Jaguar XJ, Series III Árið 1968 fékk heimurinn að sjá síðasta sedan bíl hannaðan af Sir William Lyons, stofnanda Jaguar Cars Ltd. Bíllinn var nefndur XJ6 og markar upphaf hinnar eiginlegu XJ línu sem var í framleiðslu frá 1968-1992. Á þessum 24 árum voru framleiddir yfir 180.000 stykki. XJ bíllinn fékk á þeim 2 andlitslyftingar og eru módelin nefnd Series I (’68-‘73), II (‘73-‘79) og III (’79-‘87/’92). Aðrir XJ bílar eru XJ40 (’87-‘94) og X300 (’95-‘02) og glænýr bíll (X350) kynntur 3. desember á síðasta ári. Vert er að minnast á XJ Coupe sem er tveggja dyra útgáfa, framleidd ’75-’77 og mjög sjaldgæfir bílar í dag.

Þess má geta að módelin eftir XJ40 svipar meir og meir til upprunalega XJ.

Hér verður fjallað um Seríu 3 - Jaguar eins og flestir sjá hann fyrir sér.

Sama skelin er í þessum þremur týpum en helsti munurinn liggur í stuðurum, hurðahandföngum, hækkun á toppi (SIII), grilli, afturljósum og innréttingu. Pininfarina hafði hönd í bagga við seinni andlitslyftinguna.

Sería 3 fæðist í miklu niðurlægingartímabili hjá Jaguar. Þá er fyrirtækið hluti af British Leyland samsteypunni og starfsandinn lélegur. Fyrstu bílarnir voru all misjafnir en eftir að fyrirtækið losnaði frá BL uppúr 1980 fóru þeir stórbatnandi. Hryllingssögur um bilanir í Jaguar eru margar til komnar frá þessum tíma. Auk þess koma sumir eigendur ekki fram við Jaguar eins og vera skyldi varðandi viðhald, umhirðu og virðingu fyrir slíkri listasmíðum. Aukið gæðaeftirlit sem var tekið upp í kringum 1980 fól meðal annars í sér að framleiðendur hluta í Jaguar bíla, þurftu sjálfir að borga brúsann ef bilun í ábyrgð var rakin til þeirra.
Bílar frá ’84 eru taldir einna bestir hvað varðar kram og vél. Bílar frá ’86 eru með bestu lakkvinnsluna.

Jaguar XJ er til í Sovereign, Vanden Plas útfærslum. XJ er einnig til undir nafninu Daimler og Daimled Double Six (fer eftir markaðssvæðum).
Bílarnir komu upphaflega á 6x15” stál eða álfelgum. Samlæsing ásamt rafdrifnum rúðum er staðalbúnaður.

Algengasta vélin í þessum bílum var 4.2 lítra línu sexa með 2 yfirliggjandi knastásum. Þessi vél á rætur sínar að rekja til kappakstursvélar og notuð í XK bílunum. Þessi vél er einnig til 3.4 lítra en færri en 6.000 slíkir bílar voru framleiddir (eldri útfærslur notaðar í öðrum bílum eru 2.8 og 3.8 lítra). Og síðast en ekki síst er hin ógurlega 5.3 lítra V 12 vél sem kom úr keppnisbílum Jaguar í Le Mans. Um þær mundir sem Sería 3 var að taka við af 2 fengu vélarnar beina innspýtingu, Bosch L-Jetronic. Eðlileg eyðsla telst í kringum 15-20 lítrar, nær 20 með 12 cylindra vélinni. Hún er góður mælikvarði á ástand vélar og skiptingar, sé hún óeðlilega mikil er í óefni komið.

4.2 lítra vélin er um 200 hestöfl og togar 313 Nm við 4300 snúninga. Hröðun frá 0 til 100 km/klst tekur tæpar 11 sekúndur og hámarkshraði er 206 km. Samsvarandi tölur fyrir 5.3 lítra (HE) vélina eru tæp 300 hestöfl og 433 NM við 3250 snúninga, 0-100 tekur 7-8 sekúndur og hámarkshraði 240 km. Ekki slæmt fyrir 20 ára gamlan bíl nálægt 2 tonnum að þyngd. 6 cylindra bíllinn vegur 1830 kg. en við tvöföldun cylindrafjölda bætast við slétt 100 kg.
Vegna þess hve sérstök smíð Jaguar vélin er, tekur kaninn oft upp á því að setja V8 Chevy 350 vél frekar en að gera við bili hún. Að minnsta kosti 2 slíkir bílar hér á landi (S2 & S3). Aðili í Texas sem sérhæfir sig í slíkum breytingum hefur selt yfir 4.000 ”breytingarkit”. Kostirnir eru að 350 vélin nánast smellpassar, varahlutir ódýrir, viðhald og vinna tiltölulega einföld.
Jaguar pjúristar kalla bíla breytta á þennan hátt hlunka (e. lump).


Í 6 cylindra bílunum er Borg Warner (BW66) sjálfskipting en GM Turbo-Hydramatic 400 (TH400) er fyrir 12 cylindrana. Báðar eru þriggja þrepa. BW skiptingin er kannski það minnst fágaða í bílnum. Hún hefur verið kölluð trukkaleg og hæg þó mjúk sé. Hún er einnig veikur punktur og hefur höfundur reynslu af hruni slíkrar. TH400 hefur hins vegar reynst mjög vel. Um það bil 10% bíla voru seldir beinskiptir.

Fjöðrun í Jaguar er einstök sé hún í góðu lagi. Gæðin helgast ekki síst af fjölmörgum gúmmíhringjum og þéttingum. Galli á gjöf Njarðar er þó að oft er erfitt og tímafrekt að komast að til að skipta um. Í bílnum eru alls 6 demparar, 2 að framan og 4 að aftan.

Allir Jaguar fólksbílar (frá 1958) koma með diskabremsum allan hringinn (áratugum á undan sinni samtíð). Afturbremsurnar í XJ eru nokkuð sérstakar að því leyti að diskarnir eru ekki út við hjól heldur innar á öxlinum nær miðju (uþb. 40 cm á milli þeirra). Í Le Mans kappakstrinum á sjötta áratugnum gáfu fullkomnar diskabremsur Jaguar liðinu forskot og urðu þeir sigursælir.

Þegar maður sest inn í Jaguar fær maður það strax á tilfinninguna að vera kominn í hágæða breska míníseríu þar sem sagan gerist á ættaróðali. Sæti eru fallega leðurklædd, hnota í mælaborði og stokk. Grannt stýrið og gírstöngin ber vott um kappakstursarfleifð. Mælarnir eru vel staðsettir, mest áberandi eru hraða- og snúningshraðamælir. Smærri mælar eru 2 og 2 til beggja hliða. Það eru olíuþrýstings-, volta-, bensín- og hitamælir (vélar). Í miðju mælaborðsins er takki til að skipta á milli eldsneytisgeyma því þeir eru 2 og aðskildir (enn ein sérviskan).
Til eru sögur af Jaguar eigendum sem hafa haldið bílinn bilaðan en hafa að lokum fattað að skipta á milli bensíngeyma. Rofar fyrir rafmagnsrúður eru á hefðbundnum stað í stokknum fyrir aftan gírstöngina og aftur af þeim hólf sem lokast með armpúða. Maður situr lágt í Jaguar. Bæði er bíllinn lágur (17 cm í lægsta punkt) og sætin lág.


Til áhættuþátta má telja einna helst ryð í kringum afturfjöðrun og undir aftursætum. Sé svæðið illa farið er nánast hægt að henda bílnum. Vélarnar eru einnig viðkvæmar fyrir ofhitnun. Eðlilegur vinnsluhiti ætti að vera í kringum 88°c. Sé bíllinn með AC (Air Con) er gott að vera meðvitaður um að ef það bilar þá er ekki hægt að keyra bílinn því það er hluti af eldsneytiskerfinu (kælir bensínið). Svona stykki auk vinnu kostar líka skilding.
Lítið og einfalt mál er að losa mælaborðið frá og eykur það hættuna á að “sunnudags” bíll sé í raun niðurspólaður.

Almennt eru varahlutir fremur ódýrir í þessa bíla. Hægt er að panta í gegnum netið eða í gegnum verkstæði hér á landi sem hafa tekið að sér að þjónusta Jaguar. Kostnaður við viðgerðir liggur frekar í vinnu við að finna út hvað hrjáir hann og/eða að komast að biluninni.

XJ Series III (LWB) er 4.95 metrar að lengd, 1,77 á breidd og 1,37 á hæð.

Eitt sinn var Jaguar eigandi spurður hví hann þrjóskaðist við að eiga og viðhalda Jaguar fremur en að fá sér bara BMW. Hann svaraði því til að heldur vildi hann eiga fallega konu sem þyrfti smá nostur og uppihald en ljóta konu sem eldaði, vaskaði upp og gerði allt fyrir hann.


Starfandi eru Jaguar klúbbar um allan heim og virðist einn slíkur vera í fæðingu hér á landi, jaguar.ink.is.
Samkvæmt bifreiðaskrá eru tæplega 120 Jaguar bílar hér á landi, þar af 20-30 Series III.

Nokkrir af þessum bílum eru opinberlega til sölu og ásett verð í kringum 6-1.000 þúsund.
Séu erlendar sölusíður svo sem ebay.com eða mobile.de sjást oft verð frá 150þ. upp í ca hálfa milljón.


Heimildir:
www.jag-lovers.org
www.leoemm.com
Ýmsar síður fundnar með google


Eftir að ég ákvað að skrifa þessa grein og kynnti mér vel XJ línuna hef ég rekist á margar athygliverðar týpur svo sem XK150D, gömlu SS 100, MK týpurnar ofl. Hreint út sagt ótrúlegt hve lunknir þeir voru að hanna geysilega fallega bíla.

Njótið.