Mig langar til að byrja upp á nýtt með það sem ég sagði um Retró-hönnun.
Ég er á þeirri skoðun að bílahönnuðir séu líka listamenn. Rétt eins og arkítektar svo dæmi séu nefnd. Ef ég ætlaði að láta hanna fyrir mig hús gæti ég (greinilega á degi sem ég hef ekki tekið lyfin mín) heimtað að arkítektinn minn hanni torfbæ! En ég vill hafa hann með nútímalegum þægindum. Arkítektinn fer og hannar steinsteypt hús sem lýtur út eins og torfbær. Þarna hefur engin sköpun farið fram, bara yfirfærsla, hálfgerð túlkun yfir í nútíma byggingarefni. Og já, ég rek hausinn í dyrakarmana… Setjum hinsvegar sem svo að ég dáist að gömlum þjóðháttum, ég segi arkítektinum að ég dái torfbæi og langi í hús sem MYNNIR á þá. Arkítektinn hannar nútíma hús sem vísar í torfbæina gömlu… Ef verkið er vel heppnað bý ég í sérstöku og þægilegu nútímahúsi og arkítektinn fær þá ánægju sem fylgir því að hafa skapað eitthvað nýtt, hafa bætt við menningu okkar í stað þess að endurvinna hana.
Það að endurvinna bara fyrri afrek færir okkur ekkert fram á við heldur leiðir bara til stöðnunar. Dæmi: Citroen DS var ótrúlega framúrstefnulegur bíll á sínum tíma. Að búa til nútíma útfærslu væri bara bjánalegt, því nýji bíllinn myndi glata helsta einkenni gamla DS, hve framúrstefnulegur hann var og hvað hann ýtti bílaiðnaðinum áfram. Og hvað varðar Ford 49er þá væri nær lagi að Ford í USA myndi hanna nokkra almennilega fólksbíla og búa svo til HotRod línu sem myndi skírskota til gömlu hotrod bílanna. Ég sé fyrir mér Ford Focus þriggja dyra sem er búið að HotRodda, ekkert boddíkit kjaftæði heldur t.d. lækkuð og víðari sportfjöðrun með stærri felgum. Algerlega einlitaður með djúpum sterkum litum og með nýju grilli, ljósum, fram- og aftursvuntu. Eitthvað spes undir húddið og innréttingu með einföldu en grógu trimmi. Og nei, ég er ekki að meina RS :)
En hafið mig nú afsakaðan ég er að fara að finna símanúmerið hjá Jac Nasser…