Þegar rætt er um Porsche er auðvelt að ruglast á tveimur heitum. Annars vegar Boxster, sem er heiti á nýjum Porsche sportbíl en hins vegar ,,boxaravélin“ (hefur einnig verið nefnd flatkökuvélin) en svo nefnist vélin sem er í 911 og Boxster. Boxaravélin er þaulreynd vélarhönnun, m.a. þekkt í algengum bílum (VW-bjallan, Subaru o.fl.) og í einkaflugvélum (Lycoming). Fjöldi sílindra er oftast 4 nema hjá Porsche sem hefur þá 6. Stimplarnir ganga í láréttum sílindrum, 3 hvoru megin andspænis hverjum öðrum. Kostir boxarans, umfram venjulegri vélargerðir, eru margir. Sem dæmi má nefna þann kost að vélin er í innbyrðis jafnvægi; hún fellur t.d. ekki á hliðina sé henni hallað eins og upprétt vél myndi gera. Þetta er t.d. mikilvægt atriðið varðandi flugvélar þar sem halli boxarans í flugi hefur minni áhrif á stöðu þungamiðjunnar (stjörnuhreyfill er enn betri hvað þetta varðar í flugvél).
Í bíl eru kostir boxarans margir. Innbyrðis jafnvægið ekur stefnutregðu og rásfestu bílsins og vegna þess hve boxarinn er lágur liggur þyngdarmiðja bílsins lágt, jafnvel í sömu hæð og hjólnafir. Fyrir bragðið verður hann stöðugri og öruggari. Vegna þess hve boxarinn er lágur og breiður hentar hann mjög vel í sportbíl þar sem sóst er eftir sem bestum aksturseiginleikum og veggripi og er þá oft hafður í miðjum bíl eða aftur í. Ennfremur gerir lögun boxarans kleift að hafa lag bílsins þannig að gagnist sem best sportbíl (lágur og breiður).
KÆLINGIN
Fram að árgerð 1997 voru allir Porsche-boxarar loftkældir en það ár kom á markaðinn nýr sportbíll, Boxster, með vatnskælda boxaravél fyrir miðju. Sú vél er með 2,7 eða 3,2ja lítra slagrými.
Í framhaldi kom svo árgerð 1998 af Porsche 911, sem er 4. kynslóð 911-bílsins, með vatnskælda boxaravél. Sú vél er með 3,6 lítra slagrými.
Hvers vegna vatnskæling? Færa má rök fyrir því að einfaldara og skynsamlegra sé að kæla vél með lofti heldur en að kæla vatn með lofti og kæla síðan vélina með vatninu. En það eru fleiri hliðar á málinu.
Tvær meginástæður eru fyrir því að Porsche hefur boxarann með vatnskælingu: Í fyrsta lagi er vatnskælikápan utan á vélinni hljóðeinangrandi. Vélarhljóð inni í bílnum minnkar umtalsvert. Í öðru lagi fylgir loftkælingu sá ókostur að jafnvel minnsti olíuleki getur haft þau áhrif að ólykt verður af loftblæstri miðstöðvarinnar. Vatnskæling leysir það vandamál þótt miðstöðin verði ekki jafn rosalega fljót að ná upp hita og hún gerði með kælilofti vélarinnar.
NÝR 911 – ELDRI 911
Sá 911 sem nú er við lýði kom fyrst á markaðinn vorið 1995. Tegundarheiti bílsins í hönnun og framleiðslu var þá 993 (loftkæld vél) . Sá Porsche 911 Turbo sem nú er kynntur ber tegundarheitið 996 (vatnskæld vél).
Útlitsmunur þriðju og fjórðu kynslóða af 911 er greinilegur og mestur hjá Turbo-bílnum. Afturbrettin, sem áður sköguðu langt út til hliðanna (nefndust stundum ,,magabeltið” ) á 911 Turbo, eru nú hluti af yfirbyggingunni.
Eldri 911 bílnum, ekki síst Turbo, fylgdi sá ókostur að veghljóð og hávaði inni í bílnum gat orðið svo mikill, þegar kröftunum var beitt, að varla var hægt að hlusta á tónlist að gagni í bílnum. Í Bandaríkjunum var þetta meira vandaál en í Evrópu vegna þess að af öryggisástæðum var þar hafður meiri þrýstingur í dekkjum bílanna.
Tæknimenn Porsche höfðu lengi rannsakað hljóðmyndunina í 911 bílnum og höfðu m.a. komist að því að sá hluti botnplötu bílsins sem er á milli framstólanna og vélarrúmsins virkaði eins og hljóðmagnari vegna þess hvernig afturhjólastellinu var fest upp undir bílinn.
Í nýja 911 bílnum hefur þetta verið leyst þannig að slegnar hafa verið tvær flugur í einu höggi: Lausnin reyndist m.a. fólgin í því að nota sama afturstellið og Porsche notaði í 928 bílnum (nefnist Weissach-afturstellið og er fræg hönnun frá Porsche). Í sem stystu máli þá er breytingin sú að nú eru hjólfestingar á sjálfstæðum stálbita sem haldið er með gúmfestingum við botn bílsins. Ennfremur eru hjólarmar og stífur með gúmfóðraða liði en allt dregur þetta verulega úr leiðni veghljóðs milli hjóla og yfirbyggingar. Árangurinn er ótrúlega mikill – nú má hlusta á fínustu upptökur á geisladiskum í akstri og njóta þeirra til fulls í Porsche 911.
En þetta er ekki eini kostur Weissach-afturstellsins. Það sem mestu máli skiptir er að þessi tæknibúnaður bætir aksturseiginleika bílsins umtalsvert: Þegar þungi leggst á afturhjól í beygju stýrist það innávið um nokkrar gráður – með Weissach-afturstellinu fær bíllinn eiginleika fjórhjólastýris og lætur mun betur að stjórn, ekki síst við erfiðar aðstæður.
Accent ‘95 - Micra 2,0GTi ’96