Sæl öll.
Ég held að engin bílasíða á landinu geti toppað eftirfarandi tölur yfir bílaáhugamálið á hugi.is
Inni núna:(12)
Uppsöfnuð stig:samtals (60.206)
Innsendar greinar:samtals (394)
Innsendar myndir:samtals (789)
Hvað er mikið á korknum: (30.948)
Hve mörg álit á greinum: (10.869)
Sú hugmynd hefur verið þrálát í kolli mínum að nauðsynlegt sé að koma upp öflugri bílasíðu öllu bílaáhugafólki til gagns og gamans.
Þessi síða er nú þegar orðin ansi öflug þar sem hér er hægt að fá svör við öllum mögulegum spurningum og hugmyndum og hér skiptist fólk á skoðunum á nokkuð málefnalegum forsendum. Hér er dónaskapur og heimska sjaldséð enda almennt gott fólk sem hefur áhuga á bílum:)
Allavega, það er þó eitt sem mér þykir vanta. Það er vettvangur fyrir allt sem snýr að okkur sem neytendum. Neytendasíðan þykir mér ekki henta í þetta þar sem þar er mikið af grænu fólki sem almennt er haldið ranghugmyndum um bíla og því ekki orðum á það eyðandi.
Hinsvegar þyrfti bílasíðu þar sem fólk gæti helt úr skálum reiði sinnar eftir að hafa fengið lélega þjónustu, ósanngjarna meðhöndlun eða eitthvað í þessum dúr.
Það er mjög algengt að fólk fái misjafna þjónustu hjá verkstæðum og umboðum landsins og nær öllu öðru sem viðkemur þjónustu bílsins sem er satt best að segja ekkert smámál. Allir þurfa að láta smyrja, þjónustuskoða, ástandsskoða, sprauta, gera við, rétta, tjúna, umfelga og bóna svo eitthvað sé nefnt.
Þetta er hinsvegar vandmeðfarið efni. Það vill engin vera hafður að rangri sök og því þyrfti gott fyrirkomulag á þetta. Fólk þyrfti að geta sent inn sýnar umkvartanir undir nafni en ekki undir huga nikki og í öllum tilfellum ætti að senda kvörtunina til viðkomandi þjónustu eða söluaðila og gefa honum færi á að svara kvörtuninni efnislega.
Þetta eru nú bara mjög grófar hugmyndir hjá mér og ég hef ekki hugmynd um hvort þetta er framkvæmanlegt hér eða ekki.
En orð eru til alls fyrst og því skrifaði ég þetta. Ég myndi gjarnan vilja fá svör ykkar við þessu og einnig reyndari stjórnenda.
Ég hef fylgst með vaxandi neikvæðni erlendis gegn bílaáhugafólki og er svo komið að í Bretlandi er næstum allt bannað. Lögreglueftirlit er í hámarki, hraðatakmarkanir komnar út fyrir alla skynsemi og sannleikanum er hagrætt til að sýna fram á árangur sem ekki er til staðar.
Ekki nóg með það heldur er hættan sú að fyrirtæki sem tengjast bílaiðnaðinum lúffi líka og þetta bitnar að lokum á neytandanum.
Ég hafði hugsað mér að þetta yrði víðtækur spjallkorkur t.d. þar sem hægt væri að fara í saumana á umræðunni og stjórnendur tækju að sér að skora á hagsmuna aðila að svara fyrir sig.
Það hafa allir sögur af góðri eða slæmri þjónustu, það hafa allir skoðanir á forvörnum og umferðareftirliti en það þarf að skapa þrýsting ef við eigum að hafa áhrif.
Við erum líka að tala um stór mál, hversvegna er ekki búið að ganga frá gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar á sómasamlegan hátt, afhverju fullyrðir umferðarráð og VÍS að nagladekk séu öruggari, afhverju er ekki hægt að fá fornbílatryggingar á jeppa og afhverju innkallar bílaumboð ekki bíla hér á landi sem eru innkallaðir erlendis… við þurfum svör við þessum spurningum og það er hægt að þrýsta á um að fá þessi svör ef réttur vettvangur er skapaður.
Hver er ykkar skoðun? Erum VIÐ ekki vinir bílsins?