Sagan um hvernig það gerðist að Ferruccio Lamborghini fór út í sportbílabransan er líkast til goðsögn, en engu að síður góð saga. Hún hefur heyrst í ófáum útgáfum og líklega eru þær allar a.m.k. að hluta til skáldskapur. Útgáfan sem er að finna á www.timpelen.com er því örugglega hvorki meiri né minni fiskisaga en hver önnur, ég sel hana þó ekki dýrari en ég keypti:
"…[Ferruccio Lamborghini] bought and drove several top-end sports cars and was generally satisfied with them, especially so with his Ferraris. However, the Ferraris' cluthes could not handle the power of the engine and Ferruccio had them fixed several times without any improvement. Finally, he decided to confront Enzo Ferrari with this weakness. Upon hearing Lamborghini's complaint, Ferrari uttered the legendary words that triggered the founding of Automobili Lamborghini: “You know how to drive a tractor, but you will never learn to drive a Ferrari!” Ferruccio then vowed to make his own car - a real car!“
Signore Lamborghini var reyndar kominn af bændum, en tengsl hans við dráttarvélar voru mun meiri en bara í gegnum bændablóðið. Hann hafði verið vélvirki í ítalska hernum í síðari heimsstyrjöldinni og eftir hana fór hann að breyta herfarartækjum yfir í dráttarvélar sem á var mikill skortur á Ítalíu eftir stríð. Hann auðgaðist síðan á að framleiða dráttarvélar undir Lamborghini merkinu og síðar hitablásara og loftkælingar. Það er kannski ekki skrítið að sjálfum Enzo Ferrari hafi ekki fundist mikið til gagnrýni Lamborghinis koma. En það hafði ekki legið fyrir hjá Ferruccio að fara út í bílaframleiðslu. Hann langaði að framleiða þyrlur, enda mjög tæknisinnaður maður, en fékk ekki tilskilin leyfi til þess.
Það er því kannski kaldhæðni að á stuttum tíma tókst Lamborghini að setja á fót bílaverksmiðju sem smíðaði sportbíla á heimsmælikvarða, sportbíla sem í raun slógu við bílum Ferrari! Lamborghini sneri sér að bílaframleiðslu árið 1963 og hóf að afhenda viðskiptavinum bíla árið eftir. Fyrsta skrefið var Lamborghini 350GTV, hugmyndabíll sem var sýndur á bílasýningunni í Turin 26. október 1963. Það er óhætt að segja að þessi bíll hafi ekki fengið rífandi dóma. Útlitið þótti ekki vel heppnað, en með tilliti til þes að þarna var frumgerð frá framleiðanda sem hafði hafið störf sama ár, má fara varlega í of harða dóma. 350GTV hafði verið hannaður af Franco Scaglione og var haft eftir Lamborghini seinna meir
”Well, in the early 1960's there was quite a number of designers and stylists to choose from. But Scaglione arrived at my place in a big shiny Mercedes, immaculately dressed and accompanied by a breathtakingly beautiful secretary. “Your car will be ready in a week”, he told me. So I gave him the job.“ Scaglione was asked to draw an Italian version of the Jaguar E-type. Lamborghini owned an early model of the E-type and told: ”It was a very attractive car and I really liked being seen in it!"
Vélin kom úr smiðju sjálfs Giotto Bizzarrini sem hafði stuttu áður hætt hjá Ferrari. Það skaðaði ekki að hann á að hafa haft tilbúna hönnun á V12 vél sem Ferruccio gat notað. Vélin var, eins og má álykta af nafni bílsins, 3,5 lítrar og þó 350GTV yrði aldrei meira en sýningarbíll átti þessi vél eftir að knýja margan Lamborghini bílinn áfram seinna meir, þó hún myndi breytast og þróast, en aðallega þó stækka. Upprunaleg hönnun Bizzarinis hentaði samt í raun betur sem vél í kappakstursbíl en í fágaðan Grand Touring bíl eins og Lamborghini vildi smíða. Skipaði Lamborghini fyrir að dregið yrði úr snúningsgetu vélarinnar og hámarksafl minnkað til að tryggja áreiðanleika, í óþökk Bizzarinis sem hætti eftir að vélin lauk prófunum.
Eftir þessa breytingu skilaði vélin 270 hestöflum við 6500 snúninga og 239 lb ft við 4000. Ventlum hafði verið fækkað úr 48 í 24, núna tveir á stimpil, en ennþá hafði vélin 12 strokka í 60 gráðu “V”, 3,5l slagrými og 4 kambása. 6 tveggja hólfa “Side draft” Weber blöndungar sáu til þess að maður þyrfti að stoppa við og við á bensínstöð. Touring hönnunarhúsið hafði fengið verkefnið að endurhanna 350GTV og afraksturinn varð 350GT, fyrsti fjöldaframleiddi bíll Lamborghini, og undir húddið á honum fór endurhönnuð vél Bizzarinis. Afraksturinn var svo sýndur almenningi á bílasýningunni í Genf í mars 1964. Útlitið þótti betur heppnað en á GTV bílnum, þó enn séu ekki allir sammála um ágæti þess. Fyrir mitt leyti er 350GT og V12 GT bílarnir sem fylgja hér á eftir meðal glæsilegustu og merkustu bílum sinnar gerðar í heiminum.
Það var ekki bara útlitið og vélin sem höfðu breyst á milli 350GTV og GT. Undirvagninn var núna saman settur úr stál gólfplötu og grind úr ferkönntuðum stálrörum. Yfirbyggingin var úr áli að “Superleggera” hætti Touring og bíllinn því mjög hóflega þungur, einungis 1050 kíló. Aðrir tækniþættir voru engu að síður framúrskarandi, gírskiptingin var fimm gíra frá ZF og samhæfð á öllum gírum. Fjöðrunin var double-wishbone að framan og aftan og sömuleiðis voru Girling diskabremsur á hverju hjóli með aðstoðarátaki. Útkoman var fágaður og þægilegur sportbíll og þó glæsileikinn sé umdeilanlegur er enginn vafi á að þetta var alvöru ofursportbíll á mælikvarða 1964, með hámarkshraða yfir 240 km/klst.
Fyrsta árið voru aðeins 13 bílar smíðaðir og flestir fyrstu bílanna höfðu óvenjulegt 2+1 sætafyrirkomulag, þar sem einn farþegi sat fyrir miðju aftur í. Seinni bílar voru bara tveggja sæta, en allt í allt voru 120 350GT smíðaðir, þeir fjórir síðustu árið 1967. Árið eftir að 350GT kom fyrst var tekið að bjóða upp á 400GT, sem hafði fjögurra lítra útgáfu af 3,5l V12 vélinni. Einungis 23 400GT voru smíðaðir, þeir fyrstu þrír voru með ályfirbyggingu en síðan var skipt yfir í stál. Þar sem vélin skilaði nú 320 hestöflum má ætla að þessir þrír 400GT “álbílar” beri af öðrum sinnar gerðar, en með stályfirbyggingu fór þyngdin upp í u.þ.b. 1250 kg.
400GT rann sitt skeið í þessu formi strax 1966, en við tók ný útgáfa sem líka hét 400GT en var nú með 2+2 sætafyrirkomulagi. Sá bíll hefur þó varla þótt tíðindum sæta því sama ár kom Lamborghini Miura, fyrsti ofurbíllinn með miðstæða vél. Miura var bíllinn sem átti eftir að setja tóninn fyrir Lamborghini framtíðarinnar og þótt þetta væri villtari og kynþokkafyllri bíll en fyrirtækið hafði áður gert var hann í engu jafn dýrslega brjálaður og arftakar hans. Miura er kaflaskipti í sögu Lamborghini og í raun fyrir sportbílasöguna líka. Miura er efni í aðra grein, því þótt fágaðir GT bílar séu ekki á stefnuskránni hjá Lamborghini í dag voru þeir engan veginn hættir á þeirri braut 1966.
Lamborghini framleiddi 247 eintök af 400GT 2+2 þar til hann fékk arftaka 1968. Þótt breytingarnar frá tveggja sæta bílnum væru mjög miklar og 2+2 útgáfan í rauninni nýr bíll, svo mikið var hann breyttur, voru breytingar á útliti ekki áberandi. Ferruccio hefur kannski ákveðið að óþarfi væri að fikta við eitthvað jafn glæsilegt og upprunalegu hönnun Touring. Af öðrum breytingum en sætaskipan er það kannski helst að þyngdin var orðin hér um bil 1300 kg og nýr gírkassi hannaður innanhúss tók við af fyrri skiptingu. Nýja Lamborghini skiptingin var sömuleiðis fimm gíra en nú var meira að segja bakkgírinn samstilltur!
Um líkt leyti og 400GT rennur sitt skeið, 1968, kom Lamborghini fram með aðra einstaka gerð bíls, Espada. Enn og aftur ætla ég að halda mig við sögu hefðbundinna GT bíla Lamborghini og segja því eingöngu frá Espada í framhjáhlaupi, en þar var á ferðinni einskonar framlenging á GT hugmyndinni. Espada hafði þessa kunnuglegu 4 lítra V12 undir húddinu og tvær hurðar, en sæti voru fyrir fjóra fullvaxna og farangursrými í takt við það. Útlitshönnun var eftir Gandini sem hafði hrifið heiminn áður með frumburði sínum, Lamborghini Miura, en í þetta sinn voru viðbrögðin annað hvort ást við fyrstu sín eða hryllingur.
Því miður hefur Islero örugglega ekki fangað hugarflugið líkt og Miura og Espada. Í rauninni var hann að mestu bara útlitsbreyting frá 400GT bílnum á undan, þó ýmsar breytingar fleiri væru gerðar. Enn og aftur var útlitið ekki við allra hæfi, en öllu einfaldara, skarpara og nútímalegra en hjá forveranum. Ferruccio sjálfur hafði hönd í bagga með útlitshönnun og var Islero alltaf í miklu uppáhaldi hjá honum. Marazzi í Mílanó sá um að smíða yfirbyggingarnar og þóttu bílarnir illa frágengnir, en sérstaklega átti það við um innréttingar. Allt var þó ekki slæmt, þeir voru betur hlóðeinangraðir, útsýni úr þeim var betra en fyrri bílunum og innra rými sömuleiðis. 125 Islero voru smíðaðir 1968-1970, en 1969 kom fram mikið endurbætt útgáfa, Islero 400GTS, einnig kallaður Islero S. Breytingar voru margar, en flestar smávægilegar, helst voru innréttingar og mælar mun betri og nútímalegri en aflið jókst einnig, frá 325 fákum í venjulega Islero í 350 í GTS. Einungis 100 Islero GTS voru smíðaðir og vil ég meina að það hafi verið svanasöngur Lamborghini GT bílanna þótt sá síðasti væri ekki enn allur. Síðusti Islero GTS voru framleiddir 1970 og náðu ekki að laga orðstýr gerðarinnar, viðskiptavinir Lamborghini höfðu snúið sér að Miura og Espada enda voru það gerðirnar sem fengu sviðsljósið.
Arftaki Islero var Lamborghini Jarama og var hann byggður á breyttum undirvagni Espada. Engu að síður skorti hann ljómann sem hafði stafað af fyrirrennurum sínum. Afköst voru viðeigandi fyrir Lamborghini og ábyggilega var Jarama hugljúfi ökumanns þótt hann væri einn þyngsti Lamborghini fyrr og síðar. 400GT útgáfan vó heil 1540 kíló, en notaði samt sömu vél og hafði áður verið í Islero GTS. Með GTS útgáfunni árið 1973 léttist hann um 80 kíló og aflið fór upp um 15 hestöfl. Líklegast hef ég fordóma gagnvart Jarama vegna útlits hans, frekar en að með honum hafi Lamborghini verið að gera lakari bíl en áður. Gandini vann útlitsvinnuna fyrir Bertone sem smíðaði yfirbygginguna, en samsetning fór áfram fram hjá Marazzi. Víst er að Jarama verður seint talinn til merkari verka Gandini og óskandi hefði verið að síðasti sanni GT bíll Lamborghini hefði verið þeirra fallegastur. Kannski er Jarama ástæðan fyrir því að næsta áratug eftir að síðasti Lamborghini GT bíllinn rúllar út úr Sant’ Agata verksmiðjunni höfðu flestir gleymt öllu sem Lamborghini varðar nema brjálæðislegustu ofurbílunum, smíðuðum fyrir fólk sem þykir Ferrari of hógvær. Einungis 327 Jarama voru smíðaðir á milli 1970-1976, þar af voru 150 Jarama 400GTS.
Heimildir:
http://www.lamborghiniregistry.c om (líklega besta síða um Lamborghini á netinu)
http://www.lamborghini.com (heimasíða framleiðandans)
http://www.timpelen.com/#
http://www. lambocars.com/
Buckley, Martin: The Encyclopedia of Classic Cars. London 1997.