Í ljósi pósts hér á spjallinu: “löggur í leyni” frá 7. apríl ákvað ég að senda inn þessa ritgerð sem ég skrifaði fyrir tveimur árum síðan.
Löggæsla - Sýnileg eður ei
Það hefur vafalaust drifið á daga margra að verða fyrir því óláni að fá sekt fyrir of hraðan akstur. Þá kemur upp spurningin um það af hverju viðkomandi ökumaður ók yfir leyfilegum hámarkshraða. Jú, löggæslan var ekki sýnileg. Lögreglubíl hafði verið komið haganlega fyrir undir mislægu gatnamótunum í Ártúnsbrekkunni þar sem tveir lögregluþjónar, vopnaðir radar, voru að stunda hraðamælingar í þeim tilgangi að grípa brotamennina glóðvolga. Hinum óheppna ökumanni sem er til umræðu hér var litið í baksýnisspegilinn þar sem blasir við honum lögreglubíll með blikkandi ljós. Þar fékk veski ökumannsins að kenna á því en sjóður lögreglunnar jókst.
Löggæsla - sýnileg eður ei. Hver eru rökin fyrir því að hafa löggæslu ósýnilega, það er að segja, löggæslu sem einungis er sýnileg þeim sem verður fyrir barðinu á henni. Gott og vel, sá sem verður fyrir því óhappi að vera gripinn af lögreglu á ólöglegum hraða mun hugsa sig tvisvar, ef ekki þrisvar um áður en hann ákveður að keyra á óleyfilegum hraða aftur - Einn ökumaður af tugþúsundum í umferðinni hefur bætt ráð sitt, í það minnsta til einhvers skamms tíma!
Á hinn bóginn ber svo að líta á þá staðreynd að tekjur lögreglu aukast við að sekta þá sem brjóta lög. Lögreglan hefur þá meira fé til umráða - Það þýðir að öllum líkindum betri löggæslu, er það ekki það sem við öll viljum? Með lögum skal land byggja.
Sýnileg löggæsla - Hver hagnast á því að löggæslan sé sýnileg? Svarið er borðleggjandi fyrir hvern hugsandi mann. Hagur allra liggur í því að löggæsla sé sýnileg. Ökumanni sem verður það ljóst að lögreglubíl er lagt á áberandi stað hjá umferðargötu hægir umsvifalaust á sér, rétt eins og allir ökumenn umhverfis hann. Þarna náði einn lögreglubíll til fjölda ökumanna sem á svipstundu voru leiddir af villu síns vegar. Sýnileg löggæsla heldur ökumönnum á mottunni og slysum ætti þar af leiðandi að fækka.
Auðvitað ætti ekki að þurfa að hafa lögreglubíla eins og einhver auglýsingaskilti til að minna ökumenn á það að aka ekki á ólöglegum hraða, en dæmin sanna að hinn venjulegi ökumaður grípur hvert tækifæri sem gefst til að keyra örlítið hraðar en leyfilegt er.
Er ekki betra að tíu ökumenn bæti ráð sitt í einni andrá við að sjá lögreglubíl heldur en að einn af þessum tíu sé tekinn og látinn svara til saka?