleitt ekki uppá neitt nýtt og spennandi að bjóða. Allskonar búnaður sem maður hefur raunverulega ekki þörf fyrir skemmir bara fyrir akstursánægjunni ef maður er á annað borð þannig þenkjandi.
TVR, Porsche, Lotus og Mazda eru allt bílaframleiðendur sem hafa á einhverjum tímapunkti haft einfaldleika bíla í heiðri með þeim árangri að þeir hafa komist í sögubækurnar. Ég tel að eftir 10-20 ár verði Phaeton, BMW 760, Benz S600 og allir svipaðir bílar gleymdir og lítils virði á meðan RX-8 mun verða eftirsóknarverður söfnunarbíll.
Mazda RX-8 hraðar sér á 6 sekúndum sléttum í 100 kmh, er einhver glóra að nærri 600 hestafla SL Benz sé aðeins sekúndufljótari í hundraðið?
Hvernig bíla viljið þið sjá í dag? Meiri útbúnað og tæknibúnað - eða meiri ánægju og tæknina notuð í að fókusa á góðar hugmyndir og koma þeim í framkvæmd?